Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 114

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2010, föstudaginn 25. júní var haldinn 114. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn á Bæjarhálsi 1 og hófst kl. 11.00. Viðstaddir: Diljá Ámundadóttir formaður, Eva Einarsdóttir, Eva H. Baldursdóttir, Hilmar Sigurðsson, Geir Sveinsson og Björn Gíslason. Jafnframt: Ragnar Hansson, Marta Guðjónsdóttir og Hildur Sverrisdóttir varamenn, Ingvar Sverrisson ÍBR, Hermann Valsson áheyrnarfulltrúi, Drífa Baldursdóttir varaáheyrnarfulltrúi, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 15. júní sl. þar sem tilkynnt er kjör fulltrúa í íþrótta- og tómstundaráð til loka kjörtímabilsins á fundi borgarstjórnar 15. júní sl.

2. Samþykkt að Eva H. Baldursdóttir verði varaformaður.

3. Fundartími ráðsins.
Samþykkt að fundartími ráðsins verði 2. og 4. föstudagur í mánuði kl. 11.00. Næsti fundur 4. föstudag í ágúst.

4. Lögð fram eftirfarandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að óska eftir því við stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur að tilnefna fulltrúa til samstarf við íþrótta- og tómstundaráð og setu á fundum ráðsins, sem áheyrnarfulltrúi, samkvæmt nánara samkomulagi milli ÍTR og ÍBR.
Samþykkt samhljóða.
Ingvar Sverrisson verður fulltrúi ÍBR og Frímann Ari Ferdinardsson til vara.

5. Lögð fram eftirfarandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að óska eftir því við skrifstofustjóra tómstundamála að tilnefndur verði fulltrúi frístundamiðstöðva til setu á fundum ráðsins sem áheyrnarfulltrúi. Fulltrúinn verði tilnefndur til eins árs í senn.
Frestað.

6. Lögð fram eftirfarandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að settur verði saman starfshópur með það að markmiði að finna leiðir til að stuðla að ódýrari frístundum fyrir börn og unglinga. Hópurinn skal hafa það að leiðarljósi að finna hagkvæmar og ódýrar lausnir bæði innan þeirra frístunda sem fyrir eru, íþrótta og tómstunda, og koma með tillögur að nýjum og bættum leiðum til að stuðla að áframhaldandi uppbyggilegu frístundastarfi í borginni sem allir geta tekið þátt í. Markmið starfshópsins er að stuðla að jafnrétti til frístunda, óháð efnahags- , kyn og kynþætti og öðrum atriðum, sem og að örva nýbreytni og nýsköpun á sviði íþrótta- og tómstundamála með einkunnarorðunum frístundir fyrir alla að leiðarljósi. Í því sambandi skal gengið til viðræðna við íþróttafélög, æskulýðssamtök, tónlistar- og listaskóla og aðra aðila sem sinna uppbyggilegu frístundastarfi í Reykjavíkurborg, sem og horft skal til mannréttinda barna við stefnumótun. Þá skal stefnt að almennri og meiri þátttöku á verði sem fleiri ráða við. Huga beri að úrræðum þeirra sem búa við þröngan fjárhag heima fyrir. Úrræði sem skoðuð verði, má í dæmaskyni nefna, kostnað vegna æfingargjalda, útbúnaðar t.d. verði horft til skiptiskó- eða útbúnaðarmarkaðs, þá verði skoðaður fjöldi æfinga og kennslustunda, hóptíma í stað einkakennslu og útgjalda vegna ferðalaga og fatnaðar svo sem áður er nefnt. Þá megi ennfremur skoða leiðir til að samræma skóla og æfingar eins og best verður á kosið í samvinnu við hagsmunaaðila. Skemmtileg hagkvæmni og hagsýni í frístundum eru einkunnarorð starfshópsins og er hópurinn eindregið kvattur til þess að vera skapandi og frjór í samstarfi við áðurnefnd félög til að koma með einfaldar, ódýrari og skemmtilegar launsir fyrir alla. Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að 7 einstaklingar skipi ofangreindan starfshóp. Tillaga er um að tveir verði tilnefndir af ÍTR, einn af sviði íþrótta og annar á sviði tómstunda, tilnefndur verði einn aðili frá Hinu húsinu sem málsvari ungs fólks á aldrinu 16-24 ára og einn af velferðarsviði Reykjavíkurborgar til að gæta hagsmuna allra hópa samfélagsins, einn fulltrúi frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur og að lokum skipi tveir aðilar úr íþrótta- og tómstundaráði hópinn og leiði starfið.
Samþykkt samhljóða.
Fulltrúar íþrótta- og tómstundaráðs verða Eva H. Baldursdóttir og Geir Sveinsson.

7. Lögð fram eftirfarandi tillaga Besta flokksins og Samfylkingar:
þrótta – og tómstundarráð samþykkir að halda tvo starfsdaga á ári, einn á vorönn og einn á haustönn. Tilgangur slíkra daga er að vinna með hugmyndir starfsfólks um sýn, stefnu og aðferðafræði ÍTR. Markmið starfsdaganna er að veita starfsfólki ÍTR aukna ábyrgðar-og áhrifatillfinningu í sínu starfi. Lögð verður áhersla á vinnubrögð sem einnig bæta vinnuandann og efla samstarf á milli mismunandi hópa innan sviðsins. Fyrst og fremst eiga þessir dagar að vera tilhlökkunarefni og marka tímamót hverju sinni. Mikilvægt er að fá utanaðkomandi aðila til að leiða starfsdaginn.
Samþykkt samhljóða.

