No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, föstudaginn 25. nóvember var haldinn 150. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst kl. 11.05. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Karl Sigurðsson, Stefán Benediktsson, Bjarni Þór Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Ennfremur: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Á fundinn komu Hrólfur Jónsson og Ámundi Brynjólfsson frá Framkvæmda- og eignasviði og fóru yfir verklag við gerð og staðsetningu sparkvalla í hverfum og svöruðu fyrirspurnum.
Kl. 11.15 kom Ingvar Sverrisson á fundinn.
Lögð fram eftirfarandi bókun sjálfstæðismanna.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þá kröfu sína að við lagningu battavalla á skólalóðum verði farið eftir samþykktri forgangsröðun íþrótta- og tómstundaráðs og menntaráðs frá árinu 2010. Enn einu sinni skal bent á að Vesturbærinn er nú eina hverfi borgarinnar þar sem enginn battavöllur er á skólalóð og er því löngu orðið tímabært að bætt sé úr því. Undirbúningur að lagningu battavalla á skólalóðum í Vesturbæ var langt kominn á síðasta kjörtímabili undir forystu Sjálfstæðisflokksins og höfðu verið lögð drög að lagningu fyrsta vallarins á árinu 2010. Eftir að nýr meirihluti Samfylkingar og Besta flokksins tók við, var horfið frá þeim fyrirætlunum án haldbærra skýringa. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins skora á borgarráð að taka tillit til umræddrar forgangsröðunar vegna staðsetningar battavalla og sjá til þess að slíkur völlur verði lagður í þágu barna og ungmenna í Vesturbænum á næsta ári.
2. Lögð fram að nýju skýrsla um sumarstörf 17 ára og eldri 2011. Á fundinn komu Gerður Dýrfjörð deildarstjóri upplýsinga- og atvinnumála hjá Hinu Húsinu og Þórarinn Þórsson, ráðgjafi frá þjónustumiðstöðinni Vesturgarði og kynntu skýrsluna.
3. Á fundinn kom Óðinn Gunnar Óðinsson verkefnisstjóri og kynnti samráðsvefinn Betri Reykjavík.
Gert var stutt fundarhlé.
4. Lagt fram bréf Hestamannafélagsins Fáks dags. 15. okt. sl. vegna verðlaunasafns Sigurbjörns Bárðarsonar.
ÍTR getur ekki orðið við óskum félagsins varðandi verðlaunasafnið og vísar öðrum liðum bréfsins til Framkvæmda- og eignasviðs til skoðunar.
Kl. 13.15 vék Steinþór Einarsson af fundi.
Kl. 13.50 vék Helga Björnsdóttir af fundi og tók Gísli Árni Eggertsson við ritun fundargerðar.
5. Lögð fram drög að samningi við ÍBR vegna íþróttafélaga 2012.
6. Lögð fram fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Óskað er eftir upplýsingum um stöðu mála varðandi Landsmót hestamanna, sem haldið verður í Reykjavík 26. júní – 1. júlí 2012. Hvernig er samstarfi Reykjavíkurborgar og Hestamannafélagsins Fáks háttað vegna mótshaldsins og hver er sameiginleg sýn þessara aðila á uppbyggingu félagssvæði Fáks í tengslum við það, sem og til framtíðar? Hvaða framkvæmdum hefur verið unnið að og hverjar eru fyrirhugaðar í tengslum við landsmótið og hver er kostnaðurinn vegna þeirra? Hvert er áætlað umfang mótsins, þ.e. fjöldi keppenda, áhorfenda og hver er áætlaður ávinningur ferðaþjónustu í Reykjavík í tengslum við það?
7. Lögð fram eftirfarandi tillaga sjálfstæðismanna
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir því við Framkvæmda- og eignasvið að umferðaröryggi verði aukið á Hlíðarenda, sem er hvort tveggja í senn, fjölfarinn akvegur og bifreiðastæði fyrir íþróttamannvirki Knattspyrnufélagsins Vals. Mikil umferð gangandi og hjólandi vegfarenda er um bílastæðið, ekki síst barna og unglinga, sem sækja æfingar og kappleiki á vegum félagsins. Æskilegt er að Hlíðarendi verði skilgreindur sem 30 kílómetra svæði og á götunni verði settar niður tvær hraðahindranir, önnur þegar komið er inn á svæðið en hin nokkru nær húsunum.
Frestað.
8. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn sjálfstæðismanna.
Óskað er eftir greinargerð um ásigkomulag gervigrasvallar Knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda. Umræddur völlur var tekinn í notkun árið 2009 og hafa borist kvartanir um að hann nýtist ekki sem skyldi, m.a. vegna sigdælda, sem rekja má til galla í undirlagi. Þá má geta þess að þetta er eini gervigrasvöllur hverfisíþróttafélags í Reykjavík, sem er án upphitunar. Óskað er eftir upplýsingum um þessa galla og hvernig staðið verður að úrbótum á þeim. Einnig er óskað eftir upplýsingum um kostnað við að koma þar fyrir upphitunarbúnaði en slíkt væri hagkvæmt að framkvæma í tengslum við væntanlega viðgerð vallarins vegna áðurnefnds galla.
9. Lögð fram eftirfarandi ályktunartillaga sjálfstæðismanna:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur sendir árnaðaróskir og þakkir til starfsmanna og gesta Vesturbæjarlaugar í tilefni af hálfrar aldar afmælis laugarinnar. Frá opnun laugarinnar hefur hún gegnt ómetanlegu hlutverki í þágu mannlífs, heilsubótar og íþrótta í Vesturbænum.
Samþykkt.
10. Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokksins
Í tilefni af hálfrar aldar afmæli Vesturbæjarlaugar, samþykkir Íþrótta- og tómstundaráð að skipa starfshóp vegna framtíðarskipulags laugarinnar. Hópurinn fjalli m.a. um eftirfarandi:
• Hugmyndir um viðbyggingu við Vesturbæjarlaug með innisundlaug á neðri hæð en líkamsræktarstöð á vegum einkaaðila á efri hæð, m.a. um ólíka valmöguleika vegna staðsetningar.
• Hugmyndir um vatnsrennibraut við laugina og staðsetningu hennar. Vesturbæjarlaug er eina stóra útilaug borgarinnar, sem er án vatnsrennibrautar fyrir börn og unglinga.
• Hvernig starfsemi laugarinnar og sundlaugartúnsins verði sem best þróuð til framtíðar í þágu barna- og fjölskylduvænnar tómstundaiðkunar.
Í hópnum sitji forstöðumaður laugarinnar auk fulltrúa frá Íþrótta- og tómstundaráði, Hverfisráði Vesturbæjar, Íbúasamtökum Vesturbæjar, Prýðifélaginu Skildi og Mími – vináttufélagi Vesturbæjar.
Frestað.
11. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn sjálfstæðismanna
Óskað er eftir upplýsingum um kostnað við að verðbæta eftirfarandi:
1. Styrki vegna íþróttastarfs félaga í Reykjavík.
2. Styrki til íþróttafélaga vegna húsaleigu- og æfingastyrkja.
3. Útgjöld íþróttafélaga vegna hækkana á orkukostnaði á undanförnum árum.
Fundi slitið kl. 14.30
Eva Einarsdóttir
Karl Sigurðsson Stefán Benediktsson
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Geir Sveinsson