No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2007, föstudaginn 17. ágúst var haldinn 52. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Bæjarhálsi 1 og hófst kl. 12:15. Mættir: Björn Ingi Hrafnsson, Bolli Thoroddsen, Benedikt Geirsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Hermann Valsson. Jafnframt: Anna Sigríður Ólafsdóttir, Ómar Einarsson sviðsstjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Sólveig Valgeirsdóttir verkefnisstjóri, Reynir Ragnarsson formaður ÍBR og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 2. ágúst 2007 vegna þjónustusamninga við íþrótta og æskulýðsfélög. Jafnframt lagt fram að nýju bréf sviðsstjóra dags. 11. júní sl. vegna málsins, ásamt bréfi skrifstofustjóra skrifstofu borgarstjóra dags.13. júlí og 16. ágúst vegna samþykkta borgarráðs um málið. Einnig lögð fram drög að þjónustusamningi við þau félög sem fram koma í erindi sviðsstjóra.
Samþykkt samhljóða með þeim athugasemdum sem fram komu á fundinum.
2. Lagt fram bréf Hestamannafélagsins Fáks dags. 5. júlí sl. varðandi samstarfssamning við félagið.
3. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra íþróttamála dags. 13. ágúst sl. vegna Árbæjarlaugar.
Samþykkt.
4. Lagt fram yfirlit um skráningu á Frístundaheimilum haustið 2007 ásamt fleiri upplýsingum um starfið í haust.
Skrifstofustjóri tómstundamála gerði grein fyrir stöðu mála.
Lögð fram eftirfarandi tillaga:
Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til samráðshóps borgarstjóra um starfsmannaeklu í grunnskólum, leikskólum, frístundaheimilum og á Velferðarsviði, að kanna möguleika á því að bregðast við því ástandi sem skapast hefur á frístundaheimilum Reykjavíkurborgar vegna manneklu með sérstökum álagsgreiðslum til starfsmanna þar til úr leysist.
Með því að nýta launarammann til fulls með þessum hætti getur Reykjavíkurborg lagt sitt af mörkum til að standa vörð um og efla enn frekar það faglega starf sem unnið er í frístundaheimilum Reykjavíkurborgar.
Samþykkt samhljóða.
Lögð fram eftirfarandi tillaga Samfylkingarinnar:
Störf á frístundaheimilum eru hlutastörf, þar sem starfsemin fer fram seinnipart dags. Því hefur ein af þeim leiðum sem farin hefur verið í ráðningum verið að ráða háskólanemendur til þessara starfa. Það hefur sýnt sig að hlutastarf á frístundaheimilum getur farið ágætlega með námi. Því leggja fulltrúar Samfylkingar í ÍTR til að enn meiri áhersla verði lögð á að laða þennan hóp að störfum á frístundaheimilum.
Lagt er til að því verði beint til samráðshóps borgarstjóra um starfsmannaeklu í grunnskólum, leikskólum, frístundaheimilum og á Velferðarsviði að kannaður verði möguleiki á að greiða námsmönnum við störf á frístundaheimilum námsstyrki.
Greiðslur námsstyrkja gæti farið fram í lok vetrar, þegar starfsmaður hefur bæði unnið veturinn á frístundaheimilinu og lokið námsönn. Með þessu væri bæði farin ný og uppbyggileg leið í að laða að starfsfólk auk þess sem stöðuleiki í starfi frístundaheimilanna yfir veturinn væri enn frekar tryggður.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Af þessu tilefni er rétt að taka fram, að af hálfu ÍTR hafa átt sér stað viðræður við Kennaraháskólann og Háskóla Íslands um samstarf í þessu efnum, m.a. með því að fella nám inn í störf og starfsþjálfun á frístundaheimilum.
Fulltrúar Samfylkingarinnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar samfylkingar fagna einróma samþykkt á tillögunni um námsstyrki, sem er nýmæli.
Tekið er undir að mikilvægt er að halda áfram samstarfi við HÍ og aðrar háskólastofnanir um að fella nám að starfsemi frístunaheimila.
