Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2011, miðvikudaginn 13. apríl var haldinn 136. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 10.10. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Geir Sveinsson og Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram að nýju bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 3. mars sl. vegna skýrslu starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
Á fundinn komu Birgir Björn Sigurjónsson fjármálastjóri Reykjavíkurborgar, Halldóra Káradóttir frá fjármálaskrifstofu og Kolbrún Þ. Pálsdóttir frá Menntavísindasviði HÍ.
kl.10:45 kom Bjarni Þór Sigurðsson á fundinn.
Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks sbr. 3. liður 133. fundar:
Íþrótta- og tómstundaráð skorar á borgarráð að draga fyrirliggjandi tillögur starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla grunnskóla og frístundaheimila til baka. Þess í stað verði tekið upp stóraukið samráð við foreldra, starfsfólk og stjórnendur í hagræðingarvinnu þeirri, sem nú stendur yfir hjá Reykjavíkurborg. Í þessu skyni verði skipaður nýr starfshópur, til greiningar hagræðingartækifæra með kjörnum fulltrúum allra flokka, sem sæti eiga í borgarstjórn Reykjavíkur auk eftirtaldra hagsmunaaðila: Samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, Samtök foreldra leikskólabarna í Reykjavík, Kennarafélag Reykjavíkur, Starfsfólk í leikskólum, Félag stjórnenda í leikskólum, Félag skólastjórnenda í Reykjavík, Starfsfólk frístundaheimila, Forstöðumenn frístundamiðstöðva.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðun.
Lögð fram að nýju tillaga Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sbr. 1 liður 134. fundar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna óska eftir því að gerð verði úttekt á þróunarverkefnum á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal þar sem skóli og frístund hafa verið sameinuð. Jafnframt verði kallað eftir sjónarmiðum foreldra, íbúasamtaka og hverfisráða.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að fagfólk sviðsins, frístundaheimila og grunnskóla fái lengri tíma til að vinna þessar breytingar, til að leysa úr árekstrum sem fyrir liggja og eiga samstarf og samráð. Innleiðingu breytinga sé frestað um ár og skili af sér fullunnum breytingartillögum á vordögum 2012. Í þessu samhengi er vísað til umsagnar Háskóla Íslands, frístundamiðstöðva ÍTR og félags fagfólks í frítímaþjónustu sem allir telja skorta stefnumörkun og framtíðarsýn og að of mörgum spurningum sé ósvarað til að farsælt sé að leggja af stað í breytingar. Það er fullljóst að ekki er enn búið að taka ákvarðanir um mikilvæg atriði til að breytingarnar takist að minnsta kosti bærilega, hvorki hvaða hverfi er fyrir valinu, né hver er yfirmaður starfsmanna frístundastarfs er né hvort raunveruleg hagræðing er nokkur. Breytingarnar eru fyrst og fremst faglegar enda hagræðingartölur óljósar og óstaðfestar af fjármálaskrifstofu.
Tillagan er felld með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðun.
Lögð fram umsögn fulltrúa Besta flokksins og Samfylkingar um tillögur starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila:
Umsögn þessi er til komin vegna tillagna starfshóps um greiningu tækifæra til samrekstrar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila. Hér verður aðeins gefin umsögn um tillögu númer 1 sem kveður á um sameiginlega yfirstjórn grunnskóla og frístundaheimila. Reykjavíkurborg er ein heild. Borgin er okkar allra. Öll eigum við tilkall til hennar og höfum rétt á að hafa skoðanir á rekstri hennar. Núverandi tillögur um samrekstur grunnskóla og frístundaheimila mæla fyrir um breytingar. Það er skoðun Íþrótta og tómstundaráðs að með samrekstri grunnskóla og frístundaheimila megi ekki aðeins ná fram faglegum ávinningi, heldur einnig umtalsverðum fjárhagslegum ávinningi. Þegar þetta tvennt fer saman er ekki hægt að segja annað en að hitt sé á réttan tón: Sköpun, þróun og sparnaður! Hvernig til tekst er að endingu alltaf undir því komið hvernig starfsmenn og íbúar borgarinnar ganga mót verkinu og mótast útkoman af afstöðu þeirra til verkefnisins. Við berum fullt traust til starfsmanna Reykjavíkurborgar til að taka af heilindum þátt í að gera dag barna í borginni enn betri. Markmið okkar allra er það sama; að bjóða börnum og foreldrum upp á sem besta þjónustu með skynsamlegri nýtingu opinbers fjármagns. Íþrótta- og tómstundaráð er þess fullvisst að fyrirhugaðar breytingar munu hafa ánægju í för með sér og þá sérstaklega fyrir börn og foreldra í 1.-4. bekk í grunnskólum Reykjavíkur.
