Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2015, föstudaginn 14. ágúst var haldinn 230. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Hofi Höfðatorgi og hófst hann kl. 12:05. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Eva Einarsdóttir, Eva Baldursdóttir, Tomasz Chrapek, Marta Guðjónsdóttir, Kjartan Magnússon og Trausti Harðarson. Einnig: Hermann Valsson VG, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram greinargerð forstöðumanns Fjölskyldu- og húsdýragarðsins Tómasar Ó. Guðjónssonar dags. 14. ágúst sl. varðandi „kópamálið“. Forstöðumaðurinn mætti á fundinn og upplýsti um málið og svaraði fyrirspurnum.
Lögð fram eftirfarandi bókun íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar fyrir góða greinargerð Fjölskyldu- og húsdýragarðsins um aflífun kópsins knáa og tekur undir beiðni garðsins til Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins um að lög um dýravernd verði lagfærð svo hægt verði að veita undanþágu frá 23. grein laganna en þar er kveðið á um að ekki sé leyfilegt að sleppa dýrum sem alast upp hjá mönnum. Engin faglegur ágreiningur ríkir um að selkópar eigi vissulega afkomu von þegar þeim er sleppt.
2. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga meirihluta fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að gjaldskrá á kaffi verði samræmd milli sundstaða Reykjavíkur og taki gildi 1. október 2015. Útfærslu er vísað til sviðsstjóra og forstöðufólks sundstaðanna.
Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta gegn 2 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fulltrúi Framsóknar og flugvallarvina sat hjá.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Við styðjum ekki tillöguna þar sem við teljum æskilegt að sundstaðir borgarinnar njóti ákveðins sjálfstæðis við framboð á veitingaþjónustu, t.d. tilhögun kaffiveitinga, og verðlagningu hennar.
3. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:
Knattspyrnuliðið Leiknir er í fyrsta skipti í sögu félagsins að spila í Pepsídeildinni og hefur liðið komið inn á góðum krafti. Stuðningsmenn þeirra, Leiknisljónin, fjölmenna á alla leiki og styðja íþróttamenn sína af miklu afli, skapa einstaka stemningu hvort sem er á heimavelli eða útivelli. Frá upphafi leiks til enda er spilað stöðugt á bongó trommur, slegnar trommur, sungin mörg æfð stuðningsmannalög, klappað og hvatt leik og leikmenn áfram. Þessi kraftur, áhugi og mikli stuðningur stuðningsmanna Leiknis hefur verið framúrskarandi og mjög svo aðdáunarverður. Til að styðja við þetta frumkvæði stuðningsmanna Leiknis og hvetja þá áfram til að viðhalda þessari einstöku stemningu sem þeir standa fyrir, veitir ÍTR Leiknisljónunum 50 þúsund króna styrk til að nýta í hópeflið sem hefur klárlega haft góð áhrif á hverfi og lið þeirra Leiknismanna.
Tillagan felld með 4 atkvæðum meirihluta. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
4. Lögð fram að nýju eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðismanna:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur telur rétt að ráðist verði í frekari úrbætur á áhorfendaaðstöðu á Leiknisvelli í samstarfi við félagið. Skoðaðar verði hugmyndir Leiknis um uppsetningu á áhorfendaaðstöðu, sem áætlað er að rúmi um 300 manns, enda ljóst að núverandi aðstaða dugar ekki.
Frestað.
5. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 13. júlí sl., með ósk um umsögn um tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um úrbætur á áhorfendaaðstöðu við Leiknisvöll.
Frestað.
