Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 79

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2008, mánudaginn 17. desember var haldinn 79. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 8:35. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason, Sigfús Ægir Árnason og Sóley Tómasdóttir.
Einnig sátu fundinn: Egill Örn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála, Bragi Þór Bjarnason fjármálastjóri og Gísli Árni Eggertsson aðstoðarframkvæmdastjóri, sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram drög að fjárhagsáætlun ÍTR fyrir árið 2009.

- kl. 8:40 kom Oddný Sturludóttir á fundinn.

Formaður lagði fram svofellda tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að fela sérstökum vinnuhóp, skipuðum fulltrúum frá meirihluta og minnihluta í ráðinu ásamt framkvæmdastjóra ÍTR, að vinna að tillögum varðandi þau hagræðingar- og sparnaðaráform í rekstri ÍTR á næsta ári, sem fram koma í frumvarpi að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.
Jafnframt skal vinnuhópurinn skoða með hvaða hætti unnt væri að útfæra hugmyndir um starf fyrir 10 – 12 ára börn í hverfum borgarinnar og hvernig starfi varðandi heilsársfrístund verður best fyrir komið.
Tillögur hópsins um fjármál skal leggja fyrir ráðið fyrir 1. mars n.k. en aðrar tillögur fyrir lok janúar.

- kl. 8:45 kom Stefán Jóhann Stefánsson á fundinn.

Tillögu formanns frestað.

Samþykkt einróma að vísa drögum að fjárhagsáætlun ÍTR fyrir árið 2009 til starfshóps borgarstjórnar um fjármál borgarinnar og borgarráðs.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svofellda tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að leggja til við borgarráð að breyta reglum um frístundakort á þá lund að foreldrar geti nýtt kortið til að greiða fyrir dvöl á frístundaheimili ef þeir svo kjósa.
Samþykkt samhljóða.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði hefur frá upphafi kjörtímabilsins lagt þunga áherslu á að foreldrar fái að nýta frístundakortin til að greiða fyrir frístundaheimili borgarinnar. Frístundaheimilin bjóða upp á afar fjölbreytt og faglegt æskulýðsstarf sem er skýr og góður valkostur fyrir börn sem vilja njóta frítímans til fulls. Það er því mikið fagnaðarefni að loks skuli meirihlutinn hafa samþykkt að frístundaheimilin verði fullgildur aðili að frístundakortinu.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi fyrirspurnir auk bókunar:
1. Í drögum að fjárhagsáætlun eru tillögur borgarstjóra um lækkun launakostnaðar sem fela í sér kröfu um mikla meðaltalslækkun yfirvinnugreiðslna.
- Hvernig hefur þessi ákvörðun verið kynnt og samráði verið háttað, við t.d. Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar?
- Leiðir þessi ákvörðun til launajöfnunar eða aukins ójafnaðar í launum?
- Liggur eitthvað fyrir um áhrif á viðkomandi starfsemi?
- Hvernig verður framkvæmdin og hvenær kemur þetta til framkvæmda?
2. Í nýjustu drögum að fjárhagsáætlun fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir flötum niðurskurði á sviðin sem er viðbót við þær sparnaðartillögur sem þegar höfðu verið kynntar.
- Hvernig verður að þessu staðið og hefur verið haft samráð við starfsstöðvarnar?
- Á hvaða starfsemi hefur þetta mest áhrif?
- Hverjar eru tillögur borgarstjóra og meirihlutans um hvar þessi flati niðurskurður komi niður?
3. Margir þeirra þjónustusamninga sem ÍTR gerir við íþróttafélög fela í sér verðbótaákvæði. Því er spurt:
- Fá einhver félög/aðilar verðbætur á samninga innan málaflokksins? Verður jafnræðis gætt?
- Hver er lagaleg staða þeirra sem ekki fá verðbætur?
- Liggur eitthvað fyrir um áhrif á viðkomandi starfsemi?
- Hvernig hefur samráði verið háttað við viðkomandi félög?

