Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 60

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2008, föstudaginn 8. febrúar var haldinn 60. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Bæjarhálsi 1 og hófst kl. 12:00. Mættir: Bolli Thoroddsen, Marta Guðjónsdóttir, Kristinn Jónsson, Egill Örn Jóhannesson Stefán Jóhann Stefánsson, Hermann Valsson og Oddný Sturludóttir. Jafnframt: Stefán Þór Björnsson áhreyrnarfulltrúi, Reynir Ragnarsson ÍBR, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 25. janúar sl. þar sem tilkynnt er kjör fulltrúa í íþrótta- og tómstundaráð til loka kjörtímabilsins.
Formaður var kjörinn Bolli Thoroddsen. Aðrir fulltrúar voru kjörnir: Kjartan Magnússon, Björn Gíslason, Egill Örn Jóhannesson, Stefán Jóhann Stefánsson, Oddný Sturludóttir og Hermann Valsson. Varamenn voru kosnir: Marta Guðjónsdóttir, Kristinn Jónsson, Magnús Jónasson, Anna Sigríður Ólafsdóttir, Felix Bergsson, Eva Bjarnadóttir og Sóley Tómasdóttir.
Lögð fram eftirfarandi bókun:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar Birni Inga Hrafnssyni fyrrverandi formanni íþrótta- og tómstundaráðs fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar í framtíðinni.

2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 25. janúar sl. þar sem tilkynnt er um áheyrnarfulltrúa Framsóknarflokks í íþrótta- og tómstundaráði, Stefán Þór Björnsson.