Lögð fram eftirfarandi bókun Samfylkingarinnar:
Sú staða sem uppi er á frístundaheimilum í borginni, þegar aðeins hefur verið ráðinn tæplega þriðjugur starfsmanna og eigi hefur verið unnt að verða við nema um þriðjungi umsókna en um tvö þúsund börn eru á biðlista, sýnir að hér er um mjög alvarlegan vanda að ræða. Gera má ráð fyrir að meira en þúsund fjölskyldur í borginni séu af þessum sökum í mikilli óvissu með yngstu skólabörnin, þegar skóladegi lýkur. Þær aðgerðir sem gripið hefur verið til, einkum í formi auglýsinga eftir starfsmönnum, hafa engan veginn dugað til. Í stöðu sem þessari getur verið nauðsynlegt að feta nýjar brautir. Samfylkingin hefur að undanförnu vakið máls á nýrri leið sem gæti leyst vanda margra fjölskyldna, þ.e. að pláss yrði samnýtt í auknum mæli þegar um hlutavistun er að ræða. Ljóst er að hér duga engar þær skammtímalausnir sem iðkaðar hafa verið, en starfsmaður ÍTR bendir í minnisblaði frá 14. ágúst á ýmsar leiðir. Samfylkingin hvetur til þess að lögð verði aukin vinna í langtímastefnumótun í þessum málaflokki, m.a. útfrá hugmyndum starfsmanns ÍTR til þess að freista þess að koma í veg fyrir að það ófremdarástand skapist aftur sem nú blasir við. Af þessu tilefni leggur Samfylkingin fram eftirfarandi tillögu:
Lögð fram eftirfarandi tillaga Samfylkingarinnar:
Settur verði á laggirnar þriggja manna starfshópur, skipaður fulltrúum úr ÍTR, sem vinni að langtímastefnumótun í málefnum frístundaheimila. Hópurinn leiti fanga hjá starfsmönum íþrótta- og tómstundasviðs, Menntasviðs og víðar í því skyni að finna leiðir sem stuðla sem best að öruggu og uppbyggjandi frístundastarfi fyrir yngstu skólabörnin þegar hefðbundnum skóladegi lýkur. Hópurinn ljúki störfum fyrir næstu áramót.
Tillögunni er frestað og vísað til umsagnar sviðsstjóra ÍTR og skrifstofustjóra tómstundamála hjá ÍTR.
5. Lagt fram bréf félagsmálaráðuneytisins dags. 18. júlí sl. vegna framlags til lengdrar viðveru fatlaðra grunnskólabarna á haustönn 2007.
Jafnframt lagðir fram minnispunktar skrifstofustjóra tómstundamála dags. 16. ágúst sl. varðandi frístundaklúbba ÍTR.
6. Lagt fram bréf foreldra barna í öðrum og þriðja bekk Grandaskóla varðandi frístundaheimili fyrir nemendur í þriðja og fjórða bekk grunnskóla.
7. Lagt fram minnisblað og kynningarefni vegna frístundakortsins. Sólveig Valgeirsdóttir verkefnisstjóri sagði frá stöðu mála.
- kl. 13:15 vék Sólveig Valgeirsdóttir af fundi.
8. Lagt fram bréf Landverndar dags. 28. júní sl. vegna Ylstrandarinnar í Nauthólsvík.
9. Lagt fram bréf skákskóla Taflfélags Reykjavíkur dags. 9. júlí sl. með beiðni um styrk.
Vísað til Skákakademíu Reykjavíkur.
10. Lagt fram að nýju bréf Taflfélagsins Hellis dags. 24. apríl sl. vegna alþjóðlegs unglingaskákmóts.
Íþrótta- og tómstundaráð tók jákvætt í erindið og vísar því til afgreiðslu styrkja næsta árs.
11. Lagt fram bréf Klifurfélagsins dags. 4. júlí sl. vegna samstarfs um uppbyggingu klifurhúss í Gufunesi.
12. Lagt fram að nýju skipulagsuppdráttur af Gufunessvæðinu.
13. Lagt fram minnisblað Fjöreflis ehf. dags. 26. júní sl. vegna frekari aðstöðu í Gufunesi.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR.
14. Lagt fram bréf Skipulags og byggingasviðs dags. 12. júlí sl. vegna deiliskipulags útivistarsvæðis í Úlfársdal. Erindinu er vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs.
Vísað til starfshóps innan ÍTR um uppbyggingu íþróttaaðstöðu í Úlfarsárdal og Grafarholti
15. Lagt fram bréf Skipulags og byggingasviðs dags. 11. júlí sl. vegna endurskoðunar á aðalskipulagi Reykjavíkur.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR.
16. Rætt um tillögu frá fulltrúum Vinstri grænna, Samfylkingunni og F-lista frá 30. mars sl. liður 15 um skíðalyftur og stökkpall á Hengilsvæðinu
17. Lagt fram bréf Félags áhugafólks á höfuðborgarsvæðinu um skíðagöngu, Skíðagöngufélagið, dags. 11. júlí sl. með ósk um stuðning.
Vísað til Stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
18. Lagt fram yfirlit um sparkvelli og ósk um nýja velli ásamt tillögu um framkvæmdir 2008.
19. Lögð fram útboðsgögn varðandi vatnagarð við Úlfarsfell.
20. Rætt um skoðunarferð ráðsins í haust.
21. Lagt fram yfirlit um sex mánaða uppgjör ÍTR.
- kl. 13:40 vék skrifstofustjóri íþróttamála af fundi.
22. Lagt fram bréf Skautafélags Reykjavíkur dags. 9. ágúst sl. vegna reksturs Skautahallarinnar.
Sviðsstjóra ÍTR falið að ræða við félagið.
23. Lagt fram bréf ÍBR dags. 12. ágúst sl. vegna æfingatíma á Skautasvellinu í Laugardal.
24. Næsti fundur verður haldinn á starfsstað ÍTR.
Fundi slitið kl. 13:50.
Björn Ingi Hrafnsson
Bolli Thoroddsen Benedikt Geirsson
Marta Guðjónsdóttir Stefán Jóhann Stefánsson
Sigrún Elsa Smáradóttir Hermann Valsson