Að því sögðu styður Íþrótta- og tómstundaráð að unnið verði þróunarverkefni í einu þjónustuhverfi borgarinnar þar sem verði sameiginleg yfirstjórn frístundaheimila og skóla, frá og með næsta hausti 2011.
Íþrótta- og tómstundaráð vill taka undir eftirfarandi orð, sem er að finna í umsögn menntavísindasviðs Háskóla Íslands um skýrslu starfshóps:
„Faglegur ávinningur af samþættri stefnumótun skóla og frístundaheimila getur, ef vel tekst til, verið töluverður. Auka má gæði þjónustu við foreldra og börn með auknu samstarfi kennara og frístundaráðgjafa; frístundaráðgjafar geta auðgað starfsmannaflóru skólanna og eflt félagsstarf innan skólanna; samstarf frístundaheimila við skóla og leikskóla geta stuðlað að góðri skólabyrjun barna. Jafnframt má sjá fyrir sér mikla hagkvæmni í því að samnýta kennslurými, en til þess þarf að koma hugarfarsbreyting innan skólanna.“
Segja má í hnotskurn að hér sé slegið á sömu nótu og sýn Íþrótta- og tómstundaráðs grundvallast á. Í umsögn Menntavísindasviðs HÍ er komið inn á marga fróðlega hluti en einnig er bent á nokkrar vörður í veginum sem þarf að taka á með skilvirkum hætti. Jafnframt er vísað til mikilvægi jákvæðra viðhorfa og að sagan hafi sýnt að erfitt sé að koma samnýtingu húsnæðis í viðunandi horf. Lausn á því sé hins vegar forsenda þess að sambúð skóla og frístundaheimila gangi upp. Það er skýr sýn borgaryfirvalda að á tímum sem þessum þurfi að nýta vel allt það húsnæði sem borgin býr yfir og jafnframt að mannauðurinn sé sem best nýttur. Því er mikilvægt að starfsmenn borgarinnar leggist á eitt við að vinna verkefnið saman.
Í tillögum starfshópsins um greiningu tækifæra er dregin fram þessi lykilsetning: „Að virða ólíka starfshætti leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila og að sameiginlegar námsaðferðir og skipulag vinnudags barna verði unnið út frá þeim.“ Lykilatriði er að ólíkar fagstéttir virði hverja aðra og sameinist um að vinna saman að innihaldsríkum degi barnsins.
Úr umsögn Menntavísindasviðs Háskóla Íslands:
„Rannsóknir hafa sýnt að það gagnist börnum og fjölskyldum þeirra mjög vel að ólíkir faghópar starfi með þeim, ekki síst ef um er að ræða börn með sérþarfir (Höjholt, 2001). Því er hér tekið undir þær tillögur starfshópsins að æskilegt sé að auka samfellu í þjónustu við börn og fjölskyldur...“
Í starfsáætlun ÍTR segir:
Leiðarljós frístundaheimilanna er að hver einstaklingur fái að njóta sín og þroskast í umhverfi sem einkennist af hlýju, öryggi og virðingu. Lögð er áhersla á að þroska félagslega færni í samskiptum í gegnum leik og starf sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu.
Þessi sýn á hlutverk frístundaheimila á að sjálfsögðu að vera leiðarljós áfram og þess vegna er það lykilatriði að stefnumótun frístundastarfsins verði áfram á faglegum grunni og að ekki halli á hugmyndafræði frístundastarfs. Forsenda fyrir því væri þverfaglegt og náið samstarf við fagfólk í frístundamiðstöðvum borgarinnar.
Einnig telur Íþrótta- og tómstundaráð mikilvægt að fá háskólasamfélagið í samstarf með það í huga að fá ráðgjöf og aðstoð m.a. við faglega úttekt og mat. Menntavísindasvið Háskóla Íslands heldur utan um það nám sem snýr að tómstunda-og félagsmálafræði, grunnskóla- og leikskólakennaranámi og þar gætu falist tækifæri þegar hugsað er til sameiginlegra verkefna og þverfaglegrar vinnu.
Í kjölfar skýrslunnar var skipaður nýr starfshópur samkvæmt erindisbréfi og hlutverk hans var að gera tillögur að samþættum skóla- og frístundadegi barna í Reykjavík, velja þjónustuhverfi og skóla sem hefjast myndu handa haustið 2011 og undirbúa innleiðingu í borginni allri haustið 2012. Samkvæmt erindisbréfi átti hópurinn að ljúka störfum 1. apríl en verkefnum hópsins er ekki lokið en mun skila niðurstöðum á næstu vikum.
