Íþrótta- og tómstundaráð - Fundur nr. 100

Íþrótta- og tómstundaráð

ÍÞRÓTTA- OG TÓMSTUNDARÁÐ

Ár 2009, mánudaginn 23. nóvember var haldinn 100. fundur íþrótta- og tómstundaráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsinu og hófst kl. 10.40. Viðstaddir: Kjartan Magnússon formaður, Valgerður Sveinsdóttir, Björn Gíslason, Sóley Tómasdóttir, Oddný Sturludóttir og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt: Egill Örn Jóhannsson áheyrnarfulltrúi, Gísli Árni Eggertsson skrifstofustjóri, Steinþór Einarsson skrifstofustjóri, Soffía Pálsdóttir skrifstofustjóri, Ómar Einarsson framkvæmdastjóri og Helga Björnsdóttir skrifstofustjóri sem skrifaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Starfs- og fjárhagsáætlun ÍTR 2010 lögð fram og rædd.

Kl. 10.50 kom Snorri Þorvaldsson á fundinn.
Lögð fram eftirfarandi bókun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Í hinni metnaðarfullu starfs- og fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs fyrir árið 2010, sem liggur fyrir fundinum, er kappkostað að viðhalda öflugri þjónustu sviðsins án þess að auka útgjöld. Sem fyrr er aðgerðaáætlun borgarstjórnar höfð að leiðarljósi, þ.e. að tryggja grunnþjónustu, verja störf fastráðinna starfsmanna og hækka ekki gjaldskrár. Víðtæk þjónusta ÍTR mun áfram standa öllum borgarbúum til boða, og þá ekki síst börnum og unglingum, þrátt fyrir mikla en óhjákvæmilega hagræðingu. Íþrótta- og tómstundaráð þakkar hinum fjölmörgu starfsmönnum sviðsins, sem unnið hafa að gerð starfs- og fjárhagsáætlunar, fyrir góða frammistöðu við erfiðar aðstæður.Ráðgert er að hagrætt verði í rekstri flestra starfsstaða, verkefna og samninga á vegum ÍTR. Framlög til frístundakortsins verða þó óbreytt eða 25 þúsund krónur á barn en svonefnd 5#PR regla lækkuð um 10 milljónir króna og umsýslugjald til félaga lækkað. Starf fyrir 10-12 ára börn verður eflt í félagsmiðstöðvum og tilraun gerð með að auka starfsemi í Grafarvogi og Breiðholti á árinu 2010. Útvíkkun á þessari starfsemi verður metin á síðari hluta ársins 2010.

