No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2012, föstudaginn 13. janúar var haldinn 154. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Borgartúni 12 og hófst kl. 11.10. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Karl Sigurðsson, Stefán Benediktsson, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon og Geir Sveinsson. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Frímann Ari Ferdinardsson ÍBR, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf Skipulags- og byggingasviðs dags. 23. nóv. sl. vegna brettavallar í Laugardal.
Jafnframt lögð fram samþykkt skipulagsráðs um málið frá 14. des. sl.
2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um Vesturbæjarlaug frá 25. nóvember sbr. liður 10 í fundargerð 150. fundar
Í tilefni af hálfrar aldar afmæli Vesturbæjarlaugar, samþykkir Íþrótta- og tómstundaráð að skipa starfshóp vegna framtíðarskipulags laugarinnar. Hópurinn fjalli m.a. um eftirfarandi:
• Hugmyndir um viðbyggingu við Vesturbæjarlaug með innisundlaug á neðri hæð en líkamsræktarstöð á vegum einkaaðila á efri hæð, m.a. um ólíka valmöguleika vegna staðsetningar.
• Hugmyndir um vatnsrennibraut við laugina og staðsetningu hennar. Vesturbæjarlaug er eina stóra útilaug borgarinnar, sem er án vatnsrennibrautar fyrir börn og unglinga.
• Hvernig starfsemi laugarinnar og sundlaugartúnsins verði sem best þróuð til framtíðar í þágu barna- og fjölskylduvænnar tómstundaiðkunar.
Í hópnum sitji forstöðumaður laugarinnar auk fulltrúa frá Íþrótta- og tómstundaráði, Hverfisráði Vesturbæjar, Íbúasamtökum Vesturbæjar, Prýðifélaginu Skildi og Mími – vináttufélagi Vesturbæjar og Knattspyrnufélagi Reykjavíkur.
Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta gegn 3 atkvæðum minnihluta að vísa tillögunni í starfshóp um sundlaugar.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins harma að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar skuli ekki vilja samþykkja tillögu um að skipaður verði starfshópur til að fjalla um þróun Vesturbæjarlaugar og sundlaugartúnsins til framtíðar með fulltrúum frá ólíkum samtökum íbúa í Vesturbænum auk fulltrúa ÍTR. Er greinilegt að meirihlutinn vill ekki veita íbúum í Vesturbænum og samtökum þeirra beina aðkomu að vinnu við framtíðarskipulagningu sundlaugarmála í hverfinu.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:
Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna nýstofnuðum starfshópi um framtíð sundlaugana í Reykjavík og telur að ekki sé þörf á að stofna sérhóp um Vesturbæjarlaug heldur sé horft á sundlaugarnar með heildarsýn í huga.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks:
Sá starfshópur, sem meirihlutinn vísar til, á að fjalla um allar sundlaugar borgarinnar og þar fá íbúasamtök ekki beina aðkomu eins og lagt er til í tillögu Sjálfstæðisflokksins. Mörg dæmi eru um að starfshópar séu skipaðir á vegum Reykjavíkurborgar vegna endurskoðunar á einstökum mannvirkjum eða þróunar á ákveðinni þjónustu innan hverfa. Það er miður að meirihlutinn vilji ekki fallast á það í þessu tilviki og gefa samtökum íbúa beina aðkomu að þeirri vinnu með skipun fulltrúa.
3. Lagt fram bréf skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjórnar dags. 8. des. sl. vegna sumarstarfa 2012.
Vísað til Vinnumiðlunar Hins Hússins og mannauðsdeildar ÍTR.
4. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 24. nóv. sl. vegna Atvinnutorgs, starfsþjálfun fyrir 18-25 ára.
Vísað til mannauðsdeildar ÍTR.
5. Lagt fram bréf mannréttindastjóra Reykjavíkurborgar dags. 24. nóv. vegna tillögu í íþrótta- og tómstundaráði varðandi stöðu jafnréttis í einstaklingsíþróttum.
Vísað til framkvæmdastjóra.
