No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2013, fimmtudaginn 21. febrúar var haldinn 180. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi, Jörfa 4. hæð og hófst kl. 11:35. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Marta Guðjónsdóttir og Björn Gíslason. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram að nýju bréf Siðmenntar dags. 3. des. sl. varðandi Frístundakortið.
Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra Gísla Árna Eggertssonar.
Kl. 11:45 kom Bjarni Þór Sigurðsson varamaður fyrir Stefán Benediktsson á fundinn.
Umsögn skrifstofustjóra samþykkt með 4 atkvæðum. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.
Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Vinstri grænna:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að rifta samstarfi við Pole sport um frístundakortið, enda gengur það gegn markmiðum mannréttindastefnu borgarinnar. Eitt yfirmarkmið hennar er að vinna gegn klámvæðingu og sérstaklega er þar kveðið á um að allt uppeldis- og tómstundastarf skuli styrkja jákvæða kynímynd stúlkna og pilta og vinna gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar meðal unglinga. Til stuðnings tillögunni er vísað í eftirfarandi greina í mannréttindastefnu Reykjavíkur. 2.1.3 Reykjavíkurborg einsetur sér að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Af þeim sökum er mikilvægt að sporna áfram gegn rekstri nektardansstaða í borginni. 2.3.2 Allt uppeldis- og tómstundastarf, menntun og fræðsla sem fram fer á ábyrgð Reykjavíkurborgar og stofnana hennar hafi jafna stöðu kynjanna að leiðarljósi. Börnum og unglingum sé veitt hvatning til að rækta hæfileika sína og persónuþroska án hamlandi áhrifa hefðbundinna kynjaímynda. Styrkja skal jákvæð samskipti og gagnkvæma virðingu kynjanna í öllu starfi með æskufólki. Fræðsluyfirvöld í Reykjavík, svo og stjórnendur félags- og tómstundastarfs, styrki jákvæða kynímynd stúlkna og pilta og vinni gegn skaðlegum áhrifum klámvæðingar meðal unglinga.
Frestað.
Lögð fram eftirfarandi tillaga íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur til að stofna starfshóp til að endurskoða Frístundakortið og önnur verkefni sem eru samtengd því þ.e. sem hafa það hlutverk að virkja börn og ungmenni í æskulýðs- og íþróttastarfi. Hópnum ber að taka til sérstakrar athugunar reglur um notkun frístundakortsins og skilyrði félaga til að geta notað frístundakortið í námskeiðum sínu. Hópnum ber að skoða nýjar leiðir m.a til að tryggja jafnrétti til frístundar óháð efnahag- og félagslegum aðstæðum.
Samþykkt.
2. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjóra dags. 12. feb. sl. vegna brettagarðs í Breiðholti.
3. Lagt fram bréf UMFÍ dags. 7. febrúar sl. vegna Landsmóts 2017 og 2021.
4. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra dags. 12. feb. sl. vegna aðalfundar Alþjóðaleika ungmenna.
5. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 25. janúar sl. um aðstöðu fyrir hjólabrettaiðkun í Grafarholti. Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra dags. 10. feb. sl. vegna málsins.
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur óskar eftir því að aðstöðu til hjólabrettaiðkunar verði komið fyrir í Grafarholti að nýju.
Sanþykkt og vísað til afgreiðslu framkvæmdastjóra.
6. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 25. janúar sl. um áheyrnarfulltrúa ungmenna. Jafnframt lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra ÍTR dags. 21. maí 2012.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að heimila Reykjavíkurráði ungmenna að skipa áheyrnarfulltrúa í ráðið með málfrelsi og tillögurétt.
Samþykkt og vísað til umfjöllunar Reykjavíkurráðs ungmenna.
7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 25. jan. sl. og 1. febrúar sl. um íþróttahús Hagaskóla og Breiðholtsskóla.
Frestað.
8. Lagt fram að nýju bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 1. febrúar sl. með ósk um umsögn um skýrslu starfshóps um sundlaugar í Reykjavík.
Skrifstofustjóri Steinþór Einarsson kynnti skýrsluna.
Kl. 13:00 vék Gísli Árni Eggertsson af fundi.
Kl. 13:10 vék Björn Gíslason af fundi.