Bókun:
Samfylkingin hefur lýst sig reiðubúna frá upphafi fjárhagsáætlunarvinnunnar að sýna fyllstu ábyrgð við þessar erfiðu efnahagsaðstæður og tekið þátt í að skoða hvern þátt starfseminnar með það fyrir augum að yfirvofandi niðurskurður komi sem minnst niður á mikilvægri starfsemi ÍTR. Því olli það miklum vonbrigðum að örfáum dögum áður en frumvarpið átti að leggja fram í borgarráði komu fram tillögur borgarstjóra um stórfelldan flatan niðurskurð, sem skipta átti á sviðin og stórfellda lækkun yfirvinnugreiðslna. Þessi sparnaður leggst ofan á þær niðurskurðartillögur sem sviðin höfðu áður lagt fram. Ekkert samráð var haft við starfsfólk, stéttarfélög, né borgarfulltrúa minnihlutans vegna þessara tillagna borgarstjóra og Samfylkingin gerir alla fyrirvara á raunhæfni þeirra. Aðgerðarhópur borgarstjóra mun eiga eftir að taka endanlega afstöðu til fjárhagsáætlunarinnar og vilja fulltrúar Samfylkingarinnar í ÍTR koma eftirfarandi ábendingum til hans sem nauðsynlegt er að horfa til við lokafrágang áætlunarinnar.
a) Framlög til atvinnumála ungs fólks eru skorin niður milli ára sem er óraunhæft með öllu þareð atvinnuleysi meðal ungs fólks á aldrinum 16-25 ára mun verða krefjandi úrlausnarefni á næsta ári. Nauðsynlegt er að búa til miðlægan pott fyrir atvinnumál ungs fólks sem tekur mið af gjörbreyttri stöðu varðandi atvinnumál þeirra.
b) Tómstundastarf fyrir 10-12 ára börn verður að fá aukið fjármagn frá síðasta ári. Starfsfólk ÍTR og aðrir þeir sem starfa á vettvangi tómstundamála eru á einu máli um að faglegt og uppbyggilegt starf fyrir þennan hóp er gríðarlega mikilvægt, ekki síst í forvarnarskyni og nú þegar þrengra er í búi.
c) Gert er ráð fyrir fækkun barna á frístundaheimilum í fjárhagsáætlun næsta árs. Nauðsynlegt er að aðgerðarhópurinn fari vel ofan í saumana á þeim forsendum og hvernig borgin geti fyrirbyggt að börn hætti í frístundaheimilum vegna efnahags foreldra.
d) Samfylkingin bendir á að fjármunir til uppbyggingar íþróttafélaga í fyrirliggjandi tillögum hafa verið lækkaðir mjög verulega frá því sem áður var áformað.

Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram svofellda bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði getur ekki fallist á þær forsendur sem gengið hefur verið út frá við gerð fjárhagsáætlunar. Tvennt skiptir þar mestu máli; óbreytt útsvarsprósenta og sú ákvörðun að skila rekstri borgarinnar hallalausum. Vinstri græn leggja þunga áherslu á að skattar verði notaðir sem það jöfnunartæki sem þeim er ætlað að vera, auk þess sem borgin verður að afla sér nauðsynlegra tekna til að standa undir grunnþjónustu. Því er með öllu óásættanlegt að í frumvarpi um fjárhagsáætlun sé ekki gert ráð fyrir 0,25#PR hækkun á útsvari eins og fjárlagafrumvarp fyrir árið 2009 gerir ráð fyrir og gæti skapað borginni 680 milljónir króna í tekjur. Jafnframt er ljóst að miðað við þær aðstæður sem sveitarfélög búa við í yfirstandandi samdrætti verður ekki komið til móts við tekjuskerðingu án þess að gengið sé á grunnþjónustu umfram það sem ásættanlegt gæti talist. Sú óskilgreinda hagræðingarkrafa sem gerð er í fyrirliggjandi frumvarpi er í raun og veru ekkert nema halli sem meirihlutinn treystir sér ekki til að horfast í augu við og útfæra nánar, enda myndu allar tilraunir til slíks enda með því að meginreglur aðgerðaráætlunar borgarstjórnar, um að standa vörð um störfin og grunnþjónustuna og halda gjaldskrám óbreyttum, yrðu brotnar. Frá því að vinna við fjárhagsáætlun sviðins hófst hefur fulltrúi Vinstri grænna lagt þunga áherslu á eflingu æskulýðsstarfs, enda ljóst að starfsemi æskulýðssviðs hefur aldrei verið þýðingarmeiri en nú. Að mati Vinstri grænna ættu eftirfarandi verkefni að hafa forgang:
1. Að foreldrum verði gert kleift að greiða fyrir frístundaheimili með frístundakorti ef þau svo kjósa. Þó sú ákvörðun snúist ekki með beinum hætti um fjármagn, yrði hún til þess að létta undir þeim foreldrum sem gjarnan vilja að börn þeirra taki þátt í því æskulýðsstarfi sem frístundaheimilin bjóða upp á, en eiga ekki þess ekki kost af fjárhagslegum ástæðum.
2. Að áfram verði miðað við að ekki séu fleiri en 12 börn á hvern starfsmann í frístundaheimilum.
3. Að haldið verði áfram að þróa og efla frístundaheimili á heilsársgrunni, enda gæti það orðið til þess að mögulegt yrði að fastráða starfsfólk frístundaheimila sem langflest er ráðið tímabundið. Í ótryggu efnahagsástandi er mikilvægt að borgin hlúi vel að starfsfólki sínu og skapi eins mikið öryggi og framast er unnt.
4. Að starfsemi fyrir börn í 5.-7. bekk verði elfd til muna, enda hefur sá aldurshópur ekki notið neinnar þjónustu svo heitið geti af hálfu borgarinnar. Frístundaklúbbar í félagsmiðstöðvum eða grunnskólum síðari hluta dags myndu gegna veigamiklu forvarnar- og uppeldishlutverki, þar sem gera má ráð fyrir auknu brottfalli úr öðru æskulýðsstarfi vegna fjárhagsástæðna.
5. Að fjármagn til atvinnumála á vegum sviðsins verði aukið frá fyrri árum, enda kennir reynslan okkur að í efnahagsþreningingum verður atvinnuleysi meira hjá ungu fólki en því sem eldra er.
Fyrr á fundinum var samþykkt að beina því til borgarráðs að breyta reglum um frístundakortið í þá veru að foreldrum verði gert kleift að nýta kortið til að greiða fyrir frístundaheimili. Fulltrúi Vinstri grænna fagnar þessu framfaraskrefi mjög. Það er jafnframt fagnaðarefni að ekki sé fyrirhugað að fjölga börnum á hvern starfsmann í frístundaheimilum, og ennfremur að vísir að heilsársfrístundaheimilum sé inni í fjárhagsáætlun.

