Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 2

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2005, föstudaginn 4. febrúar, var haldinn 2. fundur Íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Fríkirkjuvegi 11 og hófst kl.12:00. Viðstaddir voru: Anna Kristinsdóttir formaður, Ingvar Sverrisson, Svandís Svavarsdóttir, Andrés Jónsson, Benedikt Geirsson og Bolli Thoroddsen. Jafnframt sátu fundinn Agnar Freyr Helgason, Frímann Ari Ferdinardsson, Ómar Einarsson sviðsstjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Lögð fram fundargerð seinasta fundar. Ekki gerðar athugasemdir.

2. Rætt um skipun Þjóðhátíðarnefndar.

3. Lögð fram drög að nýrri samþykkt fyrir íþrótta- og tómstundaráð dags. í dag ásamt skipuriti fyrir ÍTR. Jafnframt lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. í dag ásamt drögum að fyrirmynd að samþykkt fyrir fagráð Reykjavíkurborgar, þar sem óskað er eftir umsögn íþrótta- og tómstundaráðs.
Frestað.

4. Lögð fram greinargerð starfshóps um nýtt stjórnskipulag hjá Reykjavíkurborg dags. 3. feb. sl. um stjórnkerfisbreytingar hjá Reykjavíkurborg.

- Kl. 12:15 tók aðstoðarframkvæmdastjóri ÍTR sæti á fundinum.

5. Lagt fram að nýju bréf skipulags- og bygginganefndar dags. 9. des. sl. þar sem vísað er til umsagnar íþrótta- og tómstundaráðs tillögu að deiliskipulagi íþróttasvæðis við Rauðavatn.
Íþrótta- og tómstundaráð gerir ekki athugasemdir við deiliskipulagið.

6. Lagt fram bréf verkefnisstjóra Forvarnarnefndar dags. 1. feb. sl. varðandi fund um forvarnarmál.
Vísað til aðstoðarframkvæmdastjóra ÍTR.

7. Lögð fram greinargerð um #GLBorgarleika#GL í íþróttum ungmenna dags. 7. okt. 2004.

8. Lögð fram drög að stefnumótun ÍTR dags. 1. feb. sl.

9. Lagt fram bréf Knattspyrnufélagsins Víkings dags. 20. jan. sl. vegna tennisvalla.

- Kl. 12:45 tók Kjartan Magnússon sæti á fundinum.

10. Lagður fram ársreikningur og ársskýrsla Reykjavíkurmaraþons vegna 2004.

11. Lagt fram bréf stjórnar Reykjavíkurmaraþons dags. 20. des. sl. þar sem óskað er eftir áframhaldandi samstarfi vegna hlaupsins.
Íþrótta- og tómstundaráð vísar erindinu til afgreiðslu sviðsstjóra ÍTR og framkvæmdastjóra ÍBR.

12. Lagt fram að nýju bréf ÍBR dags. 26. nóvember sl. varðandi kvennahlaup.
Íþrótta- og tómstundaráðs samþykkir að ganga til viðræðna um kvennahlaup ÍSÍ í Reykjavík.

13. Lagt fram bréf Atla Bollasonar dags. 4. janúar sl. vegna Morgron keppninnar. Jafnframt lagt fram yfirlit um fyrri bréfaskipti vegna málsins.
Vísað til skoðunar aðstoðarframkvæmdastjóra, Andrésar Jónssonar og Bolla Thoroddsen.

- Kl. 13:20 vék Bolli Thoroddsen af fundi.

14. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra dags. 6. jan. sl. varðandi erindi afkomenda Páls Erlingssonar sbr. 20. lið fundargerðar ÍTR frá 15. desember sl. um nafn á nýja sundlaug í Laugardal.
Vísað til sviðsstjóra ÍTR

