Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 123

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2010, miðvikudaginn 17. nóvember var haldinn 123. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 15.35. Viðstaddir: Eva H. Baldursdóttir, Hilmar Sigurðsson, Einar Örn Benediktsson, Ragnar Hansson, Marta Guðjónsdóttir og Geir Sveinsson. Einnig sátu fundinn: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Ingvar Sverrisson frá ÍBR, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri íþróttamála, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri tómstundamála, Bragi Þór Bjarnason fjármálastjóri, Snorri Jóelsson starfsmannastjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lögð fram og kynnt lokadrög að fjárhagsáætlun ÍTR fyrir árið 2011.

- Kl. 16.00 kom Kjartan Magnússon á fundinn.
- Kl. 16.55 vék Marta Guðjónsdóttir af fundi.
- Kl. 17.05 vék Geir Sveinsson af fundi.
- Kl. 17.15 vék Ingvar Sverrisson af fundi.

Hermann Valsson lagði fram svofellda fyrirspurn:
1. Má ætla að fjárhagsáætlun sviðsins hafi í för með sér fækkun á fastráðnu starfsfólki sviðsins og ef svo er, hversu mikið og um hvaða störf er að ræða?
2. Má ætla að fjárhagsáætlun sviðsins hafi í för með sér að tímabundnir ráðningarsamningar verði ekki endurnýjaðir og ef svo er, hversu margir og um hvaða störf er að ræða?
3. Má ætla að fjárhagsáætlun sviðsins hafi í för með sér fækkun á sumarstörfum og ef svo er, hversu mikið og um hvaða störf er að ræða?
Hermann Valsson lagði fram svofellda bókun:
Þeir rammar sem nú hefur verið úthlutað til fagráðanna virðast illa hugsaðir og ekki verður séð að þar hafi neinar pólitískar línur verið lagðar. Ljóst er að niðurskurður í þjónustu við börn verður sársaukafullur og mun koma harkalega niður á reykvískum börnum og fjölskyldum þeirra. Vinstri græn hafa frá upphafi lagt ríka áherslu á að velferðarþjónusta verði tryggð fyrir alla þá sem á henni þurfa að halda, að hagræðing komi ekki niður á þjónustu við börn, mannréttindaskrifstofu eða heilbrigðis- og loftgæðaeftirliti á vegum borgarinnar. Tryggja verður nægilegt framboð fjölbreyttra sumarstarfa fyrir ungmenni til að lágmarka langtímaafleiðingar kreppunnar, að leik- og grunnskólar bjóði áfram upp á innihaldsríkt starf, skjól og vernd fyrir börn og að börn geti notið fjölbreyttra tómstunda óháð efnahag og félagslegrar stöðu.
Í ljósi þessa leggur fulltrúi Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði til eftirfarandi:
1. Að gert verði ráð fyrir 3000 börnum í frístundaheimilum í ramma sviðsins.
2. Að fjárveiting til atvinnumála ungs fólks verði hækkuð í 150 milljónir.
3. Að eingöngu verði starfræktur einn smíðavöllur og hann staðsettur í Nauthólsvík.
4. Að hálendishópurinn verði starfræktur áfram og aflað verði tekna með námskeiðum fyrir erlenda unglinga.
5. Að gert verði ráð fyrir eflingu 10-12 ára starfs.
6. Að engar gjaldskrárhækkanir eigi sér stað.
7. Að þjónustusamningi við þjónustumiðstöðvar um frístundaráðgjafa verði sagt upp og ráðgjafarnir taki þátt í starfi á vegum sviðsins.

