Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 181

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2013, föstudaginn 8. mars var haldinn 181. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Laugardalslaug og hófst kl. 11.10. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Bjarni Þór Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason.

Jafnframt: Hermann Valsson, Ingvar Sverrisson, Steinþór Einarsson, Gísli Árni Eggertsson, Bragi Þór Bjarnason, Ómar Einarsson og Helga Björnsdóttir sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Á fundinn komu Halldóra Káradóttir frá fjármálaskrifstofu og Herdís Sólborg Haraldsdóttir verkefnisstjóri kynjaðrar fjárhagsáætlunar og kynntu verkefnið kynjuð fjárhags- og starfsáætlun hjá Reykjavíkurborg og næstu skref verkefnisins.

2. Lögð fram að nýju umsókn Hestamiðstöðvar Reykjavíkur um styrk.

Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra dags. í dag með tillögu um styrk á vorönn.

Samþykkt.

3. Skrifstofutjóri Steinþór Einarsson kynnti fyrirhugaða potta við Vesturbæjarlaug.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir ánægju sinni með tillögu um barnapott við Vesturbæjarlaug. Hins vegar er lýst yfir vonbrigðum með að í uppdráttum skuli ekki gert ráð fyrir þeim möguleika að vatnsrennibraut verði komið fyrir á svæðinu. Hægðarleikur væri að koma slíkri braut fyrir á svæðinu án þess að svipmóti og sjarma gömlu laugarinnar væri raskað. Þá er harmað að í vinnu við framtíðarskipulag Vesturbæjarlaugar virðist lítið sem ekkert samráð verið haft við grasrótarsamtök í Vesturbænum eins og við sjálfstæðismenn höfðum þó óskað eftir, s.s. Knattspyrnufélag Reykjavíkur, Íbúasamtök Vesturbæjar, Prýðifélagið Skjöld og Mími-vináttufélag Vesturbæjar. En fulltrúar meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins felldu tillögu sjálfstæðismanna um að samráð yrði haft við þessa aðila um framtíðarþróun laugarinnar á fundi ÍTR 13. janúar 2012.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:

Fulltrúar Samfylkingarinnar og Besta flokksins telja að staðið hafi verið með stakri prýði að kynningarferli við nýjan heitan pott í Vesturbæjarlaug. Engin fordæmi eru fyrir viðlíka kynningarferli við breytingar á sundlaugum borgarinnar. Umræða um málið hefur farið fram við nokkur tilfelli í hverfisráði Vesturbæjar. Í almennri kynningu í anddyri laugarinnar komu fram 126 ábendingar frá íbúum hverfisins og notendum laugarinnar.

kl. 11.45 vék Eva Baldursdóttir af fundi.

kl. 11.50 kom Sverrir Bollason á fundinn.

4. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna Mentor:

Fulltrúar íþrótta- og tómstundaráðs leggja til að íþrótta- og æskulýðsfélögum í borginni verði heimilt að nýta sér Mentor, uppýsingakerfi skólanna, til að koma á framfæri almennum upplýsingum um íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Þá er auk þess lagt til að samstarf íþrótta- og æskulýðsfélaga verði eflt á ný með árlegum kynningum á þessu starfi í skólunum.

Samþykkt.

Samþykkt að vísa tillögunni til starfshóps SFS um stefnu sviðsins varðandi kynningar á félags- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga, svo sem starfi íþróttafélaga, sbr. bréf sviðsstjóra SFS dags. 27. sept. 2012.

kl. 12.05 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi.

5. Framkvæmdastjóri Ómar Einarsson kynnti hugmyndir um skipulag í Úlfarsárdal.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa yfir furðu sinni á því að enn hafi ekki verið haldinn opinn fundur með íbúum í Grafarholti og Úlfarsárdal um skóla-, frístunda-, íþrótta- og æskulýðsmál í hverfunum þar sem m.a. verði kynnt breytt áform borgarstjórnarmeirihluta Samfylkingar og Besta flokksins til byggðar í Úlfarsárdal og uppbyggingar í fyrrnefndum málaflokkum. Fulltrúar meirihlutans samþykktu tillögu Sjálfstæðisflokksins um að slíkur fundur yrði haldinn við fyrsta tækifæri, í borgarráði 13. desember sl. Nú eru um þrír mánuðir liðnir frá samþykkt tillögunnar en slíkur fundur hefur ekki enn verið haldinn.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar:

Unnið hefur verið í samráðsferli borgarinnar með fulltrúum fagsviða og með fulltrúum íbúasamtaka Úlfarsársdals, Íbúasamtaka Grafarholts og Knattspyrnufélaginu Fram varðandi hugmyndir um byggingu skóla, íþrótta-og menningarmannavirkja og annarrar aðstöðu í Úlfarsárdal. Á vegum þessa samráðshóp verður gerð tillaga um íbúafund, sem haldinn verður á næstu dögum.

6 Samþykkt að skipa starfshóp vegna Frístundakortsins sem mun endurskoða reglur kortsins. Jafnframt lagt fram erindisbréf vegna málsins.

7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Vinstri grænna vegna frístundakorts:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að rifta samstarfi við Pole sport um frístundakortið, enda gengur það gegn markmiðum mannréttindastefnu borgarinnar. Eitt yfirmarkmið hennar er að vinna gegn klámvæðingu og sérstaklega er þar kveðið á um að allt uppeldis- og tómstundastarf skuli styrkja jákvæða kynímynd stúlkna og pilta og vinna gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.

Til stuðnings tillögunni er vísað í eftirfarandi greina í mannréttindastefnu Reykjavíkur.

