Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 205

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2014, föstudaginn 9. maí var haldinn 205. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn hjá Íþróttafélagi fatlaðra Hátúni og hófst hann kl. 11:00. Viðstödd voru: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Bjarni Þór Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason. Einnig: Ómar Einarsson sviðsstjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Andrés Bögebjerg Andreasen fjármálastjóri, Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi VG, Frímann Ari Ferdinandsson áheyrnarfulltrúi ÍBR, Sindri Már Fannarsson áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Eygló Rúnarsdóttir starfsmaður ungmennaráða og Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram til staðfestingar fundargerð 204. fundar íþrótta- og tómstundaráðs.

Ekki voru gerðar athugasemdir við fundargerðina og hún undirrituð.

2. Lagt fram bréf Eyglóar Rúnarsdóttur starfsmanns Reykjavíkurráðs ungmenna dags. 22. apríl sl. vegna setu fulltrúa Reykjavíkurráðs á fundum íþrótta- og tómstundaráðs.

3. Áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna, Sindri Már Fannarsson og Eygló Rúnarsdóttir starfsmaður ungmennaráða, boðin velkominn.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda bókun:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna því að áheyrnarfulltrúi Reykjavíkurráðs ungmenna hafi tekið sæti í íþrótta- og tómstundaráði. Þar með er loks komin í framkvæmd tillaga, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram um málið á sameiginlegum fundi borgarfulltrúa og fulltrúa Reykjavíkurráðsins 12. apríl 2011. Hefur þetta góða mál því tafist í rúm þrjú ár í borgarkerfinu. Slík vinnubrögð sýna annars vegar óvirðingu meirihluta Samfylkingar og Bjartrar framtíðar/Besta flokksins gagnvart Reykjavíkurráði ungmenna og hins vegar lélega verkstjórn meirihlutans í nefndum og ráðum Reykjavíkurborgar. Sem fyrr leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins áherslu á að aðkoma áheyrnarfulltrúa Reykjavíkurráðs ungmenna verði ekki tímabundin heldur varanleg og munu áfram vinna að því.

4. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 8. maí sl. með ósk um umsögn íþrótta- og tómstundaráðs um erindi ÍSÍ, ÍBR o.fl. vegna skotaðstöðu á Álfsnesi.

Svofelld umsögn samþykkt:

Íþrótta- og tómstundaráð mælir með því við borgarráð að gengið verði til samninga við Skotfélag Reykjavíkur á grundvelli fyrirliggjandi erindis og umsagnar.

5. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 8. maí sl. með ósk um umsögn íþrótta- og tómstundaráðs um samning við KSÍ vegna Laugardalsvallar.

Svofelld umsögn samþykkt:

Íþrótta- og tómstundaráð mælir með því við borgarráð að gengið verði til samninga milli Reykjavíkurborgar og KSÍ um áframhaldandi rekstur Laugardalsvallar á vegum KSÍ. Núverandi samningur er úr gildi fallinn og KSÍ annast þjónustu f.h. ÍTR við frjálsíþróttafólk, skylmingafólk og knattspyrnuhreyfinguna bæði á landsleikjum og deildarkeppnum. Íþrótta- og tómstundaráð telur það hagstætt fyrir Reykjavíkurborg að KSÍ annist rekstur Laugardalsvallar á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga. Íþrótta- og tómstundaráð leggur áherslu að sátt verði milli allra notenda Laugardalsvallar hvað varðar knattspyrnu og frjálsar íþróttir sbr. 2. gr. samningsins og að öllum aðilum sé sýnd góð þjónusta og þjónustulund verði í hávegum höfð.

6. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 8. maí sl. með ósk um umsögn íþrótta- og tómstundaráðs um erindi SEA um samning við KSÍ vegna framkvæmda við fljóðljós á Laugardalsvelli.

