Innkauparáð - Fundur nr. 39

Innkauparáð

INNKAUPARÁÐ


Ár 2004, miðvikudaginn 11. febrúar, var haldinn 39. fundur innkauparáðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.00. Viðstaddir voru Hrólfur Ölvisson, Jóhannes Sigursveinsson og Haukur Leósson. Jafnframt sátu fundinn Sjöfn Kristjánsdóttir frá Innkaupastofnun og Ólafur Kr. Hjörleifsson, sem ritaði fundargerð.


Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf gatnamálastjóra frá 9. þ.m. varðandi lokað útboð vegna kaupa, hönnunar og uppsetningar á dælum og stjórnbúnaði í skólpdælustöð í Örfirisey, þar sem lagt er til að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda, Fálkans hf., að fjárhæð kr. 10.486.000,-.
Samþykkt.
Sigurður I. Skarphéðinsson, gatnamálastjóri, sat fundinn við meðferð málsins.

2. Lögð fram kæra Uppdælingar ehf. til kærunefndar útboðsmála vegna útboðs á hreinsun holræsa í Reykjavík, dags. 30. f.m. Jafnframt lögð fram umsögn borgarlögmanns til kærunefndarinnar, dags. 6. þ.m.

3. Lagt fram yfirlit Innkaupastofnunar frá 4. þ.m. yfir veitta þjónustu við stofnanir og fyrirtæki borgarinnar í janúar 2004.

4. Lagt fram bréf forstöðumanns Fasteignastofu frá 3. þ.m. varðandi val á þátttakendum í lokuðu útboði vegna raflagna og stjórnbúnaðar í Sundmiðstöð í Laugardal, þar sem lagt er til að valdir verði eftirtaldir aðilar: RLR rafverktakar sf., Keflavíkurverktakar hf., Rafrún ehf., Samey, Straumvirki ehf. og Harald og Sigurður ehf. Jafnframt lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 6. þ.m. varðandi skoðun á fjárhag aðila.
Samþykkt.
Kristinn J. Gíslason og Þorkell Jónsson frá Fasteignastofu sátu fundinn við meðferð málsins.

5. Lagt fram bréf forstöðumanns Fasteignastofu frá 3. þ.m. varðandi val á þátttakendum í lokuðu útboði vegna múrverks og flísalagna í Sundmiðstöð í Laugardal. Jafnframt lagt fram bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 6. þ.m. varðandi skoðun á fjárhag aðila.
Með vísan til bréfs forstjóra Innkaupastofnunar er samþykkt að velja eftirtalda aðila: Hansen verktakar ehf., Múr- og málningarþjónustan Höfn ehf. og Múrlínan ehf.
Kristinn J. Gíslason og Þorkell Jónsson frá Fasteignastofu sátu fundinn við meðferð málsins.

6. Lagt fram bréf forstöðumanns Fasteignastofu, dags. í dag, varðandi lokað útboð á lagnakerfum í Sundmiðstöð í Laugardal, þar sem lagt er til að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda, Rennsli ehf., að fjárhæð kr. 78.964.310,-.
Samþykkt.
Kristinn J. Gíslason og Þorkell Jónsson frá Fasteignastofu sátu fundinn við meðferð málsins.

7. Lögð fram að nýju kvörtun Othars Arnar Petersen hrl., f.h. Ístaks hf., varðandi útboð á byggingu nýs grunnskóla í Staðahverfi, dags. 27. f.m. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar um kvörtunina, dags. 9. þ.m.
Umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar samþykkt.

8. Lagt fram erindi Jóhannesar Karls Sveinssonar hrl., dags. 10. þ.m., þar sem hann, f.h. Íslenskra aðalverktaka hf., gerir athugasemdir við útboð á byggingu nýs grunnskóla í Staðahverfi. Jafnframt lögð fram umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar um erindið, dags. í dag.
Umsögn skrifstofustjóra borgarstjórnar samþykkt.

9. Lagðar fram athugasemdir framkvæmdastjóra Íslenska gámafélagsins ehf. frá 4. þ.m. varðandi verðfyrirspurn vegna kaupa á sorpkerjum fyrir Umhverfis- og heilbrigðisstofu, sbr. einnig bréf forstjóra Innkaupastofnunar, dags. 9. s.m.
Þar sem ákvörðun um kaupin liggur ekki fyrir er athugasemdunum vísað til Innkaupastofnunar til skoðunar við meðferð málsins.

- Kl. 14.05 vék Sjöfn Kristjánsdóttir af fundi.

10. Lagt fram bréf deildarstjóra rekstrardeildar Fræðslumiðstöðvar frá 2. þ.m. varðandi kaup á matarþjónustu vegna Laugalækjarskóla, þar sem óskað er eftir heimild til að auka kaup á matarskömmtum af Eldhúsi sælkerans um 250-270 skammta á dag, samtals að fjárhæð um kr. 2.000.000,-.
Samþykkt.

Fundi slitið kl. 14.15.

Hrólfur Ölvisson

Jóhannes Sigursveinsson Haukur Leósson