2.1.3 Reykjavíkurborg einsetur sér að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Af þeim sökum er mikilvægt að sporna áfram gegn rekstri nektardansstaða í borginni.

2.3.2 Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla sem fram fer á ábyrgð Reykjavíkurborgar og stofnana hennar hafi jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi. Börnum og unglingum sé veitt hvatning til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynjaímynda. Styrkja skal jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu starfi með æskufólki. Fræðsluyfirvöld í Reykjavík, svo og stjórnendur félags- og tómstundastarfs, styrki jákvæða kynímynd stúlkna og pilta og vinni gegn

skaðlegum áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.

Samþykkt að vísa tillögunni til starfshóps um Frístundakortið.

8. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna íþróttahúss við Borgarholtsskóla:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að óska eftir viðræðum milli Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu íþróttahúss við Borgarholtsskóla. Miðað verði við að húsið verði samnýtt í þágu Borgarholtsskóla og íþróttastarfs Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi.

Samþykkt að vísa tillögunni til skoðunar í samstarfshópi Reykjavíkurborgar og Fjölnis.

9. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna strandblakvallar við Árbæjarlaug:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að ráðist verði í lagningu strandblakvallar við Árbæjarlaug. Völlurinn verði til afnota fyrir sundlaugargesti og blakdeild Fylkis, sem starfrækir barna- og unglingastarf í greininni. Vallargerðin verði fjármögnuð með fé af framkvæmdalið sundlauga.

Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar við gerð fjárhagsáætlunar.

10. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 180. fundi vegna íþróttahúsa við Breiðholtsskóla og Hagaskóla:

Í byrjun janúar 2012 var skipaður starfshópur á vegum íþrótta- og tómstundaráðs og skóla- og frístundaráðs til að meta hagkvæmni og fjárhagslegan ávinning þess að breyta rekstrarfyrirkomulagi stærri íþróttahúsa við grunnskóla. Kveðið var á um að niðurstöður hópsins yrðu lagðar fyrir ráðin eigi síðar en 1. marz 2012. Á fundi íþrótta- og tómstundaráðs 24. ágúst sl. gerðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins athugasemdir við að starfshópurinn hefði aldrei komið saman og óskuðu eftir að úr því yrði bætt sem fyrst. Á þeim fundi lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins jafnframt til að hafnar yrðu viðræður um að Íþróttafélag Reykjavíkur tæki að sér rekstur íþróttahúss Breiðholtsskóla og Knattspyrnufélag Reykjavíkur tæki að sér rekstur íþróttahúss Hagaskóla. Þeim tillögum var vísað í umræddan starfshóp en hann hefur hins vegar ekki enn komið saman. Slæleg verkstjórn borgarstjórnarmeirihluta Besta flokksins og Samfylkingar í málinu hefur því orðið til þess að ekki tókst að breyta rekstrarfyrirkomulagi umræddra íþróttahúsa haustið 2012, sem þó hefði verið æskilegt, og hefur þessi töf bitnað á íþróttastarfi áðurnefndra félaga í Breiðholti og Vesturbænum. Þar sem starfshópurinn hefur ekki enn verið kallaður saman óska fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftir því að áðurnefndar tillögur verði lagðar fram til afgreiðslu á næsta fundi íþrótta- og tómstundaráðs með það að markmiði að haustið 2013 taki KR að sér rekstur íþróttahúss Hagaskóla og ÍR taki að sér rekstur íþróttahúss Breiðholtsskóla.

Samþykkt að vísa tillögunni til skoðunar í samráðshópi SFS og ÍTR

11. Lagt fram svar framkvæmdastjóra ÍTR dags. 5. mars sl. við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna frístundastarfs fatlaðra framhaldsskólanema.

12. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 26. feb. sl. vegna samþykktar borgarráðs um frían aðgang í sund fyrir atvinnulausa og fólk sem nýtur fjárhagsaðstoðar.

13. Lagðar fram tillögur um afgreiðslutíma sundstaða og í Fjölskyldugarðinum á frídögum 2013.

14. Fulltrúar Besta flokksins og Samfylkingar leggja fram eftirfarandi tillögu:

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að skipa starfshóp sem undirbúi tillögu að formlegu námi fyrir starfsfólk sund- og baðstaða. Hópurinn leiti samstarfs við Samband íslenskra sveitarfélag og Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa auk mennta- og menningarmálaráðuneytið og háskólasamfélagið. Tekið skal mið af fyrirmyndum sem sækja má til nágrannalandanna þar sem viðurkennt nám á framhaldsskóla- og háskólastigi í þessum fræðum stendur fólki til boða.

Samþykkt.

15. Rætt um fyrirhugaðan starfsdag ráðsins vegna fjárhagsáætlunar.

kl. 13:05 vék Gísli Árni Eggertsson af fundi.

16. Rætt um bikarúrslitahelgi í handknattleik í Laugardalshöll 7.-10. mars 2013. Fjögur Reykjavíkurlið taka þátt í keppninni.

Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að veita m.fl. handknattleiksdeilda Fram, ÍR og Vals 100.000 kr. styrk, hverri deild, vegna bikarúrslitakeppni í handknattleik 2013.

Sverrir Bollason sat hjá við afgreiðslu málsins.

17. Farið í skoðunarferð um Laugardalslaug og þær framkvæmdir sem í gangi eru skoðaðar.

Fundi slitið kl. 13.15.

Eva Einarsdóttir

Diljá Ámundadóttir Bjarni Þór Sigurðsson

Sverrir Bollason Kjartan Magnússon

Björn Gíslason

 

PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta_og_tómstundaráð_0803.pdf