Svofelld umsögn samþykkt:

Íþrótta- og tómstundaráð telur nauðsynlegt að ráðast í endurbætur á flóðljósum á Laugardalsvelli og telur að sá samningsgrundvöllur sem hefur skapast á milli SEA-KSÍ og fleiri aðila sé hagstæður fyrir Reykjavíkurborg og mælir með því við borgarrráð að gengið verði til samninga á milli aðila á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga.

7. Lagt fram bréf Sport og fritid í Århus vegna fyrirhugaðrar vinabæjaráðstefnu í september 2014.

8. Kynjuð fjárhagsáætlun.

Lögð fram svofelld tillaga að verkefni Íþrótta- og tómstundaráðs við kynjaða fjárhags- og starfsáætlanagerð árið 2015:

Markmið verkefnisins er að kanna hvort styrkir og framlög borgarinnar stuðli að jöfnum möguleikum kynjanna innan starfsemi félaganna í hverfum borgarinnar. Verkefnið byggir á eftirfylgd verkefnis ÍTR sem unnið hefur verið að sl. 2 ár. Unnin hefur verið ítarleg  verkefnalýsing fyrir greiningar- og aðgerðaráætlun varðandi þátttöku 6-18 ára barna í íþrótta- og æskulýðsstarfi í Reykjavík  með aðferðafræði kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar. Gert er ráð fyrir að gerð verður úttekt á nýtingu styrkja, byggt á gögnum ÍTR, ÍBR og félaganna um iðkendafjölda í mismunandi íþróttagreinum innan íþróttafélaga í Reykjavík. Kortlagning og samanburður verður gerður milli ólíkar íþróttagreina. Horft verður til eftirfarandi grunnþátta við greininguna: Íþróttagreina, íþróttafélaga, hverfa með tilliti til aðstöðumunar, greina sem ekki eru hverfisbundnar, kynja, aldurshópa og dreifingu styrkja í samræmi við ofantalið. Bornir verða saman styrkir borgarinnar við mismunandi greinar og hvernig þeir skila sér til stráka og stelpna miðað við iðkendatölur félaganna og fjölda æfingatíma eftir kynjum. Sérstaklega verður horft til stuðnings við vaxandi greinar og hugmynda um uppbyggingu aðstöðu, bæði miðlægt í borginni og í einstaka hverfum.

Samþykkt.

9.  Sumaropnun sundstaða.

Fulltrúar meirihluta lögðu fram svofellda tillögu:

Íþrótta- og tómstundaráð gerir þá tillögu að opnunartími lauganna í Reykjavík verður lengdur yfir sumartímann. Opið verði í tveimur laugum, Vesturbæjarlaug og Árbæjarlaug, til 20.00 um helgar yfir sumarmánuðina þrjá sem er lenging um klukkustund frá því í fyrra. Í öðrum laugum verði opið til kl. 19.00. Eftir sem áður er opið í laugardalslaug alla daga til 22.00. Tillagan um lenging opnunartíma tryggir að opið sé í tveimur laugum, annars vegar í vesturhluta borgarinnar og hins vegar í austurhluta.

Samþykkt.

MG lagði fram svofellda bókun:

Undirrituð telur að lengja hefði átt opnunartíma sundlauganna í sumar í öllum hverfum borgarinnar en ekki bara í Vesturbænum og Árbæ

Fulltrúar meirihutans lögðu fram svofellda bókun:

Meirihlutinn telur rétt að framlengja opnunartíma í sátt og samlyndi við starfsfólk lauganna en það er sátt við þá tillögu sem hér er lögð fram. Þá er mikilvægt að skoða reynslu af framlengdum opnunartíma og sjá hvort almenn ánægja sé með hann og aðsókn sé viðunandi með hliðsjón af því sem það kostar að lengja opnunartíma. Í fyrra jókst aðsókn ekki mikið þrátt fyrir að opnunartími lauganna væri lengdur til kl. 19.00 sem má mögulega skýra af slæmu veðri - en meirihlutinn spáir veðurblíðu þetta sumarið. Meirihluti SamBesta telur því rétt að taka upp framangreint fyrirkomulag. Reynist það vel kemur til skoðunar að framlengja til 20.00 á næsta ári, enda er framlenging opnunartíma ávalt kostuð af skattfé íbúa Reykjavíkur og því mikilvægt að auka ekki við rekstarreikning borgarinnar nema að aðsókn sé viðunandi.

