Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 131

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, föstudaginn 25. febrúar var haldinn 131. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst hann kl. 11.10. Viðstaddir: Eva Líf Einarsdóttir formaður, Diljá Ámundadóttir, Eva H. Baldursdóttir, Hilmar Sigurðsson, Kjartan Magnússon, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Einnig: Ingvar Sverrisson fulltrúi ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála og Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf Jafningjafræðslunnar dags. 15. febrúar sl. ásamt ársskýrslu fyrir 2009 – 2010.

- Kl. 11.20 kom Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi á fundinn.

2. Lagt fram minnisblað skrifstofustjóra íþróttamála dags. 23. febrúar sl. varðandi breytingu á afgreiðslutíma sundstaða.

3. Ódýrari frístundir. Lögð fram og kynnt skýrsla starfshóps ÍTR ásamt tillögum um aðgerðir.
Samþykkt að vísa tillögum sem fram koma í skýrslunni til framkvæmdastjóra.

4. Lögð fram svofelld fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins:
Óskað er eftir upplýsingum um stöðu framkvæmda við lagningu sparkvalla á skólalóðum á árinu 2011. Á síðasta ári samþykkti íþrótta- og tómstundaráð minnisblað Knattspyrnuráðs Reykjavíkur um lagningu sparkvalla á skólalóðum en þar var slíkum völlum forgangsraðað eftir faglegu mati á því hvar þeirra væri helst þörf, m.a. með tilliti til þess hvar íþróttaaðstöðu fyrir börn og unglinga er helst ábótavant í hverfum borgarinnar.

Vísað til framkvæmdastjóra

5. Lögð fram svofelld fyrirspurn:

Áheyrnarfulltrúi VG og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir upplýsingum um stöðu uppbyggingar íþróttamannvirkja fyrir íþróttafélagið FRAM í Grafarholti-Úlfarsárdal. Greinargerð:
Íþróttafélagið FRAM er með samning við Reykjavíkurborg um að sinna íþróttastafi í Grafarholti-Úlfarsárdal og uppbyggingu mannvirkja til þess í hverfinu. Eftir efnahagshrun hafa allar forsendur breyst og er verið að reyna að semja nýja áætlun fyrir uppbyggingu mannvirkjanna. Það hefur gengið mjög hægt og er íbúa farið að lengja eftir úrlausnum. Óskað er eftir skriflegum upplýsingum um stöðu mála og hvenær íbúar í hverfinu geti séð fram á viðunandi aðstæður fyrir þetta mikilvæga forvarnarstarf á næsta fundi ÍTR.

Vísað til framkvæmdastjóra.

- Kl. 13.20 véku Steinþór Einarsson, Marta Guðjónsdóttir og Eva Baldursdóttir af fundi.

6. Lögð fram svofelld gagnbókun meirihlutans vegna bókunar fulltrúa Sjálfstæðisflokksins á síðasta fundi ÍTR sbr. þriðja lið 130. fundargerðar:

Þegar hefur verið samþykkt tillaga þess efnis í borgarráði að áheyrnarfulltrúar í menntaráði auk deildarstjóra frístundaheimila og forstöðumanna frístundamiðstöðva, verði upplýstir um vinnu starfshópsins og þær hugmyndir sem nú er unnið með, með reglulegum fundum og hefur þegar verið haldinn slíkur fundur og fleiri í bígerð.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svofellda bókun:

Fulltrúar samtaka foreldra, skólastjórnenda, kennara og annarra starfsmanna borgarinnar hafa margoft og ítrekað kvartað yfir skorti á samráði vegna þeirra hagræðingarhugmynda sem nú er unnið að. Slíkur samráðsskortur hefur leitt til mikillar óánægju í borginni og þess að umrædd vinna er ekki í farsælum farvegi. Ekki verður fallist á að nægilegt sé að halda fulltrúum umræddra hópa upplýstum um vinnu starfshópsins, mun æskilegra er að gefa þeim beina aðild að þeirri mikilvægu vinnu, sem þar á sér stað og er enn harmað að meirihlutinn skuli hafa hafnað tillögu þess efnis.

Fundi slitið kl. 13.25.

Eva Líf Einarsdóttir

Diljá Ámundadóttir Kjartan Magnússon
Geir Sveinsson Hilmar Sigurðsson