Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 165

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2012, föstudaginn 22. júní var haldinn 165. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Höfðatorgi og hófst hann kl. 11.05. Viðstaddir: Eva Einarsdóttir formaður, Stefán Benediktsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Einnig: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 21. maí sl. þar sem fram kemur að samþykkt hafi verið tillaga borgarstjóra vegna frístundastarfs fyrir fötluð ungmenni í Hinu Húsinu í sumar.

2. Lögð fram skýrsla um RIG - Reykjavíkurleikana 2012.

Íþrótta- og tómstundaráð lagði fram eftirfarandi bókun:

Íþrótta- og tómstundaráð þakkar ÍBR fyrir vel unna og ítarlega skýrslu um Reykjavíkurleikana 2012. Gefur hún skýra mynd af framkvæmd leikana og er m.a. gleðilegt að sjá hversu mikil fjölgun hefur orðið á fjölda erlendra keppenda og gesta sem er mikilvægt fyrir Reykjavíkurborg.

kl. 11:10 kom Karl Sigurðsson á fundinn.

3. Lagt fram bréf Skautasambands Íslands dags. 25. maí sl. vegna Norðurlandamóts í listhlaupi á skautum 2013.

Samþykkt að óska eftir umsögn ÍBR.

4. Á fundinn mætti Viktor Ingi Lorange frá Reykjavíkurráði ungmenna ásamt Eygló Rúnarsdóttur frá SFS og kynnti tillögu sína um sjálfboðaliðastarf.

Íþrótta og tómstundaráð þakkar Reykjavíkurráði ungmenna og Viktori Inga Lorange fyrir góða tillögu sem vísað var til ÍTR á borgarstjórnarfundi 24. apríl 2012.

ÍTR vísar tillögunni til skrifstofustjóra ÍTR til frekari úrvinnslu og haft skal að leiðarljósi að vinna heilstæða tillögu um mat á framlagi ungs fólks til borgarsamfélagsins, hvort heldur það er á vettvangi borgarinnar eða í starfi frjálsra félaga, og með hvað hætti framlag ungs fólks efli stöðu þess í starfi og námi.

5. Lagðar fram embættisfærslur sem fram hafa farið á skrifstofu framkvæmdastjóra dags. 21. júní sl.

kl. 12:00 vék Karl Sigurðsson af fundi.

6. Lögð fram hugmynd af Betri Reykjavík dags. 31. maí sl. - Hlaupabraut sem er opin almenningi.

Íþrótta-og tómstundaráð þakkar fram komnar ábendingar varðandi hlaupabrautir fyrir almenning í borginni

Laugardalsvöllur er þjóðarleikvangur í knattspyrnu og frjálsum íþróttum og þar fara fram mót og leikir í þessum greinum og ekki er grundvöllur fyrir því að hafa völlinn opin fyrir almenning eins og staðan er nú.

Út frá öllum sundlaugunum eru merktar hlaupaleiðir og eru upplýsingar í hverri laug um nærliggjandi stíga og vegalengdir

Nýlega var samþykkt, í borgarstjórn, stefnumótun í íþróttamálum í Reykjavík til framtíðar og verða þessi mál tekin þar upp til umfjöllunar í sérstökum mannvirkjahópi sem mun starfa með borgaryfirvöldum og íþróttahreyfingunni.

7. Lögð fram hugmynd af Betri Reykjavík dags. 31. maí sl. - Hverfislaugarnar verði opnar á kvöldin.

Íþrótta-og tómstundaráð þakkar framkomnar ábendingar varðandi þjónustutíma hverfislauganna.

Athugasemdir hafa áður verið ræddar í ráðinu varðandi þjónustig í sundlaugunum, sem var breytt við gerð fjárhagsáætlunar 2011 í hagræðingarskyni, og nú í sumar var brugðist við með lengingu í nokkrum laugum

Frekari umfjöllun um afgreiðslutíma lauganna til framtíðar verður í starfshópi sem nú er að störfum varðandi sundlaugarnar í Reykjavík og við gerð fjárhagsáætlunar vegna ársins 2013 og fimm ára áætlun

Marta Guðjónsdóttir fulltrúi sjálfstæðismanna óskaði bókað:

Í ljósi þess að fram kemur í nýsamþykktri stefnu borgarinnar í íþróttamálum að efla eigi almenninngsíþróttir og auka aðgengi almennings að íþróttamannvirkjum. Þá skýtur það skökku við að á sama tíma er verið að skerða opnunartíma sundlauganna en sund er einmitt sú almenningsíþrótt sem er einna mest stunduð.

Lögð fram eftirfarandi bókun Besta flokksins og Samfylkingar:

Ný og samþykkt stefna í Íþróttamálum í Reykjavík leggur mikla áherslu á almennningsíþróttir og er horft fram til 2020. Opnunartími sundlauga hefur þegar verið aukin og til stendur að auka hann enn í framtíðinni, í samræmi við áherslu á almenningsíþróttir.

8. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur beinir því til Framkvæmda- og eignasviðs að hafinn verði undirbúningur að því að skipta um gólfefni í íþróttahúsinu við Austurberg og að þar verði lagt viðargólf sumarið 2013. Jafnframt þarf að sinna nauðsynlegu viðhaldi í húsinu; málningu, endurbótum á salerni, lagfæra hurðir við aðalinngang o.fl. Þá verði gerður gluggi á vegg milli íþróttasalar og aðalgangs hússins.

Frestað.

9. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur felur framkvæmdastjóra að skoða hvort unnt sé að láta Íþróttafélagi Reykjavíkur í té færanlega kennslustofu, sem staðsett yrði á svæði félagsins við Skógarsel. Stofan yrði notuð til kraft- og líkamsræktaræfinga á vegum félagsins og e.t.v. einnig annarra íþróttafélaga í Breiðholti.

Frestað.

10. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur felur sviðstjóra, í samvinnu við sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, að hefja viðræður við Íþróttafélag Reykjavíkur um möguleika á því að félagið taki að sér rekstur íþróttahúss Breiðholtsskóla.

Frestað.

11. Lögð fram eftirfarandi tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:

Íþrótta- og tómstundaráð felur sviðstjóra, í samvinnu við sviðstjóra skóla- og frístundasviðs, að hefja viðræður við Knattspyrnufélag Reykjavíkur um að félagið taki að sér rekstur íþróttahúss Hagaskóla.

Frestað.

Fundi slitið kl. 12.45.

Eva Einarsdóttir

Stefán Benediktsson Kjartan Magnússon

Geir Sveinsson Marta Guðjónsdóttir