15. Lagt fram bréf Sundfélagsins Ægis ódags. með ósk um styrk vegna alþjóðasundmóts Ægis í Laugardal.
Frestað.

16. Fulltrúar Reykjavíkurlistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að beina því til Sambands íslenskra æskulýðsfélaga (SÍÆ) að sambandið taki að sér að kanna áhuga meðal Reykjavíkurdeilda sinna aðildarfélaga á að stofna sérstakan samstarfsvettvang æskulýðsfélaga í höfuðborginni.
ÍTR hefur í drögum að stefnumótun ráðsins lagt áherslu á að eiga gott samstarf við frjáls æskulýðssamtök í borginni. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að til verði öflugur samstarfsaðili í æskulýðsmálum með lýðræðislegri aðkomu sem flestra æskulýðssamtaka. ÍTR beinir því til SÍÆ að sambandið taki saman upplýsingar um öll starfandi æskulýðsfélög í borginni og bjóði þeim að taka þátt í undirbúningi að stofnun sameiginlegs vettvangs. ÍTR felur starfsmönnum sínum að vera SÍÆ innan handar við verkefnið og skapa aðstöðu til að hinn nýji vettvangur frjálsra æskulýðssamtaka í höfuðborginni megi verða að veruleika.

Samþykkt samhljóða.

17. Lagt fram fundardagatal íþrótta- og tómstundaráðs til vors dags. í dag.

18. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa sjálfstæðisflokksins frá síðasta fundi varðandi endurskoðun styrkjakerfis Reykjavíkurborgar gagnvart íþróttafélögum:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að endurskoða styrkjakerfi Reykjavíkurborgar gagnvart íþróttafélögunum með þær breytingar að markmiði að í stað núverandi fyrirkomulags komi kerfi þjónustusamninga við hverfisíþróttafélögin og fleiri félög eftir atvikum, t.d. á sviði æskulýðsmála. Í slíkum samningum verði kveðið á um fastar greiðslur frá Reykjavíkurborg til viðkomandi félags. Á móti skuldbindi félagið sig til að veita ákveðna þjónustu, t.d. reka og viðhalda ákveðnum mannvirkjum og bjóða fram þjónustu fyrir börn og unglinga í viðkomandi hverfi eða á skilgreindu sviði.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2 að vísa tillögunni frá.


Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Í þeirri stefnumótunarvinnu íþrótta- og tómstundaráðs sem staðið hefur yfir undanfarna mánuði er ein af þeim tillögum sem lögð er þar fram um samstarfssamninga við hverfisíþróttafélögin í borginni. Unnið hefur verið að slíkum samningum jafnhliða stefnumótunarvinnunni, með fulltrúum íþróttafélaganna, og gert ráð fyrir að slíkir samningar verði undirritaðir á næstu vikum um leið og kynntar verða niðurstöður stefnumótunarvinnunnar. Jafnframt að sambærilega samninga verði hægt að gera við önnur félög og æskulýðssamtök. Þetta ætti fulltrúum sjálfstæðismanna að vera fullljóst þar sem fulltrúi þeirra hefur tekið þátt í þessari stefnumótunarvinnu.
Árið 1999 lagði þáverandi formaður ÍTR, Ingvar Sverrisson, fram tillögu þess efnis að skipaður yrði vinnuhópur milli ÍTR og ÍBR um að kanna m.a. gerð þjónustusamninga milli íþróttafélaganna ÍTR og ÍBR. Hugmynd þessi er því ekki ný af nálinni og hefur verið rædd margoft áður í ráðinu.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks óskuðu bókað:

Árið 1999 lögðu fulltrúar sjálfstæðismanna í ÍTR fram tillögu um endurskoðun á styrkjakerfi Reykjavíkurborgar gagnvart íþróttafélögunum. Í framhaldi af þessari tillögu var skipaður vinnuhópur á vegum ÍTR og ÍBR sem skilaði af sér skýrslu árið 2000 um stefnumótun ÍTR og ÍBR til ársins 2010. Í þeirri skýrslu var m.a. mælt með því að gerðir yrðu þjónustusamningar við íþróttafélög. Skilningur sjálfstæðismanna var sá að í samræmi við niðurstöðu skýrslunnar yrði gengið í að gera breytingar á samstarfi Reykjavíkurborgar og íþróttafélaganna og þjónustusamningar gerðir. Seinagangurinn í þessu máli hefur hins vegar verið með ólíkindum og bera fulltrúar R-listans fulla ábyrgð á honum. Síðustu misseri hafa fulltrúar sjálfstæðismanna oft spurt um hvenær yrði gengið frá umræddum þjónustusamningum en því hefur verið frestað hvað eftir annað. Tillaga sjálfstæðismanna er lögð fram í þeim tilgangi að knýja á um að gengið verði frá umræddum þjónustusamningum sem fyrst og er vonandi að málinu verði ekki slegið á frest enn einu sinni.
Fulltrúar R-listans afhjúpa slæleg vinnubrögð R-listans í málinu enda er það tímabil nú hálfnað sem umræddri stefnumótunarskýrslu var ætlað að ná yfir.

