Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2014, fimmtudaginn 11. september var haldinn 211. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Vesturgarði og hófst hann kl. 14:05. Viðstaddir: Þórgnýr Thoroddsen formaður, Elsa Hrafnhildur Yeoman varamaður fyrir Evu Einasdóttur, Eva Baldursdóttir, Trausti Harðarson, Kjartan Magnússon og Björn Gíslason varamaður fyrir Mörtu Guðjónsdóttur. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Frímann Ari Ferdinardsson ÍBR, Ómar Einarsson sviðsstjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna styrks til KFUM og K.
Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til borgarráðs að veittur verði styrkur til KFUM og –K til að unnt verði að ljúka byggingu svefnskála í Vatnaskógi. Framkvæmdir hófust 2007 og hefur Reykjavíkurborg þegar veitt styrk til verksins en vegna áfalla í efnahagslífi, hafa aðrar leiðir við fjármögnun þess að töluverðu leyti brugðist. Verkið er þó vel á veg komið en umtalsverð vinna eftir innanhúss. Hinn nýi skáli mun fullnægja öllum kröfum eldvarna- og heilbrigðiseftirlits en eldra húsnæði er ábótavant hvað slíkar kröfur varðar. Á hverju ári dvelja þúsundir barna og ungmenna í Vatnaskógi og taka þátt í uppbyggilegu æskulýðsstarfi
Samþykkt að vísa tillögunni til borgarráðs og meðferðar fjárhagsáætlunar.
2. Rætt um setu fulltrúa Ungmennaráðs á fundum íþrótta- og tómstundaráðs.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að bjóða fulltrúa ungmennaráðs setu á fundum ráðsins.
kl. 14:10 kom Tomazs Chrapek á fundinn.
3. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra dags. 5. sept. sl. vegna fyrirspurnar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um viðræður við ríkisvaldið um byggingu íþróttahúss í Grafarvogi.
Fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa rætt við fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins og mennta- og menningarmálaráðherra vegna þessa mál á árunum 2013-2014. Formaður Fjölnis hefur rætt við fulltrúa Borgarholtsskóla og fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Framkvæmdastjóri ÍTR og formaður Fjölnis hafa átt fund með embættismönnum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Í framhaldi af þessum fundum skrifaði borgarstjóri bréf til mennta- og menningarmálaráðherra í júní sl. og óskaði eftir formlegum viðtæðum við ræðuneytið um byggingu á viðbótaraðstöðu fyrir inniíþróttir í Grafarvogi, sem gæti nýst fyrir Fjölni og afreksíþróttasvið Borgarholtsskóla.
4. Lagt fram bréf Vélhjólaklúbbsins VÍK dags. 4. sept. sl. með beiðni um styrk vegna aðstöðumála félagsins.
Vísað til gerðar fjárhagsáætlunar.
5. Lagt fram bréf borgarráðs dags. 4. sept. sl. þar sem fram kemur að borgarráð hafi samþykkt tillögu borgarstjóra um stofnun starfshóps vegna samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna. ÍTR skal skipa einn fulltrúa.
6. Lagt fram bréf sviðsstjóra SFS dags. 8. sept. sl. varðandi tillögu Sindra Más Fannarssonar ungmennaráði Árbæjar og Holta varðandi samkomusvæði í Grafarholti og Úlfarsárdal.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka Sindra Má Fannarssyni og Margréti Sæmundsdóttur frá ungmennaráði Árbæjar og Holta fyrir góðar tillögur og ábendingar í þágu ungmennastarfs í þessum hverfum. Vegna umræðna um skort á hjólabretta-aðstöðu í Grafarholti skal minnt á að hinn 21. febrúar 2013 samþykkti íþrótta- og tómstundaráð tillögu Sjálfstæðisflokksins um að slíkri aðstöðu yrði komið fyrir í Grafarholti að nýju í þágu barna og ungmenna. Lýst er yfir vonbrigðum með að hjólabrettaaðstöðu skuli enn ekki hafa verið komið fyrir og er óskað eftir að úr því verði bætt hið fyrsta.
7. Rætt um aðstöðu fyrir hjólagarð í Skálafelli.
8. Lögð fram til kynningar hugmynd af brettagarði í Gufunesi.
Fulltrúi Framsóknarflokks og flugvallarvina lagði fram eftirfarandi bókun:
Á engan hátt er hægt að styðja og/eða samþykkja 160 milljón króna byggingu hjólabrettagarðs fyrr en önnur forgangsverkefni til íþrótta og tómstundaiðkunar í Grafarvogi hafa verið leyst. Til samanburðar þá duga þessar 160 milljónir til að reka með öllum kostnaði nýtt íþróttahús við Egilshöll inn á fjórða til fimmta ár. Algjör forgagnsverkefni í Grafarvogi eru: Númer 1, bygging íþróttahús við Egilshöll og það í þeim stíl að um sé að ræða tvöfalt íþróttahús til æfinga. Í þessu fjölmennasta barnahverfi borgarinnar þar sem um 20% Reykvíska barna og unglinga (á aldrinum 0 til 20 ára) búa er aðeins eitt íþróttahús að fullri stærð og eitt hálft íþróttahús. Númer 2, byggingu annarri lítillar innisundlaugar til kennslu við Grafarvogssundlaug. Átta skólar eru í Grafarvogi og kemst aðeins hluti barna Grafarvogs að þar í skólasundkennslu, til viðbótar fær stór hluti skerta sundkennslu og enn einn hópurinn af börnum er keyrður í önnur hverfi til sundkennslu. Númer 3, gera sundlaug Grafarvogs enn meiri skemmtun fyrir börnin og fjölskyldur svo sem með uppsetningu á lítilli barnarennibraut í vaðlaug, uppsetningu fleiri útfærslum af stórum rennibrautum sem draga að börn og unglinga. Auk viðbótar vaðlaugar/sólarpotts fyrir unglinga og fullorðna, en í dag er í raun ekki pláss fyrir börn í núverandi vaðlaug vegna nýtingar fullorðna. Barnafólk í Grafarvogi þarf og sækir í Mosfellsbæ í sund með börn sín þar sem Grafarvogssundlaug býður upp á of litla upplifun fyrir börn í dag í samanburði við aðrar sundlaugar. Númer 4, lausnir sem styðja við knattspyrnuiðkendur. Þó svo yfirbyggða knattspyrnuhúsið við Egilshöll sé staðsett í Grafarvogi þá hafa Grafarvogsbúar mjög takmarkað nýtingu að húsinu, úthlutaðir tímar til Fjölnis eru um 1/3 af mögulegum æfingartímum. Vinna þarf með hverfinu að áætlunum um að setja gervigras á aðalknattspyrnuvöll hverfisins svo nýtingahlutfall hans aukist frá 3 mánuðum upp í 11 og dagleg notkun geti verið fyrir börn, unglinga sem og meistaraflokk. Áætlun þarf um hvernig hægt er að styðja við hverfið með lámarksbyggingu á áhorfendastúku við keppnisvöllinn. Númer 5, bygging á litlu frjálsíþróttahús 1/3 eða 1/4 frjálsíþróttavallar sem hefur hlaupabraut um 100 metra plús beygju ásamt léttri aðstöðu fyrir annað. Með þessari framkvæmd væri stuðningur við frjálsar íþróttir í þessu barnstærsta hverfi borgarinnar leystur en á unglinga og afrekstig myndu Grafarvogsbúar sækja í enn stærri aðstöðu í Laugardalinn.
9. Sviðsstjóri sagði frá stöðu við vinnu fjárhagsáætlunar.
10. Rætt um Fjölskyldugarðinn og nýtingarmöguleika.
Fundi slitið kl. 15:50
Þórgnýr Thoroddsen
Eva Baldursdóttir Elsa H. Yeoman
Tomazs Chrapek Kjartan Magússon
Björn Gíslason Trausti Harðarson
PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 11.9.2014 - prentvæn útgáfa