6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur fram tillögu um að aðstaða til íþróttaiðkunar við Klambratún verði löguð hið fyrsta og gert verði ráð fyrir henni á fjárfestingaráætlun 2016. Í fyrsta lagi að fótboltavöllur við Lönguhlíð verði lagaður og verði margnota. Tveir eða þrír vellir verði gerðir í stað eins svo fleiri geti nýtt völlinn. A.m.k. verði einn völlur tyrfður eða gervigras notað en einn áfram með möl fyrir fjölbreytta notkun, t.d. brennibolta. Þá verði körfuboltavöllur lagaður og sett undirlag á pari við það sem er við Hagaskóla. Mikið líf er á þeim velli og notkun - bæði barna- og unglinga en einnig fullorðna. Tillagan er í samræmi við tillögu hóps sem vann framtíðarskipulag á Miklatúni sbr. http://www.hlidar.com/index.php/id/1966. Þá er mælst til þess að við frekari uppbyggingu við Miklatún verði horft til framangreindra hugmynda sem unnar voru í samráði við íbúa. Klambratún er Central Park okkar Reykjavíkinga. Mikið líf er alla daga á Klambratúni. Tillagan er einnig til þess fallin að gera dásamlegt útivistarsvæði enn betra. Þá er hún í samræmi við þá stefnu að gera almenningsíþróttum hærra undir höfði og stuðla að aukinni lýðheilsu borgarbúa.
Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks.
Sem fyrr styðja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hugmyndir um að bæta aðstæður til íþróttaiðkunar á Klambratúni og leggja til að aðstöðu til hjólabrettaiðkunar verði komið fyrir þar sem fyrst.
7. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra ÍTR dags. 12. ágúst sl. vegna fyrirspurnar fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina frá seinasta fundi um kostnað vegna Borgarholtsskóla af íþróttamannvirkjum Reykjavíkurborgar.
8. Lagt fram svar sviðsstjóra dags. 12. ágúst sl. við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðismanna um battavöll í Foldaskóla.
9. Lagt fram yfirlit yfir fundi ráðsins til áramóta. Dagsetningar verða endurskoðaðar og lagðar fram á næsta fundi.
10. Lögð fram hugmynd frá Betri Reykjavíkur um næturopnun sundstaða.
Bókun íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar ábendingu um næturopnun sundstaða. Ekki hafa legið fyrir áður óskir um slíka opnun og ekki er gert ráð fyrir henni í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar í ár og á næsta ári, en benda má á að næturopnum hefur verið í einstök skipti á liðnum árum.
11. Lögð fram hugmynd frá Betri Reykjavík um frítt í sund fyrir alla, einu sinni í mánuði.
Bókun íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar ábendingu um að frítt verði í sundlaugar borgarinnar fyrir alla einu sinni í mánuði. Íþrótta- og tómstundaráð telur ekki grundvöll fyrir slíkri tillögu eins og staðan er í dag.
12. Lögð fram hugmynd frá Betri Reykjavík um sundlaug í Fossvogsdal.
Bókun íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar ábendingu um sundlaug í Fossvogsdal og vísar í fyrri umsagnir ráðsins um slíka tillögu.
13. Lögð fram tillaga frá hverfisráði Grafarvogs 18. júní sl. vegna áhorfendaaðstöðu við Dalhús við knattspyrnuvelli félagsins.
14. Lagt fram afrit af bréfi Ungmennafélagsins Fjölnis til Framkvæmdasviðs dags. 9. júlí sl. vegna vallarmála við Dalhús.
15. Lagt fram bréf Sjósundfélags Reykjavíkur o.fl. dags. 23. júlí sl. með ósk um lengri vetraropnun Ylstrandar.
- kl. 13:25 vék Kjartan Magnússon af fundi og Björn Gíslason tók sæti hans.
- kl. 13:26 vék formaður Þórgnýr Thoroddsen af fundi og Eva Einarsdóttir tók við fundarstjórn.
16. Lagt fram bréf ÍSÍ dags. 29. júní sl. vegna íþróttaþings.
17. Lagt fram bréf fjármálastjóra dags. 8. júlí sl. vegna fjárhagsáætlunar 2016.
18. Lagt fram bréf umboðsmanns borgarbúa dags. 16. júlí sl. vegna frístundakortsins.
Lögð fram drög að svari til umboðsmanns borgarbúa.
19. Lagt fram bréf Dósaverksmiðjunnar dags. 13. júlí sl. vegna frístundakortsins.
Lögð fram umsögn vegna erindisins.
20. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 3. júli sl. vegna fyrirspurnar í borgarráði um aðgengismál í sundlaugar.
Lagt fram bréf sviðsstjóra ÍTR dags. 12. ágúst sl. vegna málsins.
kl. 13:36 kom formaður Þórgnýr Thoroddsen á fundinn og tók við fundarstjórn.
kl. 13:38 kom Ingvar Sverrisson ÍBR á fundinn.
