Innkauparáð
INNKAUPARÁÐ
Ár 2006, miðvikudaginn 22. nóvember, var haldinn 128. fundur innkauparáðs. Fundurinn var hald¬inn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:10. Viðstaddir voru Ingólfur Sveinsson, Marta Guðjónsdóttir og Stefán Jóhann Stefánsson. Jafnframt sátu fundinn Ólafur Jónsson, skrifstofustjóri innkaupa- og rekstrarskrifstofu, Helgi Bogason, sérfræðingur á innkaupa- og rekstrarskrifstofu, Guðbjörg Eggertsdóttir, deildarstjóri á innkaupa- og rekstrarskrifstofu, og Eyþóra K. Geirsdóttir, lögfræðingur á lögfræðiskrifstofu sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Viljafyirlýsing Reykjavíkurborgar og Eirar dags. 18. október 2006. Fulltrúi Samfylkingar lagði fram fyrirspurnir varðandi svar borgarstjóra sem lagt var fram á fundi borgarráðs hinn 16. nóvember sl.:
1. Borgarstjóri skipaði í stýrihóp vegna búsetuúrræða og framkvæmda í þágu eldri borgara hinn 22. júní 2007. Hverjir voru skipaðir í hópinn? Hvaða sjónarmið lágu að baki vals í hópinn? Hvert er hlutverk og umboð hópsins? Hefur hópurinn haldið fundargerðir? Ef svo er óskast þær kynntar. Hefur hópurinn skilað skýrslu? Ef svo er óskast hún kynnt.
2. Fram kemur að stýrihópurinn hafi óskað eftir ráðgjöf lögfræðiskrifstofu stjórnsýslu- og starfsmannasviðs og hafi starfsmaður skrifstofunnar mætt á fund stýrihópsins 22. september 2007. Þar hafi stýrihópnum verið veitt ráðgjöf þar sem lögð er áhersla þá meginreglu að viðhafa skuli útboð í sem mestum mæli. Liggur álit skrifstofunnar fyrir skriflega? Sé svo óskast það kynnt.
3. Alls skiluðu 15 aðilar viljayfirlýsingum um samstarf samkvæmt auglýsingu. Hvaða aðilar eru þetta? Hvað kemur fram í viljayfirlýsingunum?
4. Hvernig hljóðaði verk- og útboðslýsing sem lá tilboðum eða viljayfirlýsingum þessara 15 aðila til grundvallar? Var það einungis auglýsingin sem birt var í blöðum? Er til fundargerð um samþykkt verk- og úboðslýsingar?
5. Hvaða atriði réðu vali á þeim tveim sem valdir voru? Er til fundargerð frá opnun tilboða eða bréfa með viljayfirlýsingum þeirra? Er til fundargerð frá þeim fundi sem leiddi til útilokunar 13 aðila? Hver samþykkti þá tvo sem valdir voru úr?
6. Málið er stórt á mælikvarða borgarinnar og innkaupareglna og það verður að teljast eðlilegt að innkauparáð fjalli um málið. Hvers vegna voru áðurnefndar viljayfirlýsingar 15 aðila ekki kynntar í innkauparáði Reykjavíkurborgar?
7. Hver er ástæðan fyrir því að auglýsing um samstarfsaðila fjallaði ekkert um menningarmiðstöð en hún var allt í einu komin inn í sameiginlega viljayfirlýsingu Eirar og Reykjavíkurborgar?
8. Hvaða aðrir staðir komu til greina en Spöngin og Sléttuvegur? Af hverju voru þessir aðrir staðir útilokaðir? Hver útilokaði þá?
9. Hvernig getur það verið grundvöllur þess að taka menningarmiðstöðina með í hina sameiginlegu viljayfirlýsingu Eirar og Reykjavíkurborgar að gert var ráð fyrir fjárveitingu á framkvæmdaáætlun framkvæmdasviðs, eins og fram kemur í svari borgarstjóra?
10. Í auglýsingu er aðeins talað um byggingu þjónustuíbúða og fleira. Hvergi er í auglýsingu minnst á rekstur. Samræmist það góðri stjórnsýslu að viljayfirlýsing Eirar og borgar fjalli um rekstur og annað en fram kom í auglýsingunni?
2. Fram kemur að vinnuhópur á vegum borgarstjóra hafi skilað áliti þar sem mælt var með byggingu menningarmiðstöðvar. Hvenær var þessi vinnuhópur skipaður? Hverjir voru skipaðir í hann? Á hvaða forsendum? Hefur vinnuhópurinn skráð fundargerðir? Ef svo er óskast þær kynntar. Hefur vinnuhópurinn skilað skýrslu? Ef svo er óskast hún kynnt.
3. Fram kemur í svari borgarstjóra að nauðsynlegt hafi þótt að samþætta byggingu menningarmiðstöðvar byggingu þjónustu- og öryggisíbúða. Hvers vegna er ekki hægt að aðskilja þessi tvö verkefni?
4. Formaður borgarráðs hefur lýst því yfir að það hafi verið mistök að hafa framkvæmd vegna menningarmiðstöðvar í sameiginlegri yfirlýsingu Eirar og Reykjavíkurborgar. Í hverju felast mistökin? Óskað er eftir því að formaður borgarráðs svari því skriflega.
5. Þar sem um mistök voru að ræða hlýtur hin sameiginlega viljayfirlýsing að vera úr gildi fallin. Er þess vegna ekki þörf á að taka málið upp að nýju í heild sinni eða að minnsta kosti að breyta yfirlýsingunni?
6. Í svari borgarstjóra er greint frá þarfagreiningu undirbúningsnefndar. Hvenær var sú undirbúningsnefnd skipuð og á hvaða forsendum?
7. Á hvaða forsendum er framkvæmdastjóri eins af hjúkrunarheimilum á höfuðborgarsvæðinu í þessari undirbúningsnefnd? Er það rétt að arkitekt Eirar hafi unnið með nefndinni?
8. Verður það ekki að teljast óeðlilegt að framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilis sem vænta má að lýsi áhuga sínum á verkefninu taki með svo afgerandi hætti þátt í að móta forsendur verkefnisins eða vinnslu þess með þeim hætti sem lýst er?
9. Getur það verið tilviljun að einmitt það hjúkrunarheimili sem þessi framkvæmdastjóri stýrir verður fyrir valinu, svo sem fram kemur í hinni sameiginlegu viljayfirlýsingu Eirar og Reykjavíkurborgar?
10. Hvað kemur fram í þarfagreiningunni sem gerð var? Hún óskast kynnt.
11. Hverjir hafa komið á fund þessarar undirbúningsnefndar? Hefur nefndin haldið fundargerðir? Ef svo er óskast þær kynntar. Hefur þessi nefnd skilað skýrslu? Ef svo er óskast hún kynnt.
12. Í svari borgarstjóra segir að vegna formsatriða hafi verið talið rétt að hafa menningarmiðstöð í hinni sameiginlegu viljayfirlýsingu Eirar og Reykjavíkurborgar. Hvaða formsatriði eru þetta? (Þetta er orðað þannig í svari borgarstjóra að það hafi verið talið nauðsynlegt verkefninu til framdráttar í heild að hafa þetta inni í viljayfirlýsingunni til að tengja saman þessi tvö verkefni með formlegum hætti.)
13. Í svari borgarstjóra kemur fram að ekki verði samið beint við Eir öðruvísi en svo að það falli að innkaupareglum Reykjavíkurborgar og lögum um opinber innkaup. Í minnisblaði Veturliða Þórs Stefánssonar, lögfræðings, til Kristbjargar Stephensen, skrifstofustjóra, er þeirri spurningu svarað hvort Reykjavíkurborg sé heimilt að ganga til beinna samninga um byggingu þjónustu- og menningarmiðstöðvar í Spönginni. Svarið er það að verkið sé svo umfangsmikið að það sé útboðsskylt á EES-svæðinu. Er af þessu ekki ljóst að það brýtur í bága við öll eðlileg viðmið í þessu samhengi að fela Eir byggingu og rekstur menningarmiðstöðvarinnar?
14. Reykjavíkurborg er aðili að sjálfseignarstofnuninni EIR. Í skipulagsskrá segir í 2. grein að markmið og hlutverk stofnunarinnar sé að reisa og reka hjúkrunarheimili er veitir öldruðum umönnun og hjúkrun. Borgarstjóri vísar á EIR þegar hann er spurður að því hvort bygging og rekstur fasteigna af öðru tagi en tengist hjúkrunarstarfsemi fyrir aldraðra samrýmist samþykktum fyrir Eir. Þess vegna er óskað eftir því að kynntar verði fundargerðir stjórnar og fulltrúaráðs Eirar síðasta árið, auk ársskýrslna síðustu fjögur ár.
15. Óskað er eftir því að skjöl þau sem vísað er til í svari borgarstjóra og merkt eru CPC 93193, CPC 93329, CPC 93311, CPC 96193, reglugerð EB nr. 1232/98 frá 17. júní 1998 og nr. 3696/93 verði send innkauparáði sem fyrst til kynningar vegna þessa máls í tölvupósti eða á prenti. Jafnframt verði ráðinu kynnt þau atriði sem skipta máli og vísað er til í viðauka I B með lögum um opinber innkaup.
2. Fulltrúi Samfylkingar lagði fram svofellda bókun:
Samkvæmt innkaupastefnu Reykjavíkurborgar segir að við innkaup skuli fylgja ákvæðum laga og reglna í hvívetna. Jafnræðis skuli gætt gagnvart þeim sem eiga viðskipti við borgina, stuðlað skuli að samkeppni varðandi kaup á vörum, verkum og þjónustu og að við innkaup Reykjavíkurborgar sé beitt útboðum að eins miklu leyti og unnt er og hagkvæmt þykir. Með þeim málatilbúnaði sem lesa má út úr sameiginlegri viljayfirlýsingu Reykjavíkurborgar og Eirar, hjúkrunarheimilis, um byggingu og rekstur þjónustu- og menningarmiðstöðvar og þjónustu- og öryggisíbúða, verður ekki annað séð en farið hafi verið á svig við öll meginstefnumál og viðmið í innkaupamálum borgarinnar með því að ætla að fela hjúkrunarheimilinu byggingu og rekstur menningarmiðstöðvar. Ef fela á hjúkrunarheimilinu að byggja menningarmiðstöð er ekki með nokkru móti hægt að tryggja að innkaupareglum borgarinnar verði fylgt. Það verður heldur ekki séð að samþykktir fyrir sjálfseignarstofnunina Eir, sem Reykjavíkurborg er aðili að, heimili Eir að byggja og reka menningarmiðstöð , því í 2. grein skipulagsskrár fyrir stofnunina segir að markmið og hlutverk Eirar sé einungis að reisa og reka hjúkrunarheimili er veitir öldruðum umönnun og hjúkrun.
Fulltrúar meirihluta lögðu fram eftirfarandi bókun:
Með vísan til svars borgarstjóra í borgarráði þann 16. nóvember sl. vegna viljayfirlýsingar Reykjavíkurborgar og Eirar, hjúkrunarheimilis, er hægt að fullyrða að ekki verði samið beint við Eir öðruvísi en það falli að innkaupareglum Reykjavíkurborgar og lögum um opinber innkaup. Tekið skal fram að hjúkrunar- og félagsþjónusta við aldraða er í sjálfu sér ekki útboðsskyld sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um opinber innkaup og viðauka I. B með þeim lögum.
Fulltrúi Samfylkingar lagði fram eftirfarandi bókun:
Eftir stendur að formaður