Lögð fram eftirfarandi umsögn fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingarinnar:
Íþrótta- og tómstundaráð fagnar þeirri skýrslu sem sundlaugarhópur skipaður á vegum borgarráðs hefur nú skilað og þakkar öllum þeim sem komu að gerð skýrslunnar. Íþrótta- og tómstundaráð, sem fagráð, á sviði íþrótta- og tómstundamála mun á næstunni taka þær fjölmörgu athugasendir, ábendingar og tillögur er varða laugarnar í Reykjavík til skoðunar. Varðandi rekstur lauganna mun íþrótta- og tómstundaráð og ÍTR sérstaklega taka til skoðunar afgreiðslutíma lauganna, kynningarmál, ýmis starfsmannamál og fjölbreyttara þjónustustig í laugunum á grundvelli þeirrar stefnumótunar sem mörkuð er í skýrslu um laugarnar í Reykjavík. Á vegum borgaryfirvalda eru nú starfandi þrír hópar, skipaðir fagfólki, sem er m.a. að skoða fjárfestingar og framtíðaráætlun varðandi sundlaug í Úlfarsárdal fyrir skólasund og almenning, viðbyggingu við Sundhöllina m.a. til að bæta aðgengi sundlaugargesta og sundlaug í Fossvogsdal í samvinnu við Kópavogsbæ. Íþrótta- og tómstundaráð mun fá tillögur þessara hópa til skoðunar. Í framhaldi af stefnu sem sundlaugahópurinn setti í skýrslunni og þeirri vinnu sem á sér nú stað í ráðinu vegna fimm ára áætlunar, sem rædd hefur verið á tveimur fundum og verður til umræðu á næstu fundum, mun íþrótta- og tómstundaráð gera endanlega tillögur sínar, sem fagráð, til borgarráðs varðandi fjárfestingaráætlun við nýbyggingar og endurbyggingu lauganna í Reykjavík.
Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu skýrslunnar þar sem ýmislegt kemur þar fram sem ekki er hægt að fallast á og þarfnast frekari skoðunar en í því sambandi má sérstaklega nefna fjárfestingaráætlun sem gerir ráð fyrir nýframkvæmdum sem hefði verið eðlilegra að forgangsraða með öðrum hætti. Það vekur t.d. mikla furðu að hefja eigi framkvæmdir við Sundhöll Reykjavíkur á þessu ári á sama tíma og ekki er gert ráð fyrir nema kennslulaug í Grafarholti og Úlfarsárdal og að ekki eigi að fara í endurbætur á laugarkeri í Laugardalslaug fyrr en árið 2016 en eins og margsinnis hefur verið bent á er nauðsynlegt að fara í úrbætur þar sem fyrst öryggisins vegna. Þrátt fyrir að ýmislegt gott sé í skýrslunni er annað sem ekki hefur verið kannað nógu vel svo sem afstaða íbúa til framkvæmdanna.
9. Lagðar fram að nýju hugmyndir um viðhalds- og framkvæmdaverkefni í tengslum við fimm ára áætlun.
10. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfsstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að óska eftir viðræðum milli Reykjavíkurborgar, Mosfellsbæjar og ríkisvaldsins um samstarf um byggingu íþróttahúss við Borgarholtsskóla. Miðað verði við að húsið verði samnýtt í þágu Borgarholtsskóla og íþróttastarfs Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi.
Frestað.
11. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að ráðist verði í lagningu strandblakvallar við Árbæjarlaug. Völlurinn verði til afnota fyrir sundlaugargesti og blakdeild Fylkis, sem starfrækir barna- og unglingastarf í greininni. Vallargerðin verði fjármögnuð með fé af framkvæmdalið sundlauga.
Frestað.
12. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eindregið eftir því að gripið verði til nauðsynlegra aðgerða sem fyrst í því skyni að tryggja áframhaldandi frístundastarf fyrir fötluð ungmenni í Reykjavík, sem nú fer fram í Hinu húsinu. Ábendingar hafa borist um að starfsemin sé í uppnámi og til skoðunar sé að segja starfsfólkinu upp þar sem fjárveitingar til starfseminnar duga einungis til 10. maí nk. Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um stöðu málsins þar sem eftirfarandi spurningum verði m.a. svarað: Hve mörg ungmenni taka þátt í frístundastarfi fatlaðra í Hinu húsinu? Hve mikilli kostnaðaraukningu má gera ráð fyrir á komandi hausti vegna starfseminnar miðað við óbreytta þjónustu og fyrirsjáanlega fjölgun þátttakenda? Hvernig stendur á því að fjárframlög til þessarar starfsemi, sem árum saman hefur verið rekin á heilsársgrundvelli, duga einungis til 10. maí nk.? Sérstakur starfshópur fulltrúa velferðarsviðs, íþrótta- og tómstundasviðs og skóla- og frístundasviðs skilaði af sér ýtarlegum kostnaðarútreikningum í nóvember 2012 um heildstæða frítímaþjónustu til borgarráðs, sem nýta átti við gerð fjárhagsáætlunar 2013. Hvernig stendur á því að umræddir útreikningar hafa ekki enn verið lagðir fyrir borgarráð og hvenær má búast við því að það verði gert?
13. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Fulltrúar íþrótta- og tómstundaráðs leggja til að íþrótta- og æskulýðsfélögum í borginni verði heimilt að nýta sér Mentor, uppýsingakerfi skólanna, til að koma á framfæri almennum upplýsingum um íþrótta- og tómstundastarf barna og unglinga. Þá er auk þess lagt til að samstarf íþrótta- og æskulýðsfélaga verði eflt á ný með árlegum kynningum á þessu starfi í skólunum.
Frestað.
Fundi slitið kl. 13:45.
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Diljá Ámundadóttir
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Marta Guðjónsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 2102.pdf