Enn skortir þó talsvert fé til að hægt sé að reka frístundaheimilin með öllu á heilsársgrunni og telja Vinstri græn brýnt að úr því verði bætt. Jafnframt veldur það miklum vonbrigðum að sjá ekki aukna áherslu á 5.-7. bekk og að fjármagn til atvinnumála sé skorið niður um meira en helming. Hvað stofnframkvæmdir í tengslum við íþrótta- og tómstundamál varðar, þá eru þær ekki í neinu samræmi við þær áherslur sem fram komu í aðgerðaráætlun borgarstjórnar þar sem segir að mannaflsfrekar framkvæmdir skuli njóta forgangs. Engin greining hefur farið fram á þeirri mannaflaþörf sem verkefnin útheimta, sem þó hefði átt að vera forsenda forgangsröðunarinnar. Ekki er hægt að réttlæta þær upphæðir sem áætlaðar eru í hönnun og undirbúning framkvæmda á vegum ÍR og Fram. Nauðsynlegt er að endurskoða samninga við þessi félög, enda hafa aðstæður í samfélaginu breyst í grundvallaratriðum og tafir á verkefnunum óumflýjanlegar. Fjármagninu verður að beina inn í forvarnarverkefni með börnum og unglingum á meðan efnahagslægðin gengur yfir. Sú áhersla á gervigrasvelli sem fram kemur í framkvæmdaáætluninni er jafnframt gagnrýniverð, enda útheimtir lagning þeirra lítillar vinnu en talsverð gjaldeyrisviðskipti. Slík verkefni verða að bíða betri tíma. Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2009 og áskilja fulltrúar flokksins sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun íþrótta- og tómstundamála á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram svofellda bókun:
Undanfarna mánuði hefur þverpólitískur aðgerðarhópur borgarráðs vegna stöðu efnhagsmála farið yfir áætlanir allra sviða og fyrirtækja borgarinnar. Undir kringumstæðum eins og þeim sem nú ríkja í þjóðfélaginu er mikilvægt að borgarfulltrúar allir hugi að hag Reykvíkinga og tryggi, eins og borgarstjórn er sammála um, grunngildi til að vinna með í gegnum þessa erfiðu tíma. Samstaða er um að verja grunnþjónustuna, verja störf fastráðinna borgarstarfsmanna og hækka ekki gjöld fyrir grunnþjónustu að svo stöddu. Drög að fjárhagsáætlun fyrir hvert svið liggja fyrir borgarráði nk. laugardag og sýnir hvernig tekist er á við afleiðingar lækkandi tekna borgarinnar. Fagna ber að stefnt skuli að því að leggja fram hallalausa rekstraráætlun. Komið er að erfiðum ákvörðunum um hagræðingu og segja má að nú reyni fyrst á það pólitíska samráð sem áður var nefnt þegar hagræðingaraðgerðir koma til framkvæmda sem snerta beina þjónustu við borgarbúa.

Meirihluti íþrótta- og tómstundaráðs vill sérstaklega þakka starfsmönnum sviðsins og öllum þeim sem hafa komið að þessari miklu vinnu sem liggur til grundvallar fjárhagsáætlun og þakkar fyrir faglega og skýra starfsáætlun sem liggur til grundvallar vinnu næsta árs.

Fulltrúar Samfylkingar og fulltrúi F-lista og óháðra lögðu fram svofellda bókun:
Þau vinnubrögð við fjárhagsáætlun, og nú eru upplýst í lok þessa fundar, að enginn fótur var fyrir mestum hluta fjármuna til undirbúnings framkvæmda fyrir íþróttafélög í borginni, hljóta að teljast forkastanleg. Þessi vinnubrögð benda til að vinna við þessa fjárhagsáætlun sé að verulegu leyti í skötulíki.

Fulltrúar Samfylkingar lögðu fam svofellda tillögu:
ÍTR samþykki að fela framkvæmdastjóra ÍTR að hefja samráð við foreldra og skólasamfélagið í Grafarholti og Úlfarsárdal, sem og hverfisráð Grafarholts- og Úlfarsárdals, vegna uppbyggingar og forgangsröðunar íþróttaaðstöðu fyrir börn og unglinga í þessum hverfum.
Frestað

Fundi slitið kl. 9:35.

Kjartan Magnússon

Valgerður Sveinsdóttir Björn Gíslason
Sigfús Ægir Árnason Stefán Jóhann Stefánsson
Sóley Tómasdóttir Oddný Sturludóttir