Innkauparáð - Fundur nr. 214

Innkauparáð

INNKAUPARÁÐ


Ár 2010, þriðjudaginn 12. maí var haldinn 214. fundur innkauparáðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 9.00. Viðstaddir voru Hallur Magnússon, Vilhjálmur Andri Kjartansson og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt sátu fundinn Ólafur Jónsson innkaupastjóri á Innkaupaskrifstofu, Eyþóra K. Geirsdóttir lögfræðingur á skrifstofu Borgarlögmanns og Helgi Bogason deildarstjóri á Innkaupaskrifstofu sem jafnframt ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:


1. Yfirferð á lokadrögum heildarendurskoðaðra Innkaupareglna Reykjavíkurborgar.
Bókun fulltrúa Samfylkingar:
Það hefur tekið meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur ríflega þrjú ár að koma með tillögur að nýjum innkaupareglum fyrir borgina á grunni nýrra laga sem tóku gildi árið 2007. Jafnframt hefur þetta verk varað tæplega þremur árum lengur en ætlað var. Þetta er til marks um þá litlu áherslu sem þessi meirihluti hefur lagt á gæði innkaupamála. Meirihlutinn hefur haldið innkauparáði og pólitískt kjörnum fulltrúum að mestu frá vinnslu málsins, og hefði aðkoma þeirra nánast engin verið ef ekki hefði verið fyrir ítrekaðar fyrirspurnir fulltrúa Samfylkingar. Þá hefur umsagnarferli verið ábótavant og tækifærið ekki verið notað til að setja skýrt niður siðareglur og félagsleg viðmið t.d. með endurskoðun á innkaupastefnu. Af þessum sökum getur fulltrúi Samfylkingar í ráðinu ekki samþykkt fyrirliggjandi drög að nýjum innkaupareglum og situr því hjá við afgreiðslu málsins. Að öðru leyti vísast í meðfylgjandi greinargerð.
Greinargerð fylgir með bókun.
Bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Endurskoðun innkaupareglna Reykjavíkurborgar hafa staðið í á annað ár frá því meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við að nýju. Vert er að benda fulltrúa Samfylkingar á að lög um opinber innkaup nr. 84/2007 tóku gildi 16. apríl 2007 og erindisbréf vegna verksins var lagt fram 11. maí 2007. Í ljósi fyrirliggjandi bókunar fulltrúa Samfylkingarinnar er vert að rifja upp að frá þeim tím hefur Samfylkingin verið um tíma í meirihluta borgarstjórnar og leiðtogi Samfylkingarinnar borgarstjóri. Einnig meirihluti Sjálfstæðisflokks og F-lista. Því er ekki sæmandi að saka meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks um seinagang. Starfsfólk Innkaupaskrifstofu og borgarlögmanns hafa í samvinnu við fjölda annarra starfsmanna Reykjavíkurborgar á afar vandaðan hátt unnið að endurskoðun reglnanna. Fyrir það skal þakkað.
Drög að nýjum innkaupareglum voru fyrst kynnt Innkauparáði þann 19. mars 2010.
Innkauparáð hefur yfirfarið sameiginlega fyrirliggjandi drög lið fyrir lið og gert breytingar á einstökum greinum reglnanna. Tekið hefur verð tillti til allra athugasemda fulltrúa Samfylkingarinnar í þeirri vinnu.
Það er því með ólíkindum að þegar Innkauparáð hefur farið ítarlega yfir innkaupareglurnar og afgreitt breytingar sameiginlega og formaður Innkauparáðs hugðist leggja þær fram til samþykktar skuli fulltrúi Samfylkingarinnar fyrst kalla eftir vinnugögnum starfsfólks Innkaupaskrifstofu og borgarlögmanns vegna reglnanna.
Eðlilegt hefði verið að kalla eftir slíkum gögnum fyrr.
