Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 152

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, þriðjudaginn 20. desember var haldinn 152. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 12.20. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Karl Sigurðsson, Óttar Proppé, Björn Gíslason og Kjartan Magnússon. Ennfremur: Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð:

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 2. des. sl. vegna atvinnustefnu Reykjavíkurborgar. Óskað er eftir umsögn íþrótta- og tómstundaráðs.
Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi umsögn:
Íþrótta- og tómstundaráð fagnar því að fram sé komin tillaga að atvinnustefnu Reykjavíkurborgar til lengri tíma. Í stefnunni eru fjölmörg atriði sem geta tengst íþrótta- og tómstundastarfi borgarinnar, t.d. er varðar menningarborgina, ferðamannaborgina og lífsgæðaborgina. Íþrótta- og tómstundaráð telur nauðsynlegt, miðað við stöðuna í atvinnumálum ungs fólks í dag, að sérstaklega verði fjallað um málefni ungs fólks í atvinnustefnu, bæði hvað varðar menntun og atvinnumöguleika. Horft verði til þeirrar stefnumótunar sem farin er af stað í málefnum ungs fólks í Reykjavík. Íþrótta- og tómstundaráð mælir með því að aðgerðaráætlun í atvinnumálum verði hrint í framkvæmd og lýsir yfir áhuga á samstarfi við þá þætti er beint snúa að ÍTR.

Í þessu sambandi vill ÍTR koma eftirfarandi á framfæri:
Undir flokknum um menningarborg eru skapandi sumarhópar nefndir og fagnar ÍTR þeirri hugmynd, enda metnaðarfullt starf þar á bakvið sem glæðir borgina lífi sumar hvert. ÍTR telur að skoða megi enn frekar önnur vel heppnuð verkefni, til dæmis Götuleikhúsið og Músíktilraunir.

Heilsuborgin Reykjavík er nefnd undir Ferðamannaborginni enda eru sundlaugarnar vinsæll áfangastaður ferðamanna í Reykjavík. ÍTR telur einnig að viðburður eins og Reykjavíkur maraþon séu góð kynning fyrir heilsuborgina og mörg tækifæri að finna þegar kemur að íþróttaviðburðum, bæði sem landskynning og einnig í atvinnusköpun.

Lífsgæðaborgin nefnir mikilvægi skjólgóðra og lifandi almenningsrýma og þar gæti ÍTR komið enn meira inn og slíka vinnu væri td. hægt að setja upp sem virkniverkefni en á þau er lögð áhersla í hlutanum um aðgerðir í málefnum atvinnuleitenda.

ÍTR hefur nú haldið úti námskeiðum sem eru samstarfsverkefni Hins hússins og Vinnumálastofnunar fyrir unga atvinnuleitendur. Eins var haldið úti starfsnámi og starfsþjálfun á árum áður á vegum ÍTR og ljóst að það er mikið af þekkingu, reynslu og vilja til að mæta enn betur þörfum ungra atvinnuleitenda sem er eitt af okkar brýnustu samfélagsverkefnum. Mikilvægt er að halda áfram þeirri ferð sem lagt var upp í sumarið 2011 en þá var ákveðið að veita þeim forgang í sumarstörf borgarinnar sem væru á fjárhagsaðstoð og þeim sem ekki fengu starf sumarið áður.

Eins er Atvinnutorgið mikilvægur hluti af atvinnustefnunni og skref í að gefa atvinnuleitendum tækifæri til að halda sér í virkni og undirbúa sig fyrir endurkomu út á vinnumarkaðinn.

ÍTR telur að Atvinnustefnan sé góður leiðavísir og að mikilvægt sé að fagráðin setjist niður og skoði markvisst hvernig hægt sé að fylgja stefnunni eftir og að skoða og kortleggja sérstaklega hvaða verkefni geti verið atvinnuskapandi.
Samþykkt með 3 atkvæðum meirihluta.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:
Enn einu sinni leggur núverandi meirihluti fram stefnumörkun í mikilvægum málum án nokkurs samráðs við hin almenna borgarbúa eða pólitíska fulltrúa borgarbúa í borgarstjórn. Aðeins einn borgarfulltrúi hefur komið að meginhluta þessa verks, sem endurspeglar því aðeins hluta þeirra sjónarmiða sem eiga að ráða för í svo mikilvægri stefnumótun. Á sínum tíma samþykkti borgarstjórn að þessi stefna skyldi unnin af þverpólitískum hópi borgarfulltrúa, en án nokkurrar heimildar borgarstjórnar setti núverandi meirihluti þessa vinnu í þann farveg að hún hefur einungis verið í höndum eins kjörins fulltrúa, Dags B. Eggertssonar. Þau drög að atvinnustefnu sem nú eru til umræðu eru því hvorki fullunnin né vel unnin. Að auki er með ólíkindum að meirihlutinn skuli einungis bjóða fagráðunum að koma með umsögn um fyrirliggjandi drög þessa eina borgarfulltrúa í stað þess að kalla fagráðin til ráðgjafar og samráðs á fyrstu stigum þessarar vinnu. Fulltrúar minnihlutans lögðu fram tillögu í borgarstjórn um að borgarfulltrúar allra flokka myndu í sameiningu setjast yfir þau drög sem fyrir liggja og koma þeim í þann búning sem málefninu og borgarstjórn sæmir, svo náðst gæti góð sátt um verkefnið Þá tillögu felldi meirihlutinn sem verður því einn og óstuddur að bera ábyrgð á svo ólýðræðislegum og óvönduðum vinnubrögðum. Í hinu ýtarlega plaggi, sem hér liggur fyrir, er að finna ágæta umfjöllun um margvísleg atriði, er varða atvinnumál í borginni. Hins vegar mætti umfjöllun um ýmis mikilvæg atriði vera betri. Sem dæmi má nefna að ýtarleg umfjöllun er um starfsemi og atvinnusköpun á sviði menningarmála í Reykjavík og nefndar margvíslegar hugmyndir um aukna starfsemi á því sviði. Nefnt er sérstaklega að efla eigi ýmsar atvinnuskapandi hátíðir á sviði menningar og lista. Á hinn bóginn er afar lítið fjallað um þá möguleika, sem ligga í atvinnusköpun á sviði íþrótta- og tómstundamála. Ekki er t.d. minnst á þann möguleika að efla frekar hátíðir og mót í tengslum við starfsemi íþróttahreyfingarinnar í borginni þrátt fyrir að ýmsir viðburðir á því sviði hafi heppnast vel, t.d. Reykjavíkurmaraþon, Reykjavík International Games og ReyCup. Óskað er eftir því að stefnudrögin verði endurskoðuð með tilliti til þessara ábendinga og nýjum kafla bætt við, sem fjalli sérstaklega um íþrótta- og tómstundamál.

Fundi slitið kl. 12.30

Eva Einarsdóttir
Karl Sigurðsson Óttar Proppé
Kjartan Magnússon Björn Gíslason