Það er mat Íþrótta- og tómstundaráðs að ef tillaga 1 verður samþykkt sé farsælast að settur verði á laggirnar nýr hópur, skipaður embættismönnum, starfsfólki ÍTR og Menntasviðs sem best þekkja til. Hópurinn myndi undirbúa og fylgja eftir innleiðingu og þróun verkefnisins og tæki ákvörðun um nánari útfærslu sameiginlegrar yfirstjórnar og hvernig sameiginleg stefnumótun yrði best unnin. Starfshópurinn myndi jafnframt standa fyrir samráðs- og vinnuferli með foreldrum, frístundasamfélaginu, skólasamfélaginu og öðrum hagsmunaaðilum, sérstaklega þeim sem starfa að skóla- og frístundamálum í því hverfi sem hefur innleiðinguna.
Íþrótta- og tómstundaráð vill þakka fyrir þær fjölmörgu umsagnir sem bárust og vandaða vinnu að baki þeim. Margar umsagnanna höfðu uppi varnaðarorð og lýstu sumar yfir miklum áhyggjum vegna þessarar tillögu.
Sum varnaðarorð umsagnanna snúa að því að of mikill hraði sé á verkefninu sem snýr að frístund. Þess vegna telur Íþrótta- og tómstundaráð mikilvægt að farið verði hægt af stað með sameiginlega stefnumótun og sameiginlega yfirstjórn frístundaheimila og skóla, með því að velja eitt þjónustuhverfi sem þróunarverkefni.
Margar umsagnanna benda líka á að starfsemi frístundaheimila er ekki lögbundin og að setja þurfi skýrari lagaramma um markmið þeirra og hlutverk, um menntun starfsmanna, aðstöðu og svo framvegis. Íþrótta- og tómstundaráð tekur undir þau orð og fagnar því að mennta- og menningarmálaráðherra hyggist vinna að slíkum lagaramma.
Það er mat Íþrótta- tómstundaráðs að því nánar sem yfirstjórn og stefnumótun þeirra mála sem snúa að börnum og ungmennum tengjast, því betri nýting verði á sameiginlegum fjármunum borgarbúa.
Með tilliti til ábendinga í umsögnum bæði fagfólks og skólaráða vill Íþrótta- og tómstundaráð leggja áherslu á eftirfarandi, verði tillaga um sameiginlega yfirstjórn frístundaheimila og skóla samþykkt:
• Tryggja þarf að faglegur ávinningur frístundastarfs síðustu ára verði tryggður áfram í samþættu frístunda- og skólastarfi.
• Tryggja þarf að sérþekking og stjórnunarreynsla fagfólks á sviði frítíma nýtist sem best og að fagfólk á sviði frítímans verði hluti af stjórnendateymi í skólum borgarinnar.
• Tryggja þarf að frítíminn fái sömu viðurkenningu og annað skólastarf. Einkunnarorð samþættingar eru samvinna.
• Að yfirmenn frístundaheimila og fagmenn á sviði frítímans fái ríkuleg tækifæri til að starfa saman á hverfavísu og sækja sér faglega næringu.
• Aðstaða og nýting húsnæðis verði samvinnuverkefni skólastjórnenda og leiðtoga frístundastarfs. Aðstaða innan veggja skólans, á lóðum eða nærliggjandi umhverfi verði mótuð með hliðsjón af sameiginlegum þörfum frístundastarfs og skólastarfs og tryggð eftir föngum sérstök aðstaða fyrir frístund í skólum borgarinnar, hér eftir sem hingað til.
• Að gætt sé að þjónustu við börn með sérþarfir og að litið verði á ólíka nálgun frístundastarfs og skólastarfs í þeim efnum sem styrkleika.
• Að fylgst verði grannt með niðurstöðum þróunarverkefnis í einu hverfi borgarinnar frá haustinu 2011 og af því dreginn lærdómur.
