Innkauparáð
INNKAUPARÁÐ
Ár 2004, miðvikudaginn 13. október, var haldinn 64. fundur innkauparáðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13:03. Viðstaddir voru Hrólfur Ölvisson, Jóhannes Sigursveinsson og Haukur Leósson. Jafnframt sátu fundinn Sjöfn Kristjánsdóttir, forstjóri Innkaupastofnunar, Ólafur Kr. Hjörleifsson, skrifstofustjóri borgarstjórnar, og Sigurbjörg Sigurjónsdóttir, fulltrúi skrifstofustjóra borgarstjórnar, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram bréf yfirverkfræðings hjá Gatnamálastofu, mótt. 6. þ.m., þar sem óskað er heimildar til að framlengja um eitt ár verksamning við Hellur og Gras ehf. frá 2002, um viðgerðir á gangstéttum.
Frestað.
Gatnamálastjóri sat fundinn við meðferð málsins.
2. Lagt fram bréf gatnamálastjóra, dags. 12. þ.m., varðandi útboð á hálkuvörnum og snjóhreinsun gatna árin 2004-2008, þar sem lagt er til að tekið verði tilboði lægstbjóðanda, Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf., að fjárhæð kr. 739.448.000. Jafnframt lagt fram bréf Innkaupastofnunar um skoðun á fjárhag Malbikunarstöðvarinnar Höfða hf. og Vélamiðstöðvarinnar ehf., dags. 12. þ.m.
Frestað.
Gatnamálastjóri, sat fundinn við meðferð málsins.
3. Lagt fram bréf Klæðningar ehf. til borgarráðs, dags. 30. f.m., sem vísað var til umsagnar innkauparáðs með bréfi skrifstofustjóra borgarstjórnar, dags. 12. þ.m.
Bókun innkauparáðs:
Á fundi innkauparáðs 9. júní sl. var tekin sú ákvörðun að tillögu gatnamálastjóra að fella útboðið ”Vesturhöfn, gatnagerð, lagnir og dælustöð” úr gildi og hafna öllum framkomnum tilboðum. Framkvæmdastjóri Klæðningar ehf., eins bjóðenda, gerði athugasemdir við þetta með bréfi, dags. 22. júní, sem innkauparáð vísaði til umsagnar forstjóra Innkaupastofnunar og skrifstofustjóra borgarstjórnar 8. júlí. Á fundi innkauparáðs 14. júlí voru umsagnirnar lagðar fram og samþykktar, og Klæðningu ehf. tilkynnt þar um. Framkvæmdastjóri Klæðningar ehf. gerði frekari athugasemdir með bréfi dags. 27. september, sem lagt var fram á fundi innkauparáðs 29. s.m. ásamt afriti af bréfi forstjóra Innkaupastofnunnar frá 24. s.m., og á þann fund mættu fulltrúar Klæðningar ehf. og gerðu grein fyrir sjónarmiðum sínum. Að þeim fundi loknum gerði framkvæmdastjóri Klæðningar ehf. enn athugasemdir, nú með bréfi til borgarráðs, dags. 30. september, sem vísað hefur verið til umsagnar ráðsins.
Í framangreindum bréfaskriftum framkvæmdastjóra Klæðningar ehf. koma fram ýmsar fullyrðingar, m.a. þess efnis að innkauparáð ”mismuni fyrirtækjum með því að sveigja og beygja innkaupareglur Reykjavíkurborgar”. Hefur framkvæmdastjórinn vísað munnlega til tveggja tilgreindra dæma því til stuðnings. Innkauparáð hefur þegar kannað þau tilvik sem framkvæmdastjórinn vísaði til og staðfest að enginn fótur er fyrir fullyrðingum hans. Að öðru leyti hefur framkvæmdastjóri Klæðningar ehf. engin rök fært fyrir sínu máli.
Fundi slitið kl. 14:20
Hrólfur Ölvisson
Haukur Leósson Jóhannes Sigursveinsson