Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2015, föstudaginn 18. september var haldinn 232. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Hofi Höfðatorgi og hófst hann kl. 12:08. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Tomasz Chrapek, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Trausti Harðarson. Einnig: Hermann Valsson VG, Kári Arnarsson fulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Andrés B. Andreasen fjármálastjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 3. sept. þar sem tilkynnt er að Aðalsteinn Haukur Sverrisson taki sæti Grétu B. Egilsdóttur sem varamaður í íþrótta- og tómstundaráði.
2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 16. sept. sl. þar sem tilkynnt er að Dóra Magnúsdóttir taki sæti Evu Baldursdóttur sem aðalmaður í íþrótta- og tómstundaráði.
3. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 17. júlí sl. með ósk um umsögn ráðsins um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar. Halldór Nikulás Lárusson mætti á fundinn og kynnti skýrsluna og svaraði fyrirspurnum.
Frestað.
kl. 12:20 kom Eva Baldursdóttir á fundinn.
kl. 12:57 vék Hermann Valsson á fundinn.
4. Lagt fram bréf Jaðar íþróttafélags dags. 25. júlí sl. vegna aðstöðu fyrir jaðaríþróttir.
Alexander Kárason formaður Jaðars mætti á fundinn og kynnti félagið.
Fulltrúi Framsónar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina fagnar góðum og metnaðarfullum hugmyndum frá Íþróttafélagi Jaðar. Í Bréfi frá Íþróttafélagi Jaðars til ÍTR 25.07.2015 eru 411 meðlimir skráðir hjá félaginu og í dag eru félagsmenn samkvæmt kynningu skráðir 1.031. Engin félagsgjöld eru greidd til íþróttafélagsins Jaðars. Beiðni er um húsaleigustyrk upp á 26,4 milljónir á ári fyrir starfssemi sem ekki hefur neina greiðandi félagsmenn. Upphæðin sem sótt er í nær vel upp rekstur á nýju íþróttahúsi sem mörg íþróttafélögin í Reykjavík myndu gjarnan vilja þiggja. Vill fulltrúi framsóknarflokksins ítreka þörf þess á að Jaðar setji upp félagsgjöld sem fyrst svo hægt sé að meta raunverulegan fjölda félagsmanna, þörfina á framkvæmdinni og forgang þess að fé að þessari upphæð skuli fara í þessa framkvæmd frekar en t.d. íþróttahús í einhverju öðru hverfi.
5. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 17. júlí sl. með ósk um umsögn um tillögu borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á áhorfendastæðum við Leiknisvöl.
Jafnframt lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði um endurbætur á áhorfendasvæðum á Leiknisvelli.
Lögð fram drög að umsögn ráðsins og hún samþykkt.
kl. 13:45 vék Eva Baldursdóttir af fundi.
6. Lagt fram bréf sviðsstjóra MOF dags. 3. sept. sl. með ósk um umsögn ráðsins um endurskoðaða aðgerðaráætlun ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar til ársins 2020.
7. Lögð fram að nýju hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 31. júlí sl. um aðskilnað borgar og íþróttafélaga.
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar áhugavert erindi.
Þegar það kemur að stuðningi yfirvalds við starfsemi aðra en þá sem snýr að eiginlegri stjórnsýslu, s.s. stuðningi við íþróttafélög, rekstur menningarstofnana og uppihaldi þjónustu á borð við sundlaugar eða heilsugæslu, þá eru tveir meginskólar hugsunar. Annarsvegar sá sem að telur að það sé í raun eðlilegt að samfélagið beri kostnaðinn af ýmsum kostnaðarliðum saman, og svo hinn sem telur að einungis notendur þjónustunnar eigi að borga fyrir hana. Íþrótta- og tómstundaráð tekur vissulega undir að alltaf má huga að hagkvæmni í rekstri með hverjum þeim leiðum sem völ er á og reynt að tryggja að sem mest þjónusta fáist fyrir þá peninga sem lagðir eru í þjónustuna. Að því sögðu er það skoðun ráðsins að í raun sé það heillavænlegra að samfélagið allt taki þátt í rekstri íþróttafélaga, enda er það ekki svo (eins og komið er inn á í einni athugasemd við tillöguna) að íþróttafélögin geti með góðu móti staðið undir sér sjálf. Þess utan er ágætt að minnast á það að sýnt er að þátttaka í skipulagðri hreyfingu undir stjórn fagfólks eykur heilbrigði og dregur þannig úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu.
8. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 20. ágúst sl. vegna uppbyggingar á nýju félagssvæði Fram í Úlfarsárdal.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Sjónarmið Knattspyrnufélagsins Fram vegna flutnings félagsins og uppbyggingar á nýju félagssvæði þess eru vel skiljanleg þegar höfð eru í huga þau fyrirheit um íbúafjölda, sem voru gefin þegar Fram féllst á að flytja starfsemi sína í Grafarholt-Úlfarsárdal. Ljóst er að félagið hefur ásamt íbúum þessara hverfa sýnt borginni ríkulegan samstarfsvilja og langlundargeð vegna seinkunar, sem varð á uppbyggingu vegna efnahagsáfalla í þjóðfélaginu á sínum tíma. Ljóst er að sú ákvörðun vinstri meirihlutans í borgarstjórn að draga verulega úr íbúabyggð í Úlfarsárdal, frá því sem áður var ákveðið, rýrir mjög möguleika rekstraraðila á því að veita öfluga þjónustu í hverfinu og á það ekki síst við um íþróttastarf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka enn og aftur þá skoðun sína að skipulag Úlfarsárdals verði endurskoðað og íbúðum þar fjölgað með það að markmiði að þar skapist góð skilyrði til að reka blómlegt íþrótta- og félagsstarf og að hverfin Grafarholt-Úlfarsárdalur verði þannig sjálfbær hvað varðar fjölbreytilega þjónustu.
9. Lögð fram greinargerð Tónlistarþróunarmiðstöðvar dags. 31. apríl sl. vegna samstarfssamnings við ÍTR um TÞM.
10. Lagt fram bréf knattspyrnufélagsins ÍR vegna slita á samstarfi við Leikni um rekstur kvennaknattspyrnu.
11. Fjárhagsáætlun 2016. Andres B. Andreasen fór yfir fjárhagsáætlunina og svaraði fyrirspurnum ásamt sviðsstjóra.
12. Lögð fram fyrirspurn frá fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Til þess að skoða sögu og yfirfara útdeilingu/skiptingu tímatöflu milli knattspyrnufélag á tímum á innigervigrasvelli Egilshallar er óskað eftir öllum samningum frá byggingu hallarinnar til dagsins í dag þ.e. samningum Reykjavíkurborgar við byggingaraðila/eiganda hallarinnar, samningum Reykjavíkurborgar við Fjölnir og önnur knattspyrnufélög þegar byggingin var byggð, alla þá samninga sem hafa verið gerðir frá bygginga tímanum og til dagsins í dag og þá sem eru í gildi í dag. Einnig er óskað eftir frá ÍTR og ÍBR sem sér um útdeilingu/skiptingu tímatöflu milli knattspyrnufélaga í dag, upplýsingar sem sýna skiptingu milli knattspyrnufélaganna fyrir hvert ár fyrir sig frá byggingu þannig að hægt sé að yfirfara tímaúthlutannar breytingar frá upphafi, frá ári til árs.
13. Lögð fram eftirfarandi tillaga frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina:
Til að meta hversu vel hefur tekist til og hvað má bæta frá sjónarhorni Íþróttafélaga Reykjavíkurborgar með samstarfssamning Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR) og Íþrótta- og tómstundaráðs (ÍTR) lætur ÍTR framkvæma skoðanakönnun á því sem send yrði á stjórnarformenn og framkvæmdastjóra allra íþróttafélag Reykjavíkurborgar.
Frestað.
14. Lögð fram eftirfarandi tillaga frá fulltrúum Framsóknar og flugvallarvina:
Knattspyrnusamband Íslands og Ríkisstjórn Íslands er samkvæmt því sem komið hefur fram í fjölmiðlum byrjuð að skoða yfirbyggðum þjóðarleikvangs fyrir knattspyrnu og byrjað verður að miðað við að staðsetningin verði Laugardalurinn. Miðað við það léttist á þeirri þörf Reykjavíkurborgar að byggja upp yfirbyggt knattspyrnuhús í Laugardalnum til að verða við mikilli þörf knattspyrnudeilda íþróttafélaga borgarinnar. Samkvæmt fyrri fyrirspurn fulltrúa til íþróttafélaga borgarinnar var næst á eftir Laugardalnum, svæði Víkings sem góð staðsetning fyrir næsta yfirbyggða knattspyrnuhús. Fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina óskar því upplýsingum um hvað í grófum tölum myndi kosta borgina í innrileigu og/eða byggingarkostnað að byggja næsta yfirbyggða knattspyrnuhús/Egilshöll á keppnissvæði Víkings.
Frestað.
15. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð skorar á borgarráð og SEA að samþykkja fjárveitingu til endurbóta á þeim gervigrasvöllum í borginni, sem eru með dekkjarkurl á yfirborði, og setja þess í stað viðurkennt gæðagras og gúmmí, sem stenst ýtrustu heilbrigðis- og umhverfiskröfur.
Frestað.
16. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir afhendingu á öllum rannsóknum, skýrslum, minnisblöðum o.þ.h. gögnum, sem gerðar hafa verið á vegum Reykjavíkurborgar varðandi notkun dekkjakurls á gervigrasvöllum.
Fundi slitið kl. 15:00.
Þórgnýr Thoroddsen
Eva Einarsdóttir Tomasz Chrapek
Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir
Trausti Harðarson
PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 18.9.2015 - prentvæn útgáfa