Innkauparáð - Fundur nr. 471

Innkauparáð

Ár 2019, fimmtudaginn 5. desember, var haldinn 471. fundur Innkauparáð. Fundurinn var haldinn í Vogum og hófst klukkan 16:39. Viðstödd voru Sabine Leskopf, Alexandra Briem, Björn Gíslason. Fundarritari:

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram erindi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2019, þar sem erindi dags. 27. nóvember 2019 varðandi EES útboð nr. 14356 Rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa, sem frestað var á síðasta fundi, er dregið til baka. R19100308. 

    Samþykkt.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nú hefur borgin hætt við útboðið og áformar að verkefnið verði boðið út að nýju. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði fagnar þessari niðurstöðu enda vakti hann athygli á þeim ágöllum sem voru í útboðinu. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks í innkaupráði vill beina því til kaupanda að þegar og ef útboðið fer fram að nýju að fyrirtækjum verði tryggt jafnræði og gætt verði að því að tryggja virka samkeppni eins og kostur er.   

    Fulltrúar Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar Samfylkingar og Pírata árétta að þeir ágallar sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur fjallað um eru ekki til grundvallar þess að útboðið hafi verið dregið til baka og ákveðið að endurtaka það. Einungis er um formgalla að ræða og ekki ber að líta á þessa ákvörðun sem samþykki á þeim ágöllum sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur haldið fram að megi finna í upphaflegri útboðslýsingu. Að auki árétta fulltrúar Samfylkingar og Pírata að ákaflega óheppilegt sé að pólitískir fulltrúar setji sig í þá stöðu að þeir gætu virst ganga erinda tiltekinna markaðsaðila með yfirlýsingum um ágalla útboða, sem ekki er hægt að sýna fram á að standist skoðun. Slíkt getur skaðað stöðu Reykjavíkurborgar til að ná markmiðum sínum í útboðum.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði áréttar að á engan hátt er verið að ganga erinda einhvers aðila eins og gefið er í skyn í bókun meirihluta innkauparáðs. Dylgjur í þessa veru er með öllu ólíðandi.

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram að nýju svar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 27. nóvember 2019, við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokksins varðandi EES útboð nr. 14356 Rammasamningur um stýribúnað umferðarljósa, sbr. 1. lið fundargerðar innkauparáðs frá 18. nóvember 2019. R19100308. Frestað á síðasta fundi.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði gerði athugasemdir við útboð nr. 14356, rammasamning um stýribúnað umferðarljósa. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskaði eftir svörum við spurningum vegna umrædds útboðs. Í svari borgarinnar við spurningu 3, þar sem m.a. var spurt hvers vegna útboðslýsingin væri jafn sérhæfð og raun ber vitni, segir: „Bjóðendur skulu skv. útboðinu tryggja að búnaður sá sem boðinn er hafi fulla virkni við núverandi umferðarljósakerfi.“  Að mati fulltrúa Sjálfstæðisflokksins er borgin hér að setja skilyrði, með því að lýsa tiltekinni virkni, sem aðrir framleiðendur eiga takmarkaða möguleika á að bjóða í. Í þessu sambandi vill fulltrúi Sjálfstæðisflokks í innkaupráði árétta þær áherslur hans að fyrirtækjum sé gert að keppa á jafnræðisgrundvelli þegar kemur að útboðum sem þessum enda er hér um verulegar upphæðir að ræða. Þá kemur fram í svari við spurningu 4. að um útboðið gildi lög um opinber innkaup nr. 120/2016. Í lögum 65/1993  um framkvæmd útboða er þess sérstaklega getið í 8 gr. að lesa skuli upp nöfn bjóðenda og heildarupphæð tilboða. Nú hefur borgin hætt við útboðið og áformar að verkefnið verði boðið út að nýju. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í innkauparáði fagnar þessari niðurstöðu. 

    Fulltrúar Samfylkingar og Pírata leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

    Fulltrúar Samfylkingar og Pírata árétta að í rammasamningum er ekki alltaf hægt að lýsa heildar kostnaðaráætlun, enda ekki fyrirséð hver heildarinnkaup samkvæmt slíkum samningum kunni að verða og ljóst er að lög um opinber innkaup gilda framar þegar kemur að upplestri tilboða og kostnaðaráætlun í rammasamningi á EES svæðinu. Inngrip pólitískra aðila í svona ferli er mjög varhugavert á þessum tímapunkti. Það hlýtur að teljast eðlilegt verklag þó að gera ráð fyrir í útboði að sá búnaður sem borginn á fyrir nýtist áfram, en fyrirséð er að kostnaður við að skipta út öllum ljósastýringum í borginni myndi hlaupa á milljörðum. 

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    –    Kl. 13:36 víkur Eyþóra K. Geirsdóttir af fundi.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram erindi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, dags. 4. desember 2019, þar sem lagt er til að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda, Gleipni verktaka ehf. í útboði nr. 14684 Vogabyggð 2. Súðarvogur - Kuggavogur, gatnagerð og lagnir. R19110055.

    Samþykkt.

    Ámundi Brynjólfsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram erindi velferðasviðs Reykjavíkurborgar, dags. 27. nóvember 2019, varðandi beiðni um heimild til að ganga til samninga við Rannsóknir og greiningu ehf. á grundvelli 

    b. liðar 26. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar. R19010001.

    Samþykkt.

        Innkauparáð leggur fram svohljóðandi bókun:

    Innkauparáð fagnar því að í þessum samningi er tilgreint að Velferðarsvið eigi höfundarrétt á úrvinnslum og sérritum sem unnar eru fyrir Velferðasvið sem hluti af þessari rannsókn ásamt Rannsóknum og greiningu, en það er mikilvægt að tryggja að Reykjavíkurborg eigi sjálfstæðan aðgang og afnotarétt af þeim niðurstöðum sem verða til í rannsóknum sem borgin er aðili að.

    Kristín Ösp Jónsdóttir og Stefanía Sörheller taka sæti á fundinum undir þessum lið

    Fylgigögn

  5. Lagt fram erindi íþrótta- og tómstundaviðs Reykjavíkurborgar, dags. 3. desember 2019, varðandi heimild til kaupa á gámum frá Flutningatækni ehf. vegna aðstöðumála í Fjölskyldugarðinum, á grundvelli  a. liðar 15. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar. R19010001.

    Samþykkt.

    Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram yfirlit innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar, dags. 2. desember 2019, yfir verkefni innkaupaskrifstofu f.h. skrifstofa og sviða í nóvember 2019. R19010001.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 14:00

Sabine Leskopf Alexandra Briem