10. Lagt fram fjárhagsyfirlit ÍTR 2013.

11.  Smáþjóðaleikar 2015 – Rætt um stöðu mála.

12.  Lagt fram bréf Íshokkísambands Íslands dags. 2. maí sl. vegna HM karla í íshokkí í Reykjavík 2015.

13.  Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík dags. 30. apríl sl. - "Rugby völl í Reykjavík".

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar ábendinguna. Búið var að samþykkja staðsetningu Rugbyvallar á Gufunesi.

14.  Kynning á Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík.

Á fundinn kom formaður félagsins, Garðar Steingrímsson, ásamt Þórði Ólafssyni framkvæmdastjóra, Óskari Elvari Guðjónssyni formanni húsnefndar, Þresti Steinþórssyni umsjónarmanni íþróttahússins og kynntu starfsem félagsins.

15. Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta Flokksins leggja fram svofellda tillögu:

Aðstaða til íþróttaiðkunar við Klambratún/Miklatún verði löguð hið fyrsta. Í fyrsta lagi að fótboltavöllur við Lönguhlíð verði fjölnota.  Tveir eða þrír vellir verði gerðir í stað eins svo fleiri geti nýtt völlinn.  Tveir af þremur völlum eða einn af tveimur völlum verði tyrfðir eða gervigras notað en einn áfram með möl fyrir fjölbreytta notkun, t.d. brennibolta. Þá verði körfuboltavöllur lagaður og sett undirlag á pari við það sem er við Hagaskóla. Mikið líf er á þeim velli og notkun - bæði barna- og unglinga en einnig fullorðna. Tillagan er í samræmi við tillögu hóps sem vann framtíðarskipulag á Miklatúni sbr. http://www.hlidar.com/index.php/id/1966. Þá er mælst til þess að við frekari uppbyggingu við Miklatún verði horft til framangreindra hugmynda sem unnar voru í samráði við íbúa. Tillagan er einnig til þess fallin að gera dásamlegt útivistarsvæði enn betra. Þá er hún í samræmi við þá stefnu að gera almenningsíþróttum hærra undir höfði og stuðla að aukinni lýðheilsu borgarbúa.

Frestað

16. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda fyrirspurn:

Borgarráð samþykkti á fundi sínum hinn 10. júlí 2008 að gefa Knattspyrnufélaginu Víkingi fyrirheit um stækkun athafnasvæðis félagsins eftir að leigusamningur við lóðarhafa við Stjörnugróf rennur út árið 2016. Hinn 26. júní 2009 samþykkti Íþrótta- og tómstundaráð að skipa vinnuhóp með fulltrúum Íþrótta- og tómstundasviðs, Skipulags- og byggingarsviðs og Knattspyrnufélagsins Víkings til að fjalla nánar um afhendingu umrædds svæðis til félagsins sem og þær hugmyndir og tillögur, sem Víkingur hefur um nýtingu svæða félagsins til framtíðar. Óskað er eftir greinargerð um framvindu málsins og stöðu viðræðna við Víking um það.

17. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda fyrirspurn:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa um árabil beitt sér fyrir því að skipulagi lóðarinnar Keilugranda 1 (SÍF-reitsins) verði breytt og að öll lóðin verði nýtt í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í Vesturbænum. Óskað er eftir upplýsingum um stöðu viðræðna milli Reykjavíkurborgar og Knattspyrnufélags Reykjavíkur um lóðina.

Fundi slitið kl. 13:05

Eva Einarsdóttir

Eva Baldursdóttir Diljá Ámundadóttir

Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon

Björn Gíslason Marta Guðjónsdóttir

Fundargerð var ekki undirrituð en verður lögð fram til staðfestingar á næsta fundi ÍTR.

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 09.05.2014 - prentvæn útgáfa