• Rauði þráðurinn í þessum tillögum Íþrótta – og tómstundaráðs eru að gæði frístundastarfsins séu tryggð og hagur barna í 1.-4. bekk verði hafður að leiðarljósi.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins hefur mistekist að standa með farsælum hætti að hagræðingu í skólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Óvönduð vinnubrögð meirihlutans við mótun og kynningu tillagna um sameiningu skóla og frístundaheimila hefur valdið uppnámi í skóla- og frístundastarfi. Þetta kemur m.a. fram í flausturslegum vinnubrögðum, miklum flýti og ónógu samráði við hagsmunaaðila. Fyrir liggur fjöldi umsagna frá skólum, foreldrum, skólastjórnendum, starfsmönnum og fleiri aðilum. Í rúmlega 90#PR tilvika er eindregin afstaða tekin gegn sameiningarhugmyndum meirihlutans auk þess sem 12 þúsund foreldrar hafa mótmælt þessum áformum með undirskriftasöfnun. Það vinnulag meirihlutans, að gefa fulltrúum hagsmunaaðila ekki beina aðild að þeim starfshópi, þar sem tillögurnar voru mótaðar, hefur gefist illa og leitt í ljós að loforð Samfylkingar og Besta flokksins um víðtækt samráð við borgarbúa í mikilvægum málum, eru innantóm og merkingarlaus. Í umsögnum frístundamiðstöðva og Félags fagfólks í frítímaþjónustu kemur fram að starfsfólk og stjórnendur frístundaheimila er ekki mótfallið þróun og vel ígrunduðum breytingum á skipulagi skóla- og frístundastarfs í borginni. Hins vegar séu fyrirliggjandi tillögur það umfangsmiklar og of mörgum spurningum ósvarað til að raunhæft sé að hrinda þeim í framkvæmd með þeim fyrirvara, sem kveðið er á um í skýrslunni. Ljóst er að margvísleg tækifæri liggja í auknu samstarfi og/eða samrekstri skóla og frístundaheimila en mikilvægt er að vandað sé til þeirrar vinnu og tryggt að hvergi sé slakað á faglegum kröfum, verði af slíkum breytingum. Því eru hroðvirknisleg vinnubrögð meirihlutans í málinu hörmuð. Enn er með öllu óljóst hvernig heildstæður dagur barna í skóla- og frístundastarfi er hugsaður út frá umræddum breytingum. Tekið skal undir það sjónarmið, sem komið hefur frá fjölda fagfólks, að áður en afdrifaríkar ákvarðanir verði teknar um breytingar á fyrirkomulagi skóla- og frístundastarfs yngstu barnanna, sé nauðsynlegt að fram fari vönduð stefnumótunarvinna með aðkomu allra hagsmunaaðila. Þá er óæskilegt að svo viðamiklar ákvarðanir séu teknar áður en niðurstaða liggur fyrir úr yfirstandandi vinnu við stjórnkerfisbreytingar hjá Reykjavíkurborg. Meirihlutinn skellir skollaeyrum við öllum slíkum ábendingum en kýs að taka afdrifaríkar ákvarðanir um fyrirkomulag skóla- og frístundastarfs þrátt fyrir lítinn fjárhagslegan ávinning. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki mælt með sameiningu skóla og frístundaheimila á þeim grundvelli, sem lagður er í fyrirliggjandi umsögn. Enn er ekki búið að taka ákvarðanir um mikilvæg atriði til að breytingar takist bærilega, t.d. hvaða hverfi verður fyrir valinu, hver verður yfirmaður starfsmanna frístundastarfs né hvort hagræðingin sé raunveruleg. Sú afstaða er ítrekuð að rétt sé að draga umræddar tillögur til baka en þess í stað gengið til víðtæks samráðs við foreldra og starfsfólk um hagræðingu í skólastarfi. Í þessu skyni verði skipaður nýr starfshópur, sem greini hagræðingartækifæri, með kjörnum fulltrúum allra flokka, sem sæti eiga í borgarstjórn auk fulltrúa hagsmunaaðila, m.a. foreldra, starfsfólks frístundaheimila og forstöðumanna frístundamiðstöðva.
