No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2006, föstudaginn 10. nóvember var haldinn 39. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl. 09:00. Viðstaddir voru: Björn Ingi Hrafnsson formaður, Björn Gíslason, Bolli Thoroddsen, Benedikt Geirsson, Stefán Jóhann Stefánsson, Sigrún Elsa Smáradóttir og Þorleifur Gunnlaugsson. Jafnframt sátu fundinn: Gunnar Hólm Hjálmarsson, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 9. nóvember sl. þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið tillaga um frístundakort.
Samþykkt að skipa starfshóp til að vinna áfram að tillögunum, sem í sitji Björn Ingi Hrafnsson, Bolli Thoroddsen og Sigrún Elsa Smáradóttir.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Það er mikilvægt að bæta aðgengi barna að íþrótta- og tómstundastarfi, auka fjölbreytni og jafna aðstöðu kynja og hópa. Reykjavíkurborg hefur staðið myndarlega að uppbyggingu á ýmissi íþrótta- og tómstundaaðstöðu og stutt dyggilega við bakið á starfsemi fyrir börn og unglinga. Lagður hefur verið grunnur að aukinni niðurgreiðslu á frístundaiðkun svo sem fram kemur í þriggja ára áætlun um fjármál borgarinnar. Framkomin hugmynd um frístundakort er liður á þeim meiði sem bera að fagna sérstaklega þótt framkvæmd sé boðuð síðar en rætt hefur verið um opinberlega, enda þarf að vanda vel til verksins og hafa gott samráð við þá sem veita börnum og unglingum þjónustu af því tagi sem hér um ræðir. Í þeirri útfærslu sem er eftir er mjög mikilvægt að hafa þau markmið í huga sem nefnd eru hér í upphafi.
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks fagna tilkomu frístunakortsins og þeirri pólitísku samstöðu sem náðst hefur í borgarráði um framkvæmd þessa mikilvæga máls. Frístundakortin geta valdið ákveðnum straumhvörfum í æskulýðs- og íþróttastarfi í borginni, því með tilkomu þeirra verður aðbúnaður og aðstaða barna og unglinga í borginni í fremstu röð og öruggt má telja að fjölmargir úr hópi æskufólks muni nú sjá tækifæri sem þeir hafa ekki haft til þess að taka þátt í íþróttum, listnámi eða annarri viðurkenndri tómstundastarfsemi.
Frístundakortið ætti þannig ekki aðeins að auka þátttöku í hollri og uppbyggilegri frístundaiðju, heldur stuðla að fjölbreyttum tækifærum og bættu aðgengi að þeim gæðum sem slíkri starfsemi fylgir og Reykjavíkurborg styrkir fjárhagslega. Að auki ætti frístundakortið að geta orðið liður í því að jafna hlut kynjanna í íþrótta- og æskulýðsstarfi, ásamt því sem sérstaklega verður horft til þess að hvetja börn af erlendum uppruna til aukinnar þátttöku í slíku starfi.
2. Lagt fram bréf skrifstofustjóra tómstundamála dags. 8. nóv. sl. vegna stöðu mála á frístundaheimilum, niðurstöðu könnunar meðal foreldra og breytingar á fyrirkomulagi vegna biðlista.
Samþykkt að senda bréf til foreldra og kanna hvort þeir gætu komist af með hlutavistun.
Fulltrúar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna vilja þakka fyrir bréf skrifstofustjóra tómstundamála og þá sérstaklega hve fljótt brugðist var við tillögu okkar um könnun á gæslu barna sem eru á biðlista. Niðurstaða könnunarinnar er að þriðjungur barnanna eru ein heima að skóla loknum, sem verður að teljast nokkurt áhyggjuefni. Jafnframt kemur fram að hluti foreldra með börn á biðlista gæti nýtt sér hlutavistun. Við hvetjum starfsfólk ÍTR áfram til að leita leiða í þessum anda til að leysa mál þeirra barna sem eru á biðlista, og lenda í vanda þegar frístundaheimila nýtur ekki við, og við hrósum um leið starfsfólkinu fyrir þrautseigju í vandasamri aðstöðu.
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Staðan á biðlistum frístundaheimila ÍTR þann 10. nóvember er sú að 2.317 börn eru komin með vistun og 92 eru enn á biðlista, þarf af 85 í Grafarvogi, Árbæ og Grafarholti.
Þótt staðan sé þannig umtalsvert betri en á sama tíma á undanförnum árum, er ljóst að ekki verður við unað fyrr en öll börn hafa komist inn á frístundaheimili. Á fundi ÍTR 22. sept. 06 lagði formaður til að haft yrði samband við foreldra allra á biðlistanum.