21. Lagt fram bréf varaformanns Sjálfsbjargar dags. 30. júní sl. vegna aðgengismála við sundlaugar.
22. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 20. júlí sl. vegna svohljóðandi tillögu borgarfulltrúa sjálfstæðisflokksins um að glæða borgargarða nýju lífi:
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að glæða borgargarða nýju lífi var flutt í borgarstjórn um miðjan marsmánuð. Hún fékk jákvæða umsögn Íþrótta- og tómstundaráðs 24. apríl sl. og sömuleiðis jákvæða umsögn Menningar- og ferðamálasviðs 27. apríl og hefði því ekkert átt að vera að vanbúnaði hefja vinnu í anda hennar. Því var ekki heilsa. Tillaga um að dreifa álagi ferðamanna um borgina og nýta gamla borgargarða á nýjan hátt var laumulega stungið undir stól. Hún var svo dregin fram þremur mánuðum síðar þegar langt var liðið á sumar og vísað annan hring inn í borgarkerfið. Þetta er í samræmi við þær starfsaðferðir sem teknar hafa verið upp á þessu kjörtímabili. Þær felast í því að nýta aldrei og samþykkja aldrei tillögur frá minnihlutanum hversu gagnlegar sem þær kunna að vera. Jafnvel þannig er farið með tillögu sem sett er fram í þeim tilgangi að auka litríki borgarinnar og nýta sköpunarkrafta ungs fólks til þess að kalla borgarbúa og ferðamenn inn í garðana. Margar borgir hafa markvisst dreift álagi vegna ferðamanna með þessum hætti. Við það eykst fjölbreytileiki borgarlífsins og upplifun ferðamannsins verður ekki einvörðungu bundin við gönguferðir um hina sögulegu miðborg. Óskandi hefði verið að borgarfulltrúar meirihlutans hefðu litið upp úr úreltri og gamaldags átakapólitík og nýtt tillöguna til gagns fyrir borgarbúa og þá sem koma að heimsækja Reykjavík.
23. Lagt fram bréf Íþróttafélagsins Jaðars dags. 25. júlí sl. vegna húsnæðismála.
Vísað til skrifstofustjóra þjónustu og rekstrar og sviðsstjóra.
24. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 17. júlí sl. með ósk um umsögn um skýrslu starfshóps um þjónustuveitingu Reykjavíkurborgar.
Samþykkt að kjörnir fulltrúa skipti með sér verkum samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra dagsett í dag.
25. Lagt fram bréf Samgöngustjórnar Reykjavíkurborgar dags. 4. ágúst sl. með ósk um umsögn um tillögu til leiðakerfisbreytinga hjá Strætó.
Samþykkt að kjörnir fulltrúa skipti með sér verkum samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra dagsett í dag.
26. Lagt fram erindi mannréttindanefndar dags. 7. ágúst sl. með ósk um umsögn að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkur.
Samþykkt að kjörnir fulltrúa skipti með sér verkum samkvæmt minnisblaði sviðsstjóra dagsett í dag.
27. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 7. ágúst sl. með ósk um umsögn um tillögu að yfirlýsingu um samstarf Íslands og Færeyja um eflingu kappróðurs á Íslandi.
Íþrótta- og tómstundaráð mælir með samstarfinu.
28. Lögð fram eftirfarandi tillaga meirihluta fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:
Íþrótta- og tómstundaráð felur sviðsstjóra að útbúa hugmyndir um gjaldtöku við Nauthólsvík allan ársins hring. Tillögur verði lagðar fyrir ráðið.
Greinargerð:
Reykjavíkurborg greiðir þjónustu við Nauthólsvík svo sem búningsklefa, heitan pott og gufu og starfsmenn allan ársins hring. Eðlilegt er að iðkendur greiði fyrir þá þjónustu sem þar er veitt.
Frestað.
Fundi slitið kl. 14:15
Þórgnýr Thoroddsen
Eva Einarsdóttir Eva Baldursdóttir
Tomasz Chrapek Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir Trausti Harðarson
PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 14.8.2015 - prentvæn útgáfa