No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2013, föstudaginn 11. janúar var haldinn 176 fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst kl. 11.10. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Karl Sigurðsson, Stefán Benediktsson, Björn Gíslason, Jarþrúður Ásmundsdóttir og Kjartan Magnússon. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lögð fram að nýju skýrsla starfshóps um samstarf ÍTR, SFS og Fjölskyldugarðsins. Á fundinn mætti Þorkell Heiðarsson og kynnti samstarfið.
Samþykkt að vinna frekar með tillögur og ábendingur úr skýrslunni.
2. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 3. jan. sl. vegna rekstrarúttektar íþróttafélaga.
Samþykkt að vísa málinu til kynningar í borgarráði og stjórn ÍBR.
3. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra ÍTR dags. 3. jan. sl. vegna frítímaþjónustu fyrir fötluð ungmenni.
4. Lagt fram að nýju bréf Siðmenntar dags. 3. des. sl. vegna frístundakortsins.
Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra Gísla Árna Eggertssonar vegna málsins.
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkti umsögnina.
5. Lögð fram dagskrá og boðsbréf vegna höfuðborgarráðstefnu Norðurlanda um íþróttamál í Reykjavík 29. - 31. maí n.k.
6. Lögð fram skýrsla um ódýrari frístundir og styrki.
Frestað.
7. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 8. jan. sl. vegna ástands gervigrasvallar á Hlíðarenda.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
25. nóvember 2011 lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram fyrirspurn í íþrótta- og tómstundaráði um ásigkomulag gervigrasvallar Knattspyrnufélagsins Vals að Hlíðarenda vegna kvartana, sem borist höfðu um að hann nýttist ekki sem skyldi, m.a. vegna sigdælda sem rekja má til galla í undirlagi. Þá hefur verið bent á að þetta sé eini gervigrasvöllur hverfisíþróttafélags í Reykjavík, sem er án upphitunar. Í framlögðu bréfi frá foreldraráðum og þjálfurum barna- og unglingaflokka Vals í knattspyrnu frá 5. desember sl. kemur fram að aðstæður til knattspyrnuiðkunar hjá félaginu séu óviðunandi yfir vetrarmánuðina og við ákveðnar aðstæður sé umræddur gervigrasvöllur jafnvel hættulegur vegna hálku.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítreka óskir sína um að tekin verði saman greinargerð um ásigkomulag gervigrasvallar Vals, hvernig best sé að standa að úrbótum á umræddum göllum og kostnaði vegna þeirra. Einnig er óskað eftir upplýsingum um kostnað við að koma þar fyrir upphitunarbúnaði en hagkvæmt gæti verið að koma slíkum búnaði fyrir í tengslum við lagfæringar vegna áðurnefndra galla.
8. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra Gísla Árna Eggertssonar dags. 9. jan. sl. vegna viðhorfskönnunar á þjónustu Reykjavíkurborgar.
9. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík - Tónlistaræfingahúsnæði fyrir ungt fólk - dags. 31. des. sl.
Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár styrkt starfsemi Tónlistarþróunarmiðstöðvarinnar við Hólmaslóð og talið að með því næðist fram góður stuðningur við tónlistarlíf ungs fólks í borginni og aðstaða fyrir hljómsveitir. ÍTR / Hitt Húsið hefur umsjón með Músíktilraunum og fleiru varðandi stuðning við tónlistarflutning ungmenna en býður ekki upp á eigin æfingaaðstöðu. Aðstaða borgarinnar í hverfum hefur fyrst og fremst verið í tengslum við starfsemi félagsmiðstöðva og frístundamiðstöðva sem eru á vegum skóla- og frístundasviðs (SFS). Undir SFS heyrir einnig stuðningur við tónlistarskóla og skólalúðrasveitir. Erindinu er vísað til SFS.
10. Lögð fram hugmynd af samráðsvefnum Betri Reykjavík - Stórbæta aðstöðu fyrir íþróttaiðkun yngri en 18 ára - dags. 31. des. sl.
Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir að íþróttaiðkun barna er góð forvörn.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað síðustu áratugi í byggingu íþróttamannvirkja í Reykjavík.
Hins vegar er ljóst að ákveðnar íþróttagreinar vantar meiri aðstöðu og hefur mikil vinna verið lögð í að finna lausn á því í samvinnu borgaryfirvalda og íþróttafélaganna í hverfunum.
11. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur óskar eftir því að aðstöðu til hjólabrettaiðkunar verði komið fyrir í Grafarholti að nýju.
Frestað.
12. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkir að óska eftir viðræðum við Knattspyrnufélag Reykjavíkur um uppbyggingu frjálsíþróttaaðstöðu í Vesturbænum. Slík aðstaða þjóni m.a. frjálsíþróttadeild félagsins, sem tók til starfa á ný um síðustu áramót eftir langt hlé. Metið verði í samráði við félagið og umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar hvar best sé að koma slíkri aðstöðu fyrir, á félagssvæði KR eða í nágrenni þess, t.d. á túninu við Sundlaug Vesturbæjar. Í framhaldi af slíku staðarvali verði ráðist í hönnun á svæðinu og kostnaður metinn við gerð þess og hugsanlega áfangaskiptingu.
Frestað.
Fundi slitið kl. 12.50
Eva Einarsdóttir
Eva Baldursdóttir Karl Sigurðsson
Stefán Benediktsson Kjartan Magnússon
Björn Gíslason Jarðþrúður Ásmundsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Íþrótta- og tómstundaráð 1101.pdf