No translated content text
Íþrótta- og tómstundaráð
ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ
Ár 2010, föstudaginn 26. mars var haldinn 108. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Laugabóli og hófst kl. 11.00. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason, Sigfús Ægir Árnason, Sóley Tómasdóttir, Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt: Egill Örn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarráðs dags. 16. mars sl. þar sem fram kemur að tillaga um námskeið fyrir ungt fólk án atvinnu hafi verið samþykkt.
2. Lagt fram afrit af bréfi Velferðarvaktarinnar dags. 16. mars sl. varðandi innheimtukröfur.
Kl. 11.10 kom Oddný Sturludóttir á fundinn.
3. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 10. mars sl. varðandi rekstur frístundaheimila.
4. Lagt fram bréf skrifstofustjóra borgarstjórnar dags. 17. mars sl. vegna aðgangseyris fyrir atvinnulausa og þiggjendur fjárhagsaðstoðar.
Vísað til framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra íþróttamála og sviðsstjóra Velferðarsviðs.
5. Lagt fram bréf fræðslustjóra og sviðsstjóra Velferðarsviðs dags. 22. mars sl. vegna tillagna aðgerðarteymis Velferðarráðs og Barnanna í borginni.
6. Lagt fram bréf ÍBR dags. 24. mars sl. vegna Skautahallar.
Sú tilhögun sem fram kemur í bréfi ÍBR um að skipaðir verði 5 fulltrúar í stað þriggja áður í rekstrarstjórn samþykkt.
7. Lögð fram minnisblöð skrifstofustjóra tómstundamála dags. 25. mars sl. varðandi sumarstarf ÍTR og sumaropnun félagsmiðstöðva 2010.
Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta. Fulltrúi Vinstri grænna á móti og fulltrúar Samfylkingar sátu hjá.
Fulltrúar Samfylkingar lögðu fram eftirfarandi bókun:
Starfsfólki skrifstofu tómstundamála er þakkað fyrir mikla vinnu við skipulag sumarstarfs ÍTR fyrir börn og unglinga. Mikilvægt er að félagsmiðstöðvastarf fyrir unglinga yfir sumartímann sé skipulagt í samráði við unglingana sjálfa, með þarfir þeirra og langanir í fyrirrúmi og til að hvetja þá til frumkvæðis og skapandi starfs yfir sumartímann. Afar mikilvægt er að starf ÍTR með börnum og unglingum sem þurfa félagslegan stuðning myndi samfellu yfir allt árið. Enn og aftur er það afar gagnrýnivert að færri ungmenni eru ráðin til starfa yfir sumartímann hjá Reykjavíkurborg en áður, á tímum mikils atvinnuleysis. Reykjavíkurborg ber mikla ábyrgð sem atvinnuveitandi ungs fólks yfir sumartímann.
Fulltrúi Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði lagði fram eftirfarandi breytingatillögu:
ÍTR samþykkir að ein starfsstöð verði opin allt sumarið í hverjum borgarhluta fyrir sig til viðbótar við tillögur sviðsins og jafnframt að starfið verði skipulagt með þeim hætti að fjöldi starfsfólks (mannmánaða) haldist óbreyttur frá sumrinu 2009.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi frávísunartillögu:
Lagt er til að tillögu Vinstri grænna verði vísað frá.
Samþykkt með 4 atkvæðum meirihluta.