Vinstri græn telja að fullnýting útsvars sé sanngjarnasta leiðin til tekjuöflunar, enda greiðir fólk þannig í samræmi við tekjur í sameiginlegan sjóð borgarbúa sem varið er í grunnþjónustu. Þessar heimildir hefðu betur verið nýttar fyrir margt löngu enda hefði þannig verið hægt að koma í veg fyrir hagræðingu á undanförnum tveimur árum upp á hátt á annan milljarð króna. Hagræðing verður að fara fram í stjórnsýslunni samfara skipulagsbreytingum í átt til aukinnar valddreifingar og bættrar þjónustu úti í hverfum. Fara þarf í gagngera endurskoðun á nýtingu húsnæðis borgarinnar. Fulltrúi vinstri grænna minnir á ný útkomnar skýrslur sem sýna ótvírætt forvarnargildi íþróttastarfsins og hefur fulltrúinn miklar áhyggjur af íþróttastarfi fyrir börn og unglinga á næstu árum í ljósi framkominnar fjárhagsáætlunar. Fjöldi starfsmanna ÍTR mun missa vinnu og sumarstörf á vegum ÍTR verða í mýflugu mynd. Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2011 og áskilja fulltrúar Vinstri grænna sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun íþrótta- og tómstundamála á seinni stigum vinnunnar. Fulltrúi vinstri grænna vill þakka starfsmönnum sviðsins góða vinnu og upplýsingagjöf i vinnu við framlagða fjárhagsáætlun fyrir sviðið

Kjartan Magnússon lagði fram svofellda bókun:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins þakka starfsmönnum Íþrótta- og tómstundaráðs fyrir vel unnin störf að starfs- og fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2010. Þrátt fyrir að sú vinna sé sögð komin á lokastig er þó fjölmargt óljóst en það má rekja til vinnubragða meirihluta borgarstjórnar. Ítrekað er að standa þarf betur að undirbúningsvinnu vegna fjárhagsáætlunar, eigi farsælar lausnir að finnast og viðunandi sátt að nást um þá hagræðingu, sem stefnt er að. Sú staðreynd að skýra forgangsröðun skortir, aðgerðaráætlun virðist ekki lengur vera í gildi og fundir aðgerðahóps tilviljanakenndir, gerir það að verkum að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki stutt áætlanir þegar engin yfirsýn liggur fyrir. Þá liggja ekki fyrir neinar tillögur um fjárfestingar á vegum ÍTR á næsta ári. Ekki er endanlega ljóst hvernig hagræðing eða niðurskurður skiptast á einstök svið borgarinnar. Samkvæmt fyrirliggjandi drögum mun starfsemi íþrótta- og tómstundaráðs taka á sig mun meiri skerðingu en önnur svið Reykjavíkurborgar, sem hafa með höndum starf í þágu barna og ungmenna. Slíkt gengur með afgerandi hætti gegn þeirri stefnu í fjármálum borgarinnar, sem framfylgt hefur verið frá árinu 2008, um að hagrætt yrði með hagsmuni þessara hópa að leiðarljósi. T.d. virðist stefnt að því að skerða verulega hið mikilvæga barna- og unglingastarf íþróttafélaganna í borginni með fækkun tíma í íþróttahúsum. Þá er gert ráð fyrir margvíslegri annarri skerðingu í barna- og æskulýðsstarfi, t.d. að starfsemi smíðavalla sé hætt. Þá er gerð alvarleg athugasemd við að loka eigi skíðasvæðinu í Skálafelli. Skýtur skökku við að sú lokun er ráðgerð á sama tíma og veita á framlag til búnaðarkaupa vegna hjólreiðavangs í Skálafelli, sem er jákvætt í sjálfu sér, en sá búnaður myndi tvímælalaust einnig nýtast skíðastarfsemi á svæðinu. Samkvæmt fyrirliggjandi áætlunardrögum er gert ráð fyrir 2.600 heilsdagsrýmum á frístundaheimilum. Ljóst er að þessi tala er verulega vanáætluð en nú eru að meðaltali 3.000 börn í vistun dag hvern. Óskað er eftir því að þessi tala verði leiðrétt enda um mikilvæga þjónustu að ræða.

Fundi slitið kl. 17.45

Eva H. Baldursdóttir
Hilmar Sigurðsson Kjartan Magnússon
Ragnar Hansson Einar Örn Benediktsson