- Kl. 11.45 kom Bjarni Þór Sigurðsson á fundinn.

8. Ingvar Sverrisson formaður ÍBR kynnti starfsemi Íþróttabandalags Reykjavíkur.

- Kl. 12.20 vék Ingvar Sverrisson af fundi.

9. Framkvæmdastjóri ÍTR, skrifstofustjórar tómstundamála og íþróttamála kynntu starfsemi ÍTR.

10. Lögð fram eftirfarandi bókun íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð samþykkir að leitað verði alla leiða, sem allra fyrst, til að skapa fleiri 17 ára unglingum sumarstörf með þeim tillögum sem ÍTR hefur lagt fram í þeim efnum.

- Kl..13.20 vék Hildur Sverrisdóttir af fundi.
- Kl. 13.30 vék Bjarni Þór Sigurðsson af fundi.

11. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 16. júní sl. þar sem fram kemur að tillaga borgarstjóra varðandi menningarfána hafi verið samþykkt.

12. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 16. júní sl. þar sem fram kemur að tillaga borgarstjóra varðandi ókeypis í sund fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri hafi verið samþykkt og vísað til útfærslu ÍTR.

13. Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 18. maí sl. varðandi verk- og tímaáætlun fjárhagsáætlunar 2011. Jafnframt lögð fram fjárhagsáætlun ÍTR 2010.

14. Lagt fram bréf verkefnisstjóra á skrifstofu tómstundamála dags. 22. júní vegna hvatningaverðlauna frístundaheimila og skipan í dómnefnd.
Fulltrúi minnihluta í dómnefndinni er Hermann Valsson og frá meirihluta Ragnar Hansson og Diljá Ámundadóttir.

15. Lagt fram yfirlit um umsóknir á frístundaheimilin haustið 2010. Jafnframt lagt fram minnisblað fjármálastjóra ÍTR dags. 23. júní sl. vegna fjárhagsáætlunar frístundaheimila 2010.

16. Lagt fram minnisblað framkvæmdastjóra ÍTR dags. 23. júní sl. varðandi málefni Tónlistarþróunarmiðstöðvar.

17. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
Í stefnuyfirlýsingu Besta flokksins og Samfylkinar kemur fram að flokkarnir hyggjist leggja áherslu á uppbyggingu íþróttaaðstöðu í þeim hverfum þar sem hana skortir nú. Fulltrúi VG óskar eftir upplýsingum um hvernig sú uppbygging eigi að fara fram. Hvernig verður forgangsraðað og hvaða tímasetningar eru á verkinu?

18. Lögð fram eftirfarandi fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Vinstri grænna:
27.01.2007 lagði fulltrúi VG fram tillögu um Skíðasvæði höfuðborgarsvæðisins. Skoðað yrðu hvaða möguleikar væru í nágrenni borgarinnar og mótuð stefna til framtíðar í málefnum skíðasvæða. Tillögunni var vísað til stjórnar skíðasvæðanna 09.02.2007 og enn hefur ekki borist svar. Kallað er eftir svari.

19. Lögð fram eftirfarandi bókun íþrótta- og tómstundaráðs:
Íþrótta- og tómstundaráð leggur fram yfirlýsingu í formi hvatningar til Ríkissjónvarpsins um að við útsendingu og umfjöllun stórra íþróttaviðburða sé valinn breiður hópur fólks með tilliti til kyns, aldurshóps, kynhneigðar, uppruna og þess háttar til að lýsa og fjalla um viðkomandi íþrótt enda eru íþróttir fyrir alla! Framangreint fyrirkomulag er í samræmi við jafnréttisstefnu sem opinber yfirvöld hafa markað sér. Þá er sérstaklega vísað til núverandi útsendingu á Heimsmeistarakeppni í fótbolta 2010 en þarf hefði íþrótta- og tómstundaráð viljað sjá fjölbreyttari hóp fólks til að lýsa knattspyrnu. Knattspyrna er íþrótt fyrir alla sem allskonar fólk hafa áhuga og skoðun á. Í því samhengi má benda á að hlutfall karla og kvenna mætti vera jafnara. Fjölbreytni er skemmtileg og eins skal hafa í huga að fyrirmyndir eru allskonar, gaman hefði verið að sjá ömmur og afa, unglinga og skvísur lýsa leikjum á HM með allskonar skoðunum og hugmyndum. Þannig er Ríkissjónvarpið sérstaklega hvatt til að leggja áherslu á fjölbreytni í lýsingum sem er til eftirbreytni að mati ráðsins.

Fundi slitið kl. 14.45

Diljá Ámundadóttir

Eva Einarsdóttir Eva H. Baldursdóttir
Hilmar Sigurðsson Geir Sveinsson
Björn Gíslason Marta Guðjónsdóttir