Meirihluti ÍTR hefur beitt sér fyrir frumkvæði að því að taka á vanda yngstu barnanna, barna með séstakar aðstæður og að kanna viðhorf foreldra. Með því að kanna möguleika á veltukerfi nú í samráði við foreldra, er haldið áfram á þeirri braut að bæta þjónustu við foreldra.
Starfsfólk ÍTR hefur staðið sig frábærlega í þessari vinnu og á lof skilið.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska eftir því að sú tillaga sem fulltrúar flokkanna lögðu fram með skriflegum og formlegum hætti á 36. fundi ÍTR 22.09.2006, liður 5, verði færð hér til bókar. Það er til þeirrar tillögu
sem við vísum í fyrri bókun okkar. Tillagan var svohljóðandi:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að kanna meðal foreldra hvernig gæslu barna á biðlista eftir plássi á frístundaheimili er háttað eftir venjulegan skólatíma og hvort og þá hvaða áhrif ástandið hefur haft á atvinnuþátttöku foreldra.
3. Lagt fram bréf foreldrafélags Borgaskóla dags. 3. nóv. sl. vegna sparkvallar við skólann.
Vísað til framkvæmdasviðs.
4. Lagt fram bréf skólastjóra Grandaskóla dags. 30. okt. sl. vegna sparkvallar við skólann.
Vísað til framkvæmdasviðs.
5. Lagt fram yfirlit um sparkvelli.
6. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra ÍTR um norræna skólaleika í íþróttum dags. 8. nóvember. Jafnfram lögð fram skýrsla ÍBR um seinustu leika.
Samþykkt að taka þátt í næstu leikum og taka upp viðræður við ÍBR og Menntasvið.
7. Lagt fram bréf Íþróttafélags fatlaðra dags. 1. okt. sl. vegna samstarfssamnings ÍTR, ÍFR og ÍBR.
8. Lagt fram bréf skipulagsfulltrúa dags. 30. okt. sl. þar sem vísað er til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs breytingu á deiliskipulagi lóðar við Egilshöll.
Sviðsstjóra falið að svara erindinu.
9. Lagt fram bréf TBR dags. 8. nóv. sl. vegna byggingar tennishúss.
Samþykkt að fara í viðræður við TBR.
10. Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 8. nóv. sl. vegna framkvæmda á íþróttasvæði við Austurberg á næsta ári þar sem hafin verður bygging félagshúss og búningsaðstöðu ásamt öðrum framkvæmdum.
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:
Það er mjög mikilvægt að aðstaðan fyrir Leikni verði bætt svo að hún verði sambærileg við aðstöðu annarra íþróttafélaga í borginni. Núverandi félags- og búningsaðstaða er óviðunandi og mjög brýnt að sem fyrst verði úr því bætt svo að félagið geti betur sinnt því mikilvæga hlutverki að bjóða upp á íþróttaiðkun fyrir börn og ungmenni á félagssvæðinu. Því hvetjum við til þess að sem fyrst verði hafist handa við að bæta aðstöðu fyrir félagið.
Meirihluti Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Aðstöðumál Íþróttafélagsins Leiknis hafa verið til umfjöllunar í stjórn ÍTR sl. 2 ár. Aðstöðuleysi félagsins hefur verið til vansa í áraraðir.
Þarfagreining og hönnun hefur verið í vinnslu sl. ár í góðu samstarfi við stjórnendur félagsins.
Nú hefur náðst samkomulag við félagið og áætlað að framkvæmdir hefjist á árinu 2007.
11. Lagt fram bréf Knattspyrnufélagsins Þróttar og Glímufélagsins Ármanns dags. 5. nóv. sl. varðandi Frístundastrætó.
12. Lagt fram yfirlit um umsækjendur styrkja fyrir árið 2007.
13. Fulltúar Samfylkingar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna óska eftir því að þeir samstarfs- og þjónustusamingar sem ÍTR hefur gert og unnið er eftir verði kynntir í ráðinu nú í upphafi kjörtímabils.
14. Fulltrúar Samfylkinar og Vinstri grænna óskuðu bókað:
Samþykktir borgarstjórnar fela það í sér að framlögum til íþróttamála skuli
varið þannig að þau mismuni ekki kynjunum. Komið hefur fram að greiðslur KSÍ til afrekskvenna í knattspyrnu annars vegar og afrekskarla hins vegar eru með svo ólíkum hætti að ekki verður við unað. Fulltrúar Vinstri grænna og Samfylkingar hvetja KSÍ til þess að gera hér bragarbót á hið snarasta og hvetja jafnframt til þess að jafnréttismál verði ofarlega á blaði í samræðu ÍTR og KSÍ og á þingum íþróttahreyfingarinnar.
Fundi slitið kl. 10:40.
Björn Ingi Hrafnsson
Bolli Thoroddsen Björn Gíslason
Benedikt Geirsson Sigrún Elsa Smáradóttir
Þorleifur Gunnlaugsson Stefán Jóhann Stefánsson