Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 229

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2015, föstudaginn 26. júní var haldinn 229. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur.  Fundurinn var haldinn hjá  Ungmennafélaginu Fjölni í Egilshöll og hófst hann kl. 12:15. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Unnsteinn Jóhannsson varamaður fyrir Evu Einarsdóttur, Bjarni Þór Sigurðsson, Eva Baldursdóttir, Marta Guðjósdóttir, Kjartan Magnússon og Trausti Harðarson. Einnig: Hermann Valsson VG, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Rætt um húsnæðismál vegna frístundar fatlaðra framhaldsskólanema. Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Ánægjulegt er að verið sé að leysa húsnæðisvandræði frístundarþjónustu fatlaðra framhaldsskólanema með fyrirhuguðum flutningi á hluta hennar í nýtt húsnæði í Elliðaárdal. Núverandi húsnæði er fyrir löngu orðið of lítið undir starfsemina auk þess sem það er að ýmsu leyti óhentugt. Æskilegt hefði þó verið að hið nýja húsnæði rúmaði alla starfsemina enda mun betra að sinna svo sérhæfðu starfi á einum stað í stað tveggja.

2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra ÍTR dags. 15. júní sl. vegna fyrirpurnar fulltrúa Framsóknar- og flugvallarvina um ársreikninga hverfisíþróttafélaga.

3. Lögð fram bréf fjármálaskrifstofu dags. 16. júní sl. vegna endurskoðunar á fjárhagsáætlun 2015 og úthlutunar fjárhagsramma 2016.

4. Rætt um veitingasölu á sundstöðum.

Lögð fram eftirfarandi tillaga meirihluta fulltrúa Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að gjaldskrá á kaffi verði samræmd milli sundstaða Reykjavíkur og taki gildi 1. október 2015. Útfærslu er vísað til sviðsstjóra og forstöðufólks sundstaðanna.

Frestað.

5. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Framsóknar og flugvallarvina:

Knattspyrnuliðið Leiknir er í fyrsta skiptið í sögu félagsins að spila í Peppsídeildinni og hefur liðið komið inn á góðum krafti. Stuðningsmenn þeirra Leiknisljónin fjölmenna á alla leiki og styðja íþróttamenn sína af miklu afli, skapað einstaka stemningu hvort sem er á heimavelli eða útivelli. Frá upphafi leiks til enda er spilað stöðugt á bongo trommur, slegnar trommur, sungin mörg æfð stuðningsmannalög, klappað og hvatt leik og leikmenn áfram. Þessi kraftur, áhugi og miklu stuðningur stuðningsmanna Leiknis hefur verið framúrskarandi og mjög svo aðdáunarverður. Til að styðja við þetta frumkvæði stuðningsmanna Leiknis og hvetja þá áfram til að viðhalda þessari einstöku stemningu sem þeir standa fyrir, veitir ÍTR Leiknisljónunum 50 þúsund króna styrk til að nýta í hópeflið sem hefur klárlega haft góð áhrif á hverfi og lið þeirra Leiknismanna.

Frestað.

6. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðismanna:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur telur rétt að ráðist verði í frekari úrbætur á áhorfendaaðstöðu á Leiknisvelli í samstarfi við félagið. Skoðaðar verði hugmyndir Leiknis um uppsetningu á áhorfendaaðstöðu, sem áætlað er að rúmi um 300 manns, enda ljóst að núverandi aðstaða dugar ekki. 

Frestað.

7. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðismanna: 

  Legið hefur fyrir ósk í nokkur ár að girðing við battavöll í Foldaskóla verði lagfærð og hækkuð í öryggisskyni.  Hvenær má búast við því að framkvæmdir við girðinguna hefjist?

8. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata:

Íþrótta- og tómstundaráð leggur fram tillögu um að aðstaða til íþróttaiðkunar við Klambratún verði löguð hið fyrsta og gert verði ráð fyrir henni á fjárfestingaráætlun 2016. Í fyrsta lagi að fótboltavöllur við Lönguhlíð verði lagaður og verði margnota.  Tveir eða þrír vellir verði gerðir í stað eins svo fleiri geti nýtt völlinn.  A.m.k. verði einn völlur tyrfður eða gervigras notað en einn áfram með möl fyrir fjölbreytta notkun, t.d. brennibolta. Þá verði körfuboltavöllur lagaður og sett undirlag á pari við það sem er við Hagaskóla. Mikið líf er á þeim velli og notkun - bæði barna- og unglinga en einnig fullorðna.

Tillagan er í samræmi við tillögu hóps sem vann framtíðarskipulag á Miklatúni sbr. http://www.hlidar.com/index.php/id/1966. Þá er mælst til þess að við frekari uppbyggingu við Miklatún verði horft til framangreindra hugmynda sem unnar voru í samráði við íbúa. 

Klambratún er Central Park okkar Reykjavíkinga. Mikið líf er alla daga á Klambratúni.Tillagan er einnig til þess fallin að gera dásamlegt útivistarsvæði enn betra. Þá er hún í samræmi við þá stefnu að gera almenningsíþróttum hærra undir höfði og stuðla að aukinni lýðheilsu borgarbúa.

Frestað.

9. Formaður Fjölnis Jón Karl Ólafsson kynnti starfsemi félagsins ásamt Guðmundi Gunnarssyni framkvæmdastjóra.  Jafnframt sátu fundinn stjórnarmennirnir Sveinn Ingvarsson og Ásgeir Heimir Guðjónsson. Farið var í skoðunarferð um Egilshöllina í lok fundar.

10. Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Fjölni fyrir góðar móttökur og þakkar félaginu fyrir öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf í Grafarvogi í næstum þrjá áratugi. Ljóst er að kröfur til starfsemi félagsins munu aukast á næstu árum í ljósi væntanlegrar íbúafjölgunar, m.a. vegna fyrirhugaðrar stækkunar Bryggjuhverfis og hugmynda um aukna íbúabyggð í Húsahverfi. Ljóst er að mikilvægt er að leysa aðstöðuvanda Fjölnis vegna iðkunar inni-íþróttagreina í Grafarvogi. Á undanförnum árum hafa fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í íþrótta- og tómstundaráði (ÍTR) reglulega flutt tillögur um aðstöðumál félagsins og bent á þörf þess fyrir viðbótarhúsnæði, t.d. með viðbótarframkvæmdum við Egilshöll eða annars staðar í hverfinu. Á fundi ÍTR 14. október 2011 lögðu sjálfstæðismenn til að leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar.  Á fundi ÍTR 27. janúar 2012 lögðu sjálfstæðismenn til að hafnar yrðu formlegar viðræður sem fyrst við Fjölni vegna aðstöðuvanda félagsins. Á fundi ÍTR 9. nóvember 2012 samþykkti ráðið tillögu sjálfstæðismanna um að leitað yrði leiða til að bæta úr aðstöðuvanda Fjölnis fyrir inni-íþróttagreinar. Á fundi ÍTR 21. febrúar 2013 lögðu sjálfstæðismenn fram tillögu um að óskað yrði eftir viðræðum milli Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu fjölnota íþróttahúss Borgarholtsskóla, sem samnýtt verði í þágu skólans og íþróttastarfs Fjölnis. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka þessar tillögur og óska eftir að þær verði hafðar að leiðarljósi við framtíðarstefnumótun í þágu íþrótta- og æskulýðsmála í Grafarvogi.

11. Fulltrúi framsóknar og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:

Óskað er eftir kostnaðarútreikiningum af notkun Borgarholtsskóla af íþróttamannvirkjum Reykjavíkurborgar sem þau hafa aðgang að í dag án endurgjalds.

Fundi slitið kl. 14:35.

Þórgnýr Thoroddsen

Eva Baldursdóttir Bjarni Þór Sigurðsson

Unnsteinn Jóhannsson Trausti Harðarson

Kjartan Magnússon Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 26.6.2015 - prentvæn útgáfa