Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 119

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2010, föstudaginn 22. október var haldinn 119. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Laugardalslaug og hófst kl. 11.10. Viðstaddir: Diljá Ámundadóttir formaður, Eva H. Baldursdóttir, Hilmar Sigurðsson, Geir Sveinsson, Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir. Jafnframt: Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf ÍBR dags. 12. okt. sl. til íþrótta- og tómstundaráðs og menntaráðs vegna skólamóts höfuðborga Norðurlanda í Reykjavík 2011.
Vísað til framkvæmdastjóra.

2. Lagt fram minnisblað Skíðaráðs Reykjavíkur dags. 18. okt. sl. vegna skíðamála í Reykjavík, Skíðalandsmóts í Reykjavík 1.-3. apríl 2011 o.fl.

3. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra dags. 21. okt. sl. varðandi íþróttahús Seljaskóla.
Framkvæmdastjóra falið að ganga frá samningi vegna málsins.

Kl. 11.30 kom Einar Örn Benediktsson á fundinn.
Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokksins:
Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur beinir því til Framkvæmda- og eignasviðs að ráðist verði í endurbætur á Íþróttahúsi Seljaskóla í tilefni af því að Íþróttafélag Reykjavíkur mun á næstunni taka við rekstri hússins. Óskað er eftir því að fulltrúar íþróttafélagsins og Reykjavíkurborgar fari í sameiningu yfir málið, meti hvernig sé almennt hægt að bæta viðhald hússins og smíði áætlun um endurbætur. Sérstaklega verði metið hvaða aðgerðir þoli ekki bið. M.a. skal fjallað um eftirfarandi atriði:
• Áhorfendabekkir. Núverandi áhorfendabekkir eru komnir til ára sinna og æskilegt er að þeir verði endurnýjaðir sem fyrst. Bent hefur verið á að hugsanlegt sé að þeir geti valdið skemmdum á nýlögðu viðargólfinu.
• Sinna þarf margvíslegu viðhaldi í húsinu, málningu, endurbótum á salernum o.fl.
• Geymsla. Geymsluhúsnæði er af skornum skammti í húsinu og brýnt að bæta þar úr. Hægt væri að leysa það mál með lítilli viðbyggingu eða skála við hlið hússins.
• Skoða þarf þá hugmynd að byggja yfir garð, sem er á milli íþróttahússins og skólans. Ef slíkt yrði t.d. gert með glerþaki yrði til skemmtilegt tengirými, sem hægt væri að nýta sameiginlega í þágu íþróttastarfs og félagsstarfs skólans.
Samþykkt samhljóða.

4. Rætt um gerð fjárhagsáætlunar 2011.

5. Skrifstofustjóri tómstundamála sagði frá að í vetrarfríi grunnskóla í næstu viku verði alls konar skemmtilegar uppákomur sem ÍTR býður fjölskyldum upp á. Ung-blaðið er komið út, það er rafrænt blað sem unglingar og starfsmenn í félagsmiðstöðvum ÍTR gefa út. Félagsmiðstöðvadagurinn sem er samstarfsverkefni 24 félagsmiðstöðva í Reykjavík verður miðvikudaginn 27. október og eru félagsmiðstöðvarnar opnar fyrir gesti og gangandi þennan dag.

6. Lögð fram eftirfarandi tillaga Sjálfstæðisflokksins:
Lagt er til að starfshópur verði skipaður til að meta kosti og galla þess að í húsnæði við Austurbæjarskóla, sem nú hýsir varahlutageymslu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur, verði komið á fót félagsaðstöðu í þágu skólans og íbúa hverfisins. Verði niðurstaðan jákvæð, semji hópurinn frumtillögur að nýtingu ásamt kostnaðaráætlun. Starfshópinn skipi fulltrúar Austurbæjarskóla, foreldrafélags Austurbæjarskóla, Íbúasamtaka miðborgar, Framkvæmda- og eignasviðs, Menntasviðs og Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar. Stefnt skal að því að hópurinn skili áliti fyrir 1. desember 2010.
Greinargerð fylgir tillögunni.
Samþykkt samhljóða.

Fundi slitið kl. 13.05

Diljá Ámundadóttir

Eva H. Baldursdóttir Hilmar Sigurðsson
Einar Örn Benediktsson Marta Guðjónsdóttir
Geir Sveinsson Kjartan Magnússon