Ekki verður betur séð en að fulltrúi Samfylkingarinnar reyni að gera vinnu starfsfólks Innkauparáðs tortryggilega í annarlegum pólitískum tilgangi rétt fyrir kosningar.
Í innkaupareglunum er staða Innkaupaskrifstofu og Innkauparáðs gagnvart sviðum og stofnunum borgarinnar styrkt og öflugri rammi settur um fagleg innkaup Reykjavíkurborgar. Slíkt er nauðsynlegt til að halda áfram þeim góða árangri sem náðst hefur á grunni innkaupaferla Reykjavíkurborgar undanfarin 2 ár.
Ljóst er að ef Innkauparáð samþykkir ekki fyrirliggjandi tillögu að innkaupareglum mun Reykjavíkurborg ekki getað vísað í vistvæn innkaup í umsókn sinni um að Reykjavík verði tilnefnd græn borg Evrópu.
Þrátt fyrir það leggur meirihluti Innkauparáðs vegna síðbúinna athugasemda fulltrúa Samfylkingarinnar og fyrirliggjandi bókunar að fresta afgreiðslu innkaupareglnanna og fela nýju Innkauparáði að ganga endanlega frá samþykkt þeirra þar sem mikilvægt er að reglurnar sé samþykktar í sátt.
Bókun fulltrúa Samfylkingar:
Það skal ítrekað að fulltrúi Samfylkingar leggst ekki gegn afgreiðslu reglnanna heldur situr hjá þar sem aðkoma ráðsins hefur verið ófullnægjandi. Ennfremur hefur ekki gefist ráðrúm til að kalla eftir gögnum fyrr þar sem málið hefur ekki verið tekið inn á borð ráðsins fyrr, þrátt fyrir fyrirspurnir. Meirihlutinn sýndi ekkert frumkvæði að því sjálfur að kalla eftir gögnum en á það skal bent að með hliðsjón af þeim hefur náðst sátt um vissar breytingar á drögum að innkaupareglum. Meirihlutanum er því ekkert að vanbúnaði að afgreiða þessar reglur hafi hann á annað borð áhuga á því. Fulltrúi Samfylkingarinnar hefur samviskusamlega tekið þátt í yfirferð og endurbátum á reglunum en ítrekar að vegna þess hvernig vinnsla málsins hefur verið þá situr hann hjá við afgreiðslu málsins. Minnt skal á að starfshópur um málið var settur á laggirnar 4. janúar 2007.
Bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Meirihlutinn ítrekar að drög að nýjum innkauprareglum voru formlega lögð fram 19. mars 2010. Um þau hefur verið fjallað í Innkauparáði á nokkrum fundum. Ósk fulltrúa Samfylkingar um vinnugögn var borin fram í gær, 11. maí 2010 eftir að ráðið hafði í sameiningu farið yfir reglurnar lið fyrir lið og tillit tekið til allra ábendinga fulltrúa Samfylkingarinnar.
Bókun fulltrúa Samfylkingar:
Drög að innkaupareglum hefur legið fyrir í mun lengri tíma en fram kemur í bókun meirihlutans. Á það skal jafnframt minnt að erfitt getur verið að kalla eftir gögnum sem ekki er vitað um eða þegar mál er ekki til umfjöllunar. Að lokum skal það ítrekað að það er algjörlega á ábyrgð meirihlutans að afgreiða ekki fyrirliggjandi drög að reglunum.
Bókun fulltrúa Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks:
Í ljósi þess hversu mikilvægt meirihlutinn telur að sátt, samráð og friður sé um innkaupareglur borgarinnar teljum við eðlilegt að málin sé frestað og nýtt innkauparáð taki afstöðu til þeirra.

Málinu frestað.
Fulltrúi Samfylkingar situr hjá við afgreiðslu málsins.

2. Fyrirspurn fulltrúa Samfylkingar:
Óskað er eftir að á næsta fundi verði kynnt vinna í sambandi við siðareglur í innkaupamálum.


Fundi slitið kl. 11.31

Hallur Magnússon

Vilhjálmur Andri Kjartansson Stefán Jóhann Stefánsson