No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2005, föstudaginn 11. febrúar, var haldinn 3. fundur Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl.12:25. Viðstaddir voru: Ingvar Sverrisson varaformaður, Svandís Svavarsdóttir, Andrés Jónsson og Benedikt Geirsson. Jafnframt sátu fundinn Reynir Ragnarsson, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram að nýju eftirfarandi gögn vegna skíðasvæðis við Hengil.
Bréf framkvæmdastjóra ÍR dags. 22. des. 2004.
Bréf framkvæmdastjóra ÍR dags. 9. júní 2004.
Bréf viðræðurnefndar dags. 15. des. 2004.
Bréf stjórna skíðadeilda ÍR og Víkings dags. 14. nóv. 2004.
Greinargerð stjórnar skíðadeilda ÍR og Víkings dags. 10. febrúar 2005.
- Kl. 12:30 tóku Anna Kristinsdóttir og Margrét Sverrisdóttir sæti á fundinum.
Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að hætta rekstri á vegum ÍTR á skíðasvæðinu við Hengil vorið 2005 og skíðadeildum ÍR og Víkings verði boðið að flytja starfsemi sína í Bláfjöll.
Æfingaaðstaða félaganna verði í Bláfjöllum og verði rekstrarstjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins falið að gera tillögur um aðstöðu fyrir félögin.
Vegna skíðaskála í Bláfjöllum sem félögin hafa óskað eftir, verði teknar upp sérstakar viðræður við þau um þarfagreiningu, samnýtingu og samstarf um slíkt mannvirki.
Samningur um uppbyggingu verði lagður fyrir íþrótta- og tómstundaráð fyrir 30. maí 2005 með tilllögum um framtíðaruppbyggingu félaganna í Bláfjöllum.
Samþykkt með 4 atkvæðum. Fulltrúi sjálfstæðisflokksins sat hjá.
Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:
Sífellt ríkari krafa er gerð til sveitarstjórnarmanna um að hagræða og ná árangri í rekstri mannvirkja og stofnanna. Stjórn skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins hefur unnið mjög ötullega að því að hagræða í rekstri skíðasvæða en um leið að auka þjónustu og framboð á skíðaleiðum. Þetta hefur tekist með auknum samlegðaráhrifum í Bláfjöllum og Skálafelli sem eingöngu er hugsað út frá rekstrarforsendum og þá hversu mikið hagkvæmt er að hafa opið. Þetta hefur leitt til sparnaðar í rekstri, færslu á lyftum auk þess sem nýjar lyftur hafa verið settar upp til að bæta enn þjónustuna á svæðunum. Allir eru sammála um að gott væri að hafa nægt fjármagn til að koma upp lengingu á stólalyftuna í Skálafelli, topplyftu á sama stað, stólalyftu í Hengilinn og í Eldborgargilið og byrja að byggja upp nýtt skíðasvæði í Botnsúlum. En þannig er því miður ekki komið og verða stjórnendur skíðasvæðanna að huga að hagkvæmni í rekstri sínum eins og gert hefur verið undanfarin ár á fyrrnefndum tveimur svæðum. Reykjavíkurborg er eignaraðili að 60#PR hlut í skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins og er svo einnig að reka sérstaklega skíðasvæði í Hengli. Það hefur komið skýrt fram hjá hinum 11 sveitarfélögunum sem standa að stjórn skíðasvæða Höfuðborgarsvæðisins að ekki er vilji til að taka yfir þann rekstur af borginni. Ástæðan er skýr. Þann 19. janúar voru tekjur svæðanna eftirfarandi: 13 mkr. í Bláfjöllum, 6 mkr. í Skálafelli og 0.5 mkr. í Henglinum. Það hefur sýnt sig að Hengilssvæðið er eingöngu notað sem æfingasvæði með kostnaði uppá 14 mkr. á ári (án vísitölubreytinga), 3 mkr. í leigu á troðara á ári og viðhald vegna öryggissjónarmiða 5 mkr. á ári. Samtals eru þetta 22 mkr. á ári til að halda svæðinu úti. Þessi tala felur engar nýjungar í sér.
Fundi slitið 13:10
Anna Kristinsdóttir
Ingvar Sverrisson Svandís Svavarsdóttir
Andrés Jónsson Benedikt Geirsson