Kl. 11.15 kom fjármálastjóri ÍTR á fundinn.
Lögð fram eftirfarandi bókun Vinstri grænna:
Fulltrúi Vinstri grænna í íþrótta- og tómstundaráði getur ekki fallist á þær forsendur sem gefnar hafa verið við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ber þar hæst óbreytt útsvarsprósenta þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað og minni tekjur borgarinnar. Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa. Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 miljónir króna í tekjur árið 2010. Niðurskurðurinn er því enn meiri en nauðsyn krefur að mati Vinstri grænna. Úthlutun ramma ber lítil merki um nýjar áherslur í forgangsröðun. Skorið er niður með tiltölulega flötum hætti og hefði fulltrúi Vinstri grænna viljað sjá skýrari áherslumun en þann sem hér birtist. Ljóst er að útgjöld á Velferðarsviði þurfa að aukast á árinu 2010 á meðan hægt væri að draga enn frekar saman á sviði framkvæmda eða skipulags. Einnig skortir talsvert upp á að fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundasviðs endurspegli nýjar áherslur. Allt of mikið er skorið niður á skrifstofu tómstundamála, þar sem mikilvæg uppbygging grunnþjónustu hefur átt sér stað á undanförnum árum. Sérstaklega er sárt að sjá hve hart er gengið að frístundaheimilum borgarinnar, en þau eru látin taka á sig um fjórðung alls niðurskurðar á sviðinu. Niðurskurður á kostnað barna eða velferðar mun hafa áhrif á líðan þeirra og uppvaxtarskilyrði og þar að auki reynast kostnaðarsamur til framtíðar og er með öllu óásættanlegur.
Fulltrúi Vinstri grænna hefði viljað sjá eftirfarandi breytingar á fjárhagsáætlun sviðsins fyrir árið 2010:
1. Að áfram verði opið á heilum dögum í frístundaheimilum. Hér er um mikla þjónustuskerðingu að ræða sem mun bitna á yngstu börnunum og foreldrum þeirra, auk þess sem hún mun koma niður á útsvarstekjum borgarinnar.
2. Að áfram verði gert ráð fyrir 12 börnum á hvern starfsmann í frístundaheimilum. Það er engan veginn réttlætanlegt að auka álagið á þennan lægst launaða starfsmannahóp borgarinnar, nóg er það fyrir.
3. Að áframhaldandi starfsemi félagmiðstöðvarhópa verði tryggð.
4. Fyrirhugaður samdráttur á starfi heilsársfrístundaheimila mun leiða til fækkunar á sumarstörfum og koma þannig í veg fyrir að hægt verði að fjölga fastráðnu starfsfólki. Ítrekað hefur verið bent á mikilvægi þess að fjölga ótímabundnum ráðningasamningum á sviðinu.
5. Að auknu fjármagni verði veitt til atvinnumála ungs fólks. Nú þegar við blasir áframhaldandi atvinnuleysi, og reynslan sýnir að yngstu aldurshóparnir fara verst út úr slíku ástandi, verður borgin að grípa til aðgerða.
6. Að gert verði ráð fyrir eflingu frístundastarfs fyrir börn í 5.-7. bekk. Úthlutun fjármagns í þágu frístundastarfs með ólíkum aldurshópum er í hæsta máta ósanngjörn, þar sem þessir árgangar hafa ekki fengið neina þjónustu sam heitið getur.
Sú áætlun sem hér er lögð fram hefur ekki verið unnin af fulltrúum allra flokka. Þó einstaka fundir hafi verið haldnir um áherslur í málaflokknum hefur ekki gefist svigrúm til að ráðið reyni að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Án slíks svigrúms er ekki hægt að segja að um samráð hafi verið að ræða. Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2010 og áskilja fulltrúar flokksins sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun íþrótta- og tómstundamála á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.
Lögð fram eftirfarandi bókun Samfylkingar:
Fulltrúar Samfylkingarinnar í ÍTR þakka starfsfólki ÍTR fyrir góða vinnu við mótun starfs- og fjárhagsáætlunar fyrir árið 2010. Ljóst er að ÍTR er gert að hagræða um 551 milljónir króna á árinu 2010 að teknu tilliti til hækkunar verðlags eða um 7,49#PR. Þegar búið er að taka fasta liði s.s. innri leigu til hliðar samsvarar niðurskurðurinn 9,58#PR af þeirri fjáhagsáætlun sem mögulegt er að hafa áhrif á. Það er gagnrýnivert að ekki sé unnið með raunniðurskurð í áætlunargerðinni. Samfylkingin óskar eftir samanburði við önnur sveitarfélög hvað varðar niðurskurð til íþrótta- og tómstundamála. Hagræðingartillögur meirihluta stjórnar ÍTR koma að langmestu leyti, eða um 53#PR fram í niðurskurði á byggingarstyrkjum til íþróttafélaga. Eins er gert ráð fyrir nær 10#PR hagræðingu á þjónustusamninga við íþróttafélög. Samfylkingin óskar eftir yfirliti um raunniðurskurð á styrkjum til hvers íþróttafélags, í krónum talið. Samfylkingin átelur hugmyndir um að frístundaheimili verði lokuð á starfs- og foreldradögum skóla, og í jóla – og páskafríum. Það er hiklaust brot á leiðarljósum borgarstjórnar um að grunnþjónusta verði ekki skert. Eins er það átalið að forsendur í rekstri frístundaheimilanna geri einungis ráð fyrir 2.600 börnum að meðaltali í fullri vistun. Nú dvelja um 3000 börn í frístundaheimilum og litlar líkur taldar á að þeim fækki næsta vetur. Samfylkingin óskar eftir yfirliti um raunniðurskurð á hverja frístundamiðstöð og hvert frístundaheimili. Afar brýnt er að stjórn ÍTR hafi heildarhagsmuni barna í borginni í huga þegar forgangsraðað er fjármagni, m.t.t. íþróttamála og tómstundamála, grunnþjónustu og viðbótarþjónustu. Samfylkingin fagnar fyrirheitum um að fjármagn til atvinnumála ungs fólks verði ekki skorið niður. Þó er það áhyggjuefni að fjármagn til atvinnumála standi í stað þar sem öll önnur svið borgarinnar hafa skorið niður sumarstörf í miklum mæli og því ljóst að Reykjavíkurborg mun ekki sinna mikilvægu hlutverki sínu sem atvinnuveitandi fyrir ungt fólk næsta sumar. Samfylkingin varar við frekari breytingum á starfsemi þjónustumiðstöðvanna með hugmyndum um flutning frístundaráðgjafa. Allar slíkar breytingar eru til þess fallnar að grafa undan árangri í forvarnarstarfi og hugmyndafræði um þverfaglega nærþjónustu í hverfum borgarinnar. Enn er óvissa um um framtíð ,,félagsmiðstöðvahópa“ fyrir unglinga í áhættuhópi yfir sumartímann. Það verkefni er afar mikilvægt fyrir viðkvæman hóp unglinga auk þess sem það tryggir öflugum starfsmannahópi fastráðningu á ársgrundvelli. Í fjárhagsáætlunarferlinu öllu hefur skort á yfirsýn. Forgangsröðun milli sviða er gríðarlega mikilvæg við slíkar aðstæður í efnahagsmálum. Brýnt er að áður en fjárhagsáætlun fyrir Reykjavíkurborg verður samþykkt í borgarstjórn hafi kjörnir fulltrúar kynnt sér leiðbeinandi viðmið um forgangsröðun í atvinnumálum sem Atvinnumálahópur borgarinnar hefur unnið, sérstaklega það sem snertir starfsfólk með tímabundna ráðningu. Reykjavíkurborg verður að sýna ábyrgð sem atvinnurekandi að þessu leyti og horfa til allra sviða borgarinnar.
Fulltrúar Samfylkingarinnar geta ekki stutt framlagða starfs- og fjárhagsáætlun.

Lögð fram eftirfarandi bókun Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafna gagnrýni fulltrúa Samfylkingar og Vinstri grænna á fjárhagsáætlun íþrótta- og tómstundaráðs fyrir árið 2010. Víðtækt samstarf hefur verið haft við gerð áætlunarinnar. Kostað hefur verið kapps um að hagræða í þágu barna og ungmenna og að víðtæk þjónusta ÍTR sem og frjálsra félaga og samtaka standi borgarbúum áfram til boða þrátt fyrir óhjákvæmilega hagræðingu.

Fundi slitið kl. 12.30

Kjartan Magnússon

Valgerður Sveinsdóttir Björn Gíslason
Snorri Þorvaldsson Sóley Tómasdóttir
Stefán Jóhann Stefánsson Oddný Sturludóttir.