Innkauparáð
INNKAUPARÁÐ
Ár 2007, miðvikudaginn 10. janúar var haldinn 131. fundur innkauparáðs. Fundurinn var hald¬inn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12:10. Viðstaddir voru Ingólfur Sveinsson, Marta Guðjónsdóttir og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt sátu fundinn Guðbjörg Eggertsdóttir, deildarstjóri innkaupa- og rekstrarskrifstofu, Helgi Bogason, sérfræðingur á innkaupa- og rekstrarskrifstofu og Eyþóra K. Geirsdóttir, lögfræðingur á lögfræðiskrifstofu sem jafnframt ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt fram erindi Framkvæmdasviðs dags. 9. janúar sl. þar sem lagt er til að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda, Hreinsitækni ehf., í útboðinu „Hreinsun gatna og gönguleiða 2007 – 2009, Útboð II“.
Sighvatur Arnarsson, Framkvæmdasviði, og Tryggvi Jónsson, ráðgjafi frá Hönnun, kynntu erindið.
Innkauparáð samþykkti erindið.
2. Lagt fram erindi innkaupa- og rekstrarskrifstofu dags. 8. janúar sl. um að gengið verði að tilboði lægstbjóðanda, Olíuverslunar Íslands hf., í útboðinu „Eldsneyti fyrir Reykjavíkurborg“.
Innkauparáð samþykkti erindið.
3. Kynnt tillaga borgarstjóra sem samþykkt var á fundi borgarráðs 4. janúar sl. um heildarendurskoðun innkaupareglna Reykjavíkurborgar. Drög að þessum reglum verða kynnt fyrir innkaupaáði þegar þau liggja fyrir.
4. Lagt fram yfirlit Innkaupa- og rekstrarskrifstofu yfir viðskipti sviða við skrifstofuna í desember 2006.
5. Fulltrúi Samfylkingar óskaði eftir því að Innkaupa- og rekstrarskrifstofa kynni innkauparáði væntanlega skýrslu frá Framkvæmdasviði um hvað hæft sé í fullyrðingum borgarstjóra á borgarstjórnarfundi 19. desember sl. um að nánast ekkert af aðkeyptri sérfræðiþjónustu fyrir 830 milljónir króna á fyrstu 10 mánuðum ársins 2006 hafi verið boðin út. Þær tölur voru sagðar frá starfshópi um bættan rekstur borgarinnar. Eftir fund borgarstjórnar hefur hins vegar komið í ljós að þessar upplýsingar þarfnast nánari skýringa.
Meirihluti innkauparáðs óskaði bókað:
Vísum á bug þeim fullyrðingum sem fram koma í bókun fulltrúa Samfylkingarinnar að borgarstjóri hafi ekki farið með rétt mál á fundi borgarstjórnar 19. desember sl. varðandi útboð á aðkeyptri sérfræðiþjónustu fyrstu 10 mánuði ársins 2006. Málflutningur borgarstjóra byggðist á bókhaldsgögnum borgarinnar sem ekki hafa verið dregin í efa.
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskaði bókað:
Fram hafa komið upplýsingar um að í þeim bókhaldsgögnum sem stuðst var við hafi ekki verið skráð útboð með réttum hætti og því er sú fjárhæð sem borgarstjóri nefndi ekki rétt. Auk þess er ekki tekið tillit til einkaréttar á hönnun og breytingum á byggingum. Hins vegar tek ég að sjálfsögðu undir það sjónarmið að bjóða eigi sem mest út til að ná sem hagstæðustum innkaupum.
Fulltrúar meirihluta innkauparáðs óskaði bókað:
Í bókun fulltrúa Samfylkingar felst viðurkenning á því að borgarstjóri hafi byggt heimildir sínar á bókhaldsgögnum borgarinnar og skráðum útboðum.
6. Fulltrúi Samfylkingar óskaði bókað:
Á fundi innkaupaáðs 22. nóvember sl. lagði fulltrúi Samfylkingar í innkauparáði fram fyrirspurnir í tilefni af svörum sem gefin voru á fundinum um viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Eirar dags. 18. október 2006. Þessum fyrirspurnum hefur ekki enn verið svarað. Óskað er eftir því að þeim verði svarað sem fyrst. Í þessu samhengi skal minnt á að formaður borgarráðs hefur opinberlega látið hafa eftir sér að mistök hafi verið gerð við samningu áðurnefndrar viljayfirlýsingar. Þá má ætla miðað við minnisblað frá lögfræðiskrifstofu borgarinnar að viljayfirlýsingin sé ósamrýmanleg innkaupareglum Reykjavíkurborgar, auk þess sem bent hefur verið á að hún sé ekki í samræmi við stofnsamþykktir Eirar.
Meirihluti innkauparáðs óskaði bókað:
Bent er á að umrætt minnisblað hafi ekki verið unnið í tengslum við þessa tilteknu viljayfirlýsingu.
Fulltrúi Samfylkingarinnar óskaði bókað:
Í umræddu minnisblaði frá lögfræðiskrifstofu var niðurstaðan sú að bygging menningarmiðstöðvar, sem sett var inn í viljayfirlýsinguna, væri útboðsskyld ekki aðeins innanlands heldur á Evrópska efnahagssvæðinu og því í fyllsta máta óeðlilegt að afhenda félagi svo mikið verk.
Meirihluti innkauparáðs óskaði bókað:
Ítrekað er að umrætt minnisblað var ekki unnið í tengslum við umrædda viljayfirlýsingu og að engir samningar verið undirritaðir enn sem komið er. Tekið skal fram að umrædd viljayfirlýsing samræmist fullkomlega innkaupareglum Reykjavíkurborgar.
Fundi slitið kl. 14:25.
Ingólfur Sveinsson
Marta Guðjónsdóttir Stefán Jóhann Stefánsson