Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 139

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, föstudaginn 27. maí var haldinn 139. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 11.10. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon og Ingibjörg Óðinsdóttir. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagðar fram að nýju tillögur sem vísað er til íþrótta- og tómstundaráðs frá fundi borgarfulltrúa og Reykjavíkurráðs ungmenna 12. apríl sl. varðandi framboð á félagsstarfi á vegum frístundamiðstöðva fyrir 16 ára og eldri í sumar og tillögu um bætta aðstöðu fyrir jaðarsport í Grafarvogi.
Á fundinn komu Viktor Ingi Lorange Bjarkason og Halldór Atlason frá ungmennaráði Grafarvogs og kynntu tillögurnar.
Íþrótta- og tómstundaráð fagnar framkomnum tillögum og hugmyndum frá Reykjavíkurráði ungmenna og þakkar fulltrúum þeirra fyrir komu á fundinn og málflutning þeirra.

- Kl. 11.20 kom Geir Sveinsson á fundinn.

2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 138. fundi liður 22.
Íþrótta- og tómstundaráð beinir því til Framkvæmda- og eignasviðs að ráðist verði í endurbætur og stækkun á grasæfingavelli á Kjalarnesi í sumar.
Samþykkt og vísað til Framkvæmda- og eignasviðs.

3. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna frá 138. fundi liður 23.
Um áratugaskeið hefur gott samstarf verið milli Reykjavíkurborgar og reykvískra íþróttafélaga um sumarvinnu unglinga. Hefur borgin greitt laun unglinga, sem unnið hafa við umhirðu og viðhald æfingavalla og leiðbeint á íþróttanámskeiðum barna. Vegna fyrirhugaðs niðurskurðar til þessarar starfsemi er fyrirsjáanlegt að mörg íþróttafélög verða í vandræðum í sumar við að sinna umhirðu og viðhaldi æfingavalla ásamt íþróttanámskeiðum. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að í framhaldi af ákvörðun borgarráðs um aukin framlög til sumarstarfa ungs fólks, verði unnið að því að tryggja að íþróttafélögin fái a.m.k. jafn marga unglinga til starfa og verið hefur undanfarin ár.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum meirihluta.

Fulltrúar meirihluta óskuðu bókað:
Í ljósi þess að verið er að fjölga störfum ungmenna í sumarvinnu íþróttafélaga yfir 17#PR frá árinu 2010 er ekki niðurskurður á þessu sviði heldur aukning í starfsmannafjölda um 44 frá fyrra ári. Fulltrúar meirihluta íþrótta- og tómstundaráðs telja því ekki ástæðu fyrir tillögunni.

4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 25. maí sl. f.h. stjórnkerfisnefndar þar sem óskað er eftir umsögn íþrótta- og tómstundaráðs um tillögur borgarstjóra um stofnun skóla- og frístundasviðs.
Formaður stjórnkerfisnefndar og skrifstofustjóri borgarstjóra mættu á fundinn og kynntu tillögurnar.

Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna:
Íþrótta- og tómstundaráð óskar eftir umsögn eftirtaldra aðila um fram komnar tillögur borgarstjóra um yfirfærslu verkefna frá Íþrótta- og tómstundasviði til nýs Skóla og frístundasviðs, sem fyrirhugað er að taki til starfa um næstu áramót:
? Starfsmannafélag ÍTR.
? Samtök félagsmiðstöðva á Íslandi.
? Reykjavíkurráð ungmenna.
? Íþróttabandalag Reykjavíkur.
? Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar.
Tillagan felld með 4 atkvæðum.

Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna:
Við hörmum að meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar kjósi að fella sjálfsagða tillögu um að leitað skuli eftir eðlilegu samráði við starfsfólk, grasrótarsamtök og hagsmunaaðila áður en afstaða er tekin til veigamikilla tillagna um yfirfærslu verkefna frá Íþrótta- og tómstundasviði til nýs Skóla- og frístundasviðs, sem fyrirhugað er að taki til starfa um næstu áramót. Svo virðist sem fulltrúar meirihlutans telji sig ekki þurfa að kynna sér skoðanir umræddra aðila áður en ákvarðanir eru teknar, sem geta haft mikil áhrif á starfsumhverfi um átta hundrað borgarstarfsmanna og þúsunda ungra Reykvíkinga. Slík vinnubrögð eru ámælisverð og sýnir að loforð Besta flokksins og Samfylkingar um víðtækt samráð við starfsfólk og hagsmunaaðila eru innantóm og merkingarlaus.

Lögð fram eftirfarandi gagnbókun Besta flokksins og Samfylkingar:
Meirihluti Besta flokksins og Samfylkingar í ÍTR vill taka það fram að nú þegar liggi fyrir ákvörðun um að sameina frístundarhluta ÍTR við Menntasvið og saman mynda þau nýtt svið. Ef kallað verður eftir formlegum umsögnum starfsfólks, grasrótarsamtaka og hagsmunaaðila að svo stöddu er hætt við að það verði túlkað sem sýndarsamráð og óskýr vinnubrögð í stefnumálum málaflokksins. Meirihlutinn kýs að vinna í gagnsæum vinnuferlum og hefur því að sjálfsögðu einskæran áhuga á því að heyra það sem fyrrnefndir hópar hafa að segja, en kjósa að opna fyrir þá gátt á öðrum tímapunkti í innleiðingarferlinu. Aðilar meirihlutans vilja því einbeita sér að því að halda sig innan tímarammans sem fram kemur í tillögunni sem kemur frá skrifstofu borgarstjóra, vísað á ÍTR af Stjórnkerfisnefnd og stefna á að skila af sér umsögn ÍTR ráðsins fyrir 3. júní.

5. Lagðar fram að nýju fyrirspurnir frá fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna frá 137. fundi sbr. liður 1 og 138. fundi liður 2.

6. Lagðar fram embættisfærslur á skrifstofu framkvæmdastjóra dags. 24. maí sl.

7. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins frá 138. fundi liður 20.
Frestað.

Fundi slitið kl. 14.20.

Eva Einarsdóttir

Eva Baldursdóttir Diljá Ámundadóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Geir Sveinsson Ingibjörg Óðinsdóttir