6. Lagt fram bréf hverfisráðs Laugardals dags. 8. des. sl. varðandi íþróttaaðstöðu í Laugardal.
Vísað til framkvæmda- og eignasviðs og SFS til umsagnar.
7. Lagt fram bréf Frjálsíþróttaráðs Reykjavíkur dags. 13. des. sl. vegna aðstöðumála.
Vísað til framkvæmdastjóra.
8. Lagt fram 10 mánaða uppgjör ÍTR.
9. Lagt fram bréf tennisdeilda Þróttar, Fjölnis og Víkings dags. 23. desember sl. vegna inniaðstöðu fyrir tennis í Reykjavík.
Vísað til umsagnar Framkvæmda- og eignasviðs.
Gert var stutt matarhlé.
10. Lagt fram bréf hlaupahópa í Reykjavík dags. 28. des. sl. vegna almenningstíma í íþróttahúsum í Reykjavík.
Vísað til framkvæmdastjóra.
11. Lagt fram afrit af bréfi Skíðadeildar KR dags. 3. janúar sl. til Stjórnar skíðasvæðanna vegna Skálafells.
Kl. 13.00 vék Eva Baldursdóttir af fundi.
Kl. 13.05 vék Karl Sigurðsson af fundi.
12. Lögð fram hugmynd frá samráðsvefnum Betri Reykjavík. #GLLengja opnunartíma sundlauganna um helgar#GL frá 30. nóv. sl.
Lögð fram eftirfarandi bókun:
Í fjárhagsáæltun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2011 og 2012 þurfti að hagræða mikið hjá borginni og sundlaugarnar voru þar engin undantekning. Mesta hagræðingin var í breytingum á afgreiðslutíma um helgar þar sem hægt var að fækka vöktum úr tveimur í eina. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012 ákvað ÍTR að afgreiðslutími lauganna verði endurskoðaður frá og með 1. júní n.k. Þá er gert ráð fyrir að bætt verði við afgreiðslutíma hverfislauganna um helgar. Þess ber að geta að frá því að breytingarnar árið 2011 tóku gildi hefur Laugardalslaug verið opin alla daga til kl. 22:00.
Jóhanna Garðarsdóttir ÍTR sat fundinn undir þessum lið.
13. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra dags. 12. jan. sl. um Höfuðborgarráðstefnu Norðurlanda um íþróttamál í Reykjavík 2012.
14. Lögð fram eftirfarandi bókun Sjálfstæðisflokks vegna Ódýrari frístundir frá seinasta fundi liður 3.
Ódýrari frístundir voru eitt helsta kosningamál Samfylkingarinnar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar. Í málflutningi frambjóðenda flokksins kom oft fram að með ,,ódýrari frístundum“ væri átt við lækkun á kostnaði fjölskyldna vegna þátttöku barna- og unglinga í uppbyggilegu frístundastarfi. Í viðtali við oddvita Samfylkingarinnar frá 2. marz 2010 segir t.d. að markmið ,,ódýrari frístunda“ sé að lækka kostnað fjölskyldna og einfalda aðgengi að íþróttum, frístundum og listnámi og stefna þannig að almennari og meiri þátttöku á verði sem fleiri ráði við. Í kjölfar umræddra kosningaloforða mynduðu borgarfulltrúar Samfylkingarinnar meirihluta með Besta flokknum og síðan hafa þátttökugjöld fyrir flestar ef ekki allar frístundir á vegum borgarinnar hækkað verulega. Þá hafa mörg íþróttafélög verið knúin til hækkana á æfingagjöldum barna og unglinga á kjörtímabilinu þar sem samningar milli þeirra og Reykjavíkurborgar hafa ekki verið verðbættir og framlög borgarinnar því lækkað verulega að raungildi. Fróðlegt er að sjá með hvaða hætti Samfylkingin efnir kosningaloforð sín.
Fundi slitið kl. 13.35.
Eva Einarsdóttir
Stefán Benediktsson Kjartan Magnússon
Geir Sveinsson Marta Guðjónsdóttir