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks þakka starfsmönnum ÍTR fyrir mikla vinnu við útfærslu á tillögum vegna starfs á vegum sviðsins á sumri komanda. Þrátt fyrir hagræðingu í fjármálum borgarinnar mun börnum og ungmennum standa til boða fjölbreytilegt frístundastarf í frístundaheimilum, félagsmiðstöðvum og á vegum íþrótta- og æskulýðssamtaka í borginni. Árum saman hefur reynslan verið sú að lítil aðsókn hefur verið að frístundaheimilum síðari hluta júlí og því er lagt til að þeim verði lokað í tvær vikur á því tímabili. Ekki er orðið ljóst hve mörg sumarstörf verða á vegum Reykjavíkurborgar í sumar enda er enn unnið að því að greina umfang atvinnuleysisins og hvernig verði best staðið að úrbótum á þessu sviði og ráðstöfun hins takmarkaða fjár sem til umráða er í þessum mikilvæga málaflokki. Því er breytingartillögu við minnisblað skrifstofustjóra tómstundamála um sumarstarf vísað frá enda verða þessi mál áfram til skoðunar. Ljóst er að í sumar mun Reykjavíkurborg enn sem fyrr gegna lykilhlutverki við að veita ungu fólki sumarvinnu. Nú þegar hefur verið ákveðið að svið borgarinnar ráði í a.m.k. 1.287 sumarstörf en auk þess mun Orkuveitan ráða í um 200 sumarstörf. Ljóst er því að Reykjavíkurborg leggur sem fyrr mikla áherslu á atvinnumál ungs fólks en eðli málsins samkvæmt er mikilvægt að þau séu í sífelldri endurskoðun. T.d. má nefna að umsóknarfrestur vegna sumarstarfa hjá borginni rennur út hinn 6. apríl og munu þá væntanlega koma fram áreiðanlegar vísbendingar um hve spurn eftir sumarstörfum verður mikil.
Lögð fram eftirfarandi bókun Vinstri grænna:
Frávísun meirihlutans á breytingartillögunni er til marks um þá ákvarðanafælni sem þar ríkir, enda ljóst að sumarstarfið verður formlega auglýst þann 1. apríl, eftir 5 daga og alveg ljóst að engar breytingar geta átt sér stað fram að því. Með þessu brýtur meirihlutinn enn og aftur í bága við aðgerðaráætlun borgarstjórnar, enda er hér verið að skerða grunnþjónustu og enginn vörður er staðinn um fjölda starfa. Fullyrðingar um að borgin leggi mikla áherslu á atvinnumál ungs fólks þegar aðeins er gert ráð fyrir 1300 störfum á mesta atvinnuleysisári í manna minnum eru algjörlega úr lausu lofti gripnar. Fullyrðingar borgarstjóra um fjölda starfa og mannmánaða eru sömuleiðis að engu gerðar. Ljóst er að hér er verið að fækka verulega ódýrum starfskröftum sem annars gætu unnið gott og þarft starf. Sumarstarf ÍTR gegnir gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir komandi kynslóðir og jafnvel þótt eftirspurnin hafi verið lítil á einhverjum tímapunkti hefur hún alltaf verið einhver. Með því að leggja starfið niður í tvær vikur eru borgaryfirvöld ekki að axla skyldur sínar eða samfélagslega ábyrgð. Fulltrúinn þakkar engu að síður fyrir framlagðar tillögur starfsfólks sem hefur gert sitt besta til að nýta það takmarkaða fé sem þau hafa til umráða.
Lögð fram eftirfarandi bókun fulltrúa Samfylkingar:
Nú þegar er vitað að eftirspurn eftir sumarstörfum hjá Reykjavíkurborg verður langt umfram það sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hefur sett fjármagn til á fjárhagsáætlun þessa árs og því brýnt að taka ákvörðun sem fyrst ef á að auka við fjármagn til sumarstarfa ungmenna hjá borginni.
Kl. 12.20 vék Ómar Einarsson af fundi.
8. Kynning á starfsemi Þróttar og Ármanns. Jórunn Frímannsdóttir formaður Þróttar og Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri Þróttar kynntu starfsemi Þróttar.
Jón Þór framkvæmdastjóri og Snorri Þorvaldsson formaður kynntu starfsemi Ármanns.
Íþrótta- og tómstundaráð þakkar forsvarsmönnum Ármanns og Þróttar fyrir fróðlega kynningu á starfsemi félaganna og þakkar þeim fyrir öflugt og ómetanlegt starf í þágu íþrótta- og æskulýðsstarfs í borginni. Þátttakendum í starfi félaganna hefur fjölgað verulega á undanförnum árum og er sérstaklega ánægjulegt að sjá hina góðu samvinnnu sem félögin eiga sín á milli.
Fundi slitið kl. 13.50.
Kjartan Magnússon
Valgerður Sveinsdóttir Sigfús Ægir Árnason
Björn Gíslason Stefán Jóhann Stefánsson
Oddný Sturludóttir Sóley Tómasdóttir