Fulltrúi Vinstri grænna lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði telur tillögu meirihluta Besta flokks og Samfylkingar um sameiginlega yfirstjórn grunnskóla og frístundaheimila ekki tímabæra. Að baki tillögunni liggja veik fagleg rök sem öll hafa verið hrakin í umsögn forstöðumanna frístundamiðstöðva. Eins er ljóst af umsögnum mennta- og menningarmálaráðuneytis og menntavísindasviðs Háskóla Íslands að mikil fagleg áhætta er tekin með fyrirhugaðri sameiningu á lögbundinni þjónustu annars vegar og ungri, sértækri en mikilvægri þjónustu hins vegar. Frístundaheimilin hafa þróast hratt þau 10 ár sem þau hafa tilheyrt íþrótta- og tómstundasviði en innleiðingu þeirra er engan veginn lokið. Nauðsynlegt er að starfið fái svigrúm og pólitískan stuðning til að vaxa og dafna áfram í núverandi umhverfi. Á sviðinu hefur starfsfólk skapað frábæran vettvang til frekari framþróunar sem tekur mið af umhverfi heimilanna og lágu hlutfalli faglærðs starfsfólks. Í skýrslu sem lögð var fyrir íþrótta- og tómstundaráð fyrr í mánuðinum kemur í ljós metnaðarfull framtíðarsýn starfsfólks fyrir frítímaþjónustu í hverfum borgarinnar. Frítíminn er sjálfstætt viðfangsefni og þekkingin á því er hvergi meiri en á íþrótta- og tómstundasviði þar sem mikil áhersla er lögð á samfellu í þjónustu við ólíka aldurshópa. Flutningur á þjónustu við þennan afmarkaða aldurshóp myndi setja allt starf sviðsins í uppnám auk þess sem faglegt bakland starfsfólks frístundaheimilanna myndi rýrna til muna. Í samþykkt borgarráðs um starfsemi frístundaheimilanna er skýrt kveðið á um að þau skuli rekin í húsnæði grunnskólanna þar sem því verður við komið. Mikil vinna hefur verið lögð í að finna hentugt húsnæði fyrir frístundaheimilin í öllum skólahverfum borgarinnar og eru þau flest innan veggja grunnskólanna í dag. Það er jákvætt ef starfshópur um greiningu tækifæra hefur komið auga á lausnir þar sem þær hafa enn ekki fundist og eðlilegt að spara fjármuni með þeim hætti. Sú sjálfsagða vinna er þó með öllu ótengd mögulegri sameiningu á yfirstjórn, heldur snýst hún aðeins um að starfa í samræmi við núverandi samþykktir borgarinnar. Fjárhagsleg rök meirihlutans lúta að 28 milljóna króna árlegri hagræðingu þegar breytingarnar verði innleiddar að fullu árið 2013. Þeir útreikningar gera þó ekki ráð fyrir auknum stjórnendakostnaði sem áætlaður er um 16 mkr. á ári, né heldur kostnaði vegna þeirra verkefna sem ekki á að greiða fyrir eftir breytingar. Þannig má gera ráð fyrir að árleg hagræðing nemi í besta falli 12 mkr. á ári. Fulltrúi Vinstri grænna er þess handviss að hagræða megi um þessa upphæð með öðrum hætti á sviðinu án þess að fagþróun undanfarinna 10 ára verði ógnað með jafn umfangsmiklum hætti. Skýrsla starfshópsins er meirihlutanum til lítils sóma. Tillagan um frístundaheimilin er sérstaklega hroðvirknisleg, þar sem öll frístundaheimili borgarinnar eru sett undir einn hatt og engin grein gerð fyrir sérstöðu hvers og eins hvað varðar áherslur, rekstur, stærð eða staðsetningu. Skýrslan vekur upp spurningar um þann skilning og þá virðingu sem borin er af hálfu kjörinna fulltrúa meirihlutans fyrir starfinu á skrifstofu tómstundamála, þrátt fyrir að formaður og varaformaður íþrótta- og tómstundaráðs hafi báðir átt sæti í starfshópnum. Aukið samstarf og samþætting á starfi grunnskóla og frístundaheimila er af hinu góða. Samstarf sviðanna hefur tekið miklum og jákvæðum breytingum á undanförnum árum og greinilegur vilji er til staðar fyrir frekari samþættingu af hálfu starfsfólks beggja sviða. Sameiginleg yfirstjórn er ekki nauðsynleg til að svo megi verða, heldur gæti slíkt fyrirkomulag sett þessa jákvæðu þróun í uppnám. Fulltrúi Vinstri grænna tekur því undir tillögu forstöðumanna frístundamiðstöðvanna um að fallið verði frá núverandi tillögum, farið verði í greiningarvinnu á starfsemi grunnskóla og frístundaheimila og að þróun starfsins til næstu ára verði unnin með starfsfólki og sérfræðingum. Slíkt krefst mikillar yfirlegu, tíma og samráðs en það er líklegt til að skila mun betri niðurstöðu en þeirri sem meirihluti Besta flokks og Samfylkingar hefur nú lagt fram.
Fulltrúar meirihluta Besta flokksins og Samfylkingar óska þess bókað að vísað sé til umsagnar meirihluta ÍTR.
Fundi slitið kl. 12.05.
Eva Einarsdóttir
Diljá Ámundadóttir Hilmar Sigurðsson
Bjarni Þór Sigurðsson Kjartan Magnússon
Geir Sveinsson Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir