Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 130

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2011, föstudaginn 18. febrúar var haldinn 130. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Höfðatorgi og hófst kl. 12.05. Mættir: Eva Einarsdóttir formaður, Eva Baldursdóttir, Diljá Ámundadóttir, Hilmar Sigurðsson og Marta Guðjónsdóttir.
Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Snorri Jóelsson starfsmannastjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram skýrsla starfshóps um Austurbæjarskóla dags. í febrúar. Skrifstofustjóri tómstundamála kynnti málið.
ÍTR tekur jákvætt í þær hugmyndir sem fram koma í skýrslunni. ÍTR vísar málinu jafnframt til skoðunar Framkvæmda- og eignasviðs og menntaráðs.

Kl. 12.15 kom Kjartan Magnússon á fundinn.

2. Lagt fram bréf Ungmennafélagsins Fjölnis dags. 26. janúar sl. vegna aðstöðumála.
Vísað til skoðunar hjá Framkvæmda- og eignasviði.

Kl. 12.45 vék Ómar Einarsson af fundi.

3. Óskar Sandholt kynnti vinnu starfshóps um greiningu tækifæra á endurskipulagningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Á síðustu vikum hafa hugmyndir, sem verið hafa til skoðunar í starfshópi um samrekstur og/eða sameiningu leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, spurst út og valdið mikilli ólgu, óánægju og kvíða meðal foreldra skólabarna sem og hjá stjórnendum og starfsmönnum umræddra borgarstofnana. Á fjölmennum fundi foreldra skólabarna, sem haldinn var í Ráðhúsi Reykjavíkur í gær, kom í ljós svo ekki verður um villst að meirihluta Samfylkingarinnar og Besta flokksins hefur mistekist að standa með farsælum hætti að frekari hagræðingu og ljóst er að henni er stefnt í voða ef ekki verður nú þegar brugðist við með réttum hætti og þessu nauðsynlega verkefni komið í sáttafarveg. Þess vegna þarf að auka samráð og besta leiðin til þess er að gefa fulltrúum hagsmunaaðila beina aðild að þeirri mikilvægu vinnu, sem á sér stað í starfshópnum. Með slíkri aðild er tryggt að sjónarmið foreldra, stjórnenda og starfsmanna hafi raunverulegt vægi í þessari vinnu og líklegt er að hún dragi úr tortryggni, sem ætíð er til staðar þegar samráð er af skornum skammti. Því er harmað að meirihlutinn hafi í borgarráði hafnað tillögu Sjálfstæðisflokksins um að fulltrúum helstu hagsmunaaðila, t.d. starfsfólks frístundaheimila og forstöðumanna frístundamiðstöðva, verði boðið að taka sæti í umræddum starfshópi og hafi þannig raunverulega aðkomu að þeirri vinnu sem þar á sér stað. Þá átelja fulltrúar sjálfstæðismanna að umræddum tillögum starfshópsins hafi ekki enn verið dreift til kjörinna fulltrúa í íþrótta- og tómstundaráði og óska eftir að það verði gert sem fyrst.

Fulltrúar meirihlutans áskilja sér rétt til gagnbókunar á næsta fundi.

Fundi slitið kl. 14.10.

Eva Einarsdóttir

Diljá Ámundadóttir Eva Baldursdóttir
Hilmar Sigurðsson Marta Guðjónsdóttir
Kjartan Magnússon