19. Lögð fram að nýju svohljóðandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks frá síðasta fundi vegna gervigrasvalla:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að leita leiða til að tengja hitunarkerfi við hina nýju gervigrasvelli á félagssvæðum Fram, Fylkis og Knattspyrnufélags Reykjavíkur. Hitunarkerfin eru til staðar undir viðkomandi völlum en eftir er að tengja þau. Stefnt skuli að því að ljúka tengingu og gangsetningu kerfanna á árinu svo unnt verði að hefja upphitun vallanna næsta vetur.

Samþykkt með 4 atkvæðum gegn 2 að vísa tillögunni frá.

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað:

Mál þetta hefur verið í vinnslu hjá formanni og framkvæmdastjóra ráðsins vegna óska félaganna um að tengingu hitakerfis verði komið á sem fyrst ekki síst vegna mikilla kulda í vetur. Á fundi í framkvæmdaráði þann 24. janúar sl. var lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 17. janúar sl. vegna þessa máls og var því vísað í vinnu vegna 3 ára framkvæmdaáætlunar ÍTR. Því er gert ráð fyrir að þessari vinnu ljúki á þessu ári og er því tillaga sjálfstæðismanna óþörf.

Fulltrúar sjálfstæðismanna óskuðu bókað:

Á umræddum fundi framkvæmdaráðs 24. janúar, kom skýrt fram að með því að vísa málinu í vinnu vegna þriggja ára framkvæmdaáætlunar ÍTR væri ekki tryggt að hitakerfi vallanna yrðu tengd á árinu 2005 enda nær þriggja ára áætlunin til ársins 2008.
Sjálfstæðismenn telja brýnt að skýr viljayfirlýsing frá ÍTR liggi fyrir um að hitakerfin verði tengd á þessu ári og var tillagan lögð fram í þeim tilgangi. Það vekur furðu að R-listinn skuli vísa frá tillögu sem fulltrúar R-listans segjast þó vera sammála . Skýringin á frávísuninni er greinilega sú að tillagan kemur frá fulltrúm sjálfstæðisflokksins

- Kl. 13:55 véku Kjartan Magnússon og Benedikt Geirsson af fundi

Fulltrúar Reykjavíkurlista óskuðu bókað vegna 18. liðar fundargerðarinnar:

Málflutningur D-listans er beinlínis rangur því í umræddri tillögu D-listans frá 1999 kom aldrei fram neitt um þjónustusamninga við íþróttafélög. Unnið hefur verið að málinu með forsvarsmönnum íþróttahreyfingarinnar til þess að ná samstöðu og góðu samráði við alla aðila. Enda er málið á lokastigi eins og öllum fulltrúum í ÍTR ætti að vera ljóst. Það sýnir málefnafátækt að reyna að eigna sér mál sem unnið hefur verið að með fagleg sjónarmið að leiðarljósi og er á lokastigi.

Þá óskuðu fulltrúar Reykjavíkurlista bókað vegna 19. liðar fundargerðarinnar:

Eins og fram kemur í þeirri bókun sem fulltrúar Reykjavíkurlista lögðu fram vegna frávísunartillögu vegna framkominnar tillögu sjálfstæðismanna er unnið að því að tenginu hitakerfa vegna vallanna verði komið á sem fyrst.

Fundi slitið kl. 14.05.

Anna Kristinsdóttir

Ingvar Sverrisson Svandís Svavarsdóttir
Andrés Jónsson