3. Varaformaður var kosinn Egill Örn Jóhannesson.

4. Samþykkt að fundartími ráðsins verði 2. og 4. föstudag í mánuði kl. 12:00.

5. Lögð fram samþykkt fyrir íþrótta- og tómstundaráð.

6. Lögð fram starfsáætlun ÍTR 2008.

7. Lögð fram stefnumál meirihlutans í íþrótta- og tómstundamálum.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Þar sem áherslumál nýs meirihluta eru lögð fram hér á fundinum og ekki kemur skýrt fram í hverju hún víkur frá starfsáætlun ÍTR áskilur minnihlutinn sér rétt til að taka umræðu um þennan lið betur síðar.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Fulltrúar F-lista og Sjálfstæðisflokks telja það eðlilegt að farið verði nánar í þau áhersluatriði sem nýr meirihluti hefur sett fram. Við samanburð á starfsáætlunum og áhersluatriðum nýs meirihluta væri eðlilegra að bera saman við áætlunina starfsáætlanir áranna 2007 og 2008. Fulltrúar F-lista og Sjálfstæðisflokks hafa lagt metnað sinn í að leggja fram skýra og markvissa stefnu í málefnum Íþrótta- og tómstundaráðs.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Stefnumál Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks koma fram í þeirri starfsáætlun sem samþykkt var fyrir ÍTR fyrir árið 2008 ásamt fjárhagsáætlun borgarstjórnar fyrir málaflokkinn. Mikilvægt er að fylgja eftir þeirri stefnu sem þar kemur fram. Þar er bæði um að ræða styrki til starfsemi og framkvæmda hjá íþróttafélögum í borginni, og framlög til tómstundastarfs af ýmsu tagi. Við minnum á að sveigjanleiki hefur verið aukinn í starfsemi frístundaheimila fyrir okkar tilverknað og við væntum þess að aukin festa verði í starfsemi þeirra með þeirri tillögu sem liggur fyrir þessum fundi um frístundaheimili á heilsársgrunni. Áframhaldandi innleiðing frístundakortsins er mikilvægt verkefni ásamt þróun samstarfs við íþróttafélög í hverfum. Þá minnum við á að í starfsáætlun ársins 2008 er lögð mikil áhersla á að hlúa vel að starfsfólki til þess að ÍTR geti veitt borgarbúum góða þjónustu.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Starfsáætlun ÍTR 2008 byggði að langstærstum hluta til á áhersluatriðum meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks 2007. Í því sambandi má nefna frístundakortin, eflingu frístundaheimila og styrki til íþróttafélaga og framkvæmdir félaganna auk annarra mikilvægra verkefna. Nýr meirihluti F-lista og Sjálfstæðisflokks mun halda áfram með þau góðu verk og hefur auk þess sett fram sín áhersluatriði þar sem koma fram metnaðarfull markmið m.a. að efla lýðheilsu og auka möguleika allra til þátttöku í íþróttum og útivist, gera þjónustuna fjölbreyttari, hagkvæmari og sveigjanlegri.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Starfsáætlanir síðustu árin byggja að verulegu leyti á góðu starfi Reykjavíkurlistans síðasta áratug.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Mikil stefnubreyting varð á starfsáætlun meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2007 en þar koma metnaðarfull áhersluatriði fram eins og Frístundakortin, efling frístundaheimila, styrkir til íþróttafélaga og framkvæmdir við þau auk fjölmargra annarra verkefna. Þeirri stefnu verður haldið áfram af nýjum meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks eins og fram hefur komið í þeim áhersluatriðum sem lögð voru fram á fundi ráðsins í dag.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Undirbúningur að innleiðingu frístundakorts var hafinn í tíð Reykjavíkurlista með samþykkt á 3 ára fjárhagsáætlun, auk þess sem hafinn var undirbúningur að framkvæmdum fyrir íþróttafélög, sem þó töfðust því miður í tíð Sjálfstæðisflokksins.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Ekkert varð af framkvæmdum R-lista á frístundakortum, framkvæmd þeirra var verk Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og tillögur þess meirihluta gengu mun lengra en tillögur R-listans. Varðandi aðrar framkvæmdir sem vitnað er til í bókuninni kom í ljós að þegar til framkvæmda kom hafði undirbúningsvinnu R-listans verið ábótavant. Þá skal ítrekað að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, fyrrverandi borgarstjóri undirritaði samkomulag á 100 ára afmæli ÍR við félagið. Því er ósanngjarnt að halda því fram að uppbygging ÍR hafi tafist vegna Sjálfstæðisflokksins þar sem samningur þess efnis dagsettur 11. mars 2007 staðfestir þetta. Einnig staðfestist samstarfið með skjali sem lagt var fram 24. september 2007 sem sýnir samstarf Úlfars Steindórssonar formanns ÍR og Ómars Einarssonar framkvæmdastjóra ÍTR, en þar er lagt til að skipuð verði sérstök byggingarnefnd með fulltrúum Framkvæmdasviðs, ÍR og ÍTR.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Borgarstjóraefni Sjálfstæðisflokksins Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson hafði allar forsendur til þess að fylgja eftir loforðum sínum um tafarlauar framkvæmdir fyrir ÍR-inga á meðan hann var borgarstjóri, en kaus þó að gera það ekki.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Við vísum þessum fullyrðingum á bug og minnum fulltrúa Samfylkingar á að þeir höfðu rúma hundrað daga til að hefjast handa en nýttu sér þá ekki.
Lögð fram bókun Samfylkingar, Vinstri grænna og Framsóknarflokks:
Það vita það allir að það er ekki heppilegt að hefja framkvæmdir í svartasta skammdeginu.
Lögð fram bókun Sjálfstæðisflokks og F-lista:
Við vísum þessum fullyrðingum á bug en eitt er víst að framtíðin er björt hjá nýjum meirihluta F-lista og Sjálfstæðisflokks í stjórn ÍTR..

8. Samþykkt að skipa í eftirfarandi nefndir:
• Þjóðhátíðarnefnd. Kjartan Magnússon formaður, Marta Guðjónsdóttir og Oddný Sturludóttir
• Laugardalsnefnd. Björn Gíslason, Stefán Jóhann Stefánsson og Ómar Einarsson.
• Úlfarárdalur. Hermann Valsson, Benedikt Geirsson og Ómar Einarsson.
• Fjölskyldugarður. Björn Berg Gunnarsson formaður, Snorri Hjaltason og Stefán Jóhann Stefánsson.
• Jaðarhópur. Oddný Sturludóttir og Magnús Jónasson.
• Almenningsíþróttir. Anna Kristín Ólafsdóttir, Stefán Þór Björnsson og Svava Oddný Ásgeirsdóttir.
• Afreks- og styrktarsjóður. Egill Örn Jóhannesson, Bolli Thoroddsen og Hermann Valsson.

9. Lagt fram bréf TTK Akstursíþróttafélags dags. 23. janúar sl. með beiðni um styrk vegna reksturs æfingasvæðis.
Vísað til stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.

10. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍBR dags. 19. janúar sl. varðandi aðstöðu fyrir Rannsóknarmiðstöð fyrir íþróttafólk.

11. Lagðar fram reglur um ýmis samstarfsmál í Laugardalshöll. Jafnframt lögð fram viðburðardagskrá 2008-2010.

12. Lagt fram afrit af bréfi bæjarráðs Reykjanesbæjar til Reykjavíkurborgar dags. 17. janúar sl. varðandi úrsögn þeirra úr samstarfi sveitarfélaga sem aðild eiga að skíðasvæðunum.

13. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 17. janúar sl. þar sem fram kemur að lögð hafi verið fram greinargerð innri endurskoðanda frá 7. janúar varðandi niðurstöður áhættumats Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.
Vísað til rekstrarstjórnar Fjölskyldu- og húsdýragarðsins.

14. Lögð fram tillaga Sjálfstæðisflokks og F-lista um frístundaheimili á heilsársgrunni #GLfrístundaklúbba 9-12 ára#GL og samstarf við Menntasvið í starfsmannamálum:
Lagt er til að frístundaheimili ÍTR verði rekin á heilsársgrunni frá og með vorinu 2008. Frístundaheimili ÍTR eru 34 talsins og eru starfrækt frá skólabyrjun til skólaloka. Á sumrin rekur ÍTR sumarstarf í hverfum borgarinnar á tæplega 20 stöðum. Heilsárs frístundaheimili verði auk þess rekið fyrir fatlaða einstaklinga. Þá samþykkir íþrótta- og tómstundaráð að fela framkvæmdastjóra að skipa þriggja manna vinnuhóp til að vinna að undirbúningi að frístundaklúbbar fyrir aldurshópinn 9-12 ára verði starfræktir í hverfum borgarinnar til að mæta þörf barnanna á þessum aldri fyrir frístundaþjónustu. Vinnuhópnum sé ætlað að skila tillögum sínum til íþrótta- og tómstundaráðs fyrir 1. apríl 2008. Jafnframt samþykkir íþrótta- og tómstundaráð að fela framkvæmdastjóra ÍTR og fræðslustjóra að skipa sameiginlegan starfshóp sviðanna til að vinna m.a. að starfsmannamálum, samþættingu og öðrum sameiginlegum hagsmunamálum.
Samþykkt samhljóða.

- Kl. 13:30 vék Reynir Ragnarsson af fundi.

15. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍBR dags. 12. janúar sl. varðandi bætta íþróttaaðstöðu í Grafarholti fyrir ungmenni.

16. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 25. janúar sl. þar sem vísað er til meðferðar íþrótta- og tómstundaráðs samþykkt um að reisa minnisvarða um Bobby Fischer í nágrenni Laugardalshallar.
Vísað til framkvæmdastjóra ÍTR til meðferðar.

17. Lagt fram bréf Ultima Thule dags. 5. febrúar sl. vegna svæðis við Gufunes.
Vísað til framkvæmdastjóra ÍTR til meðferðar.

Fundi slitið kl. 14:50

Bolli Thoroddsen

Marta Guðjónsdóttir Egill Örn Jóhannesson
Kristinn Jónsson Stefán Jóhann Stefánsson
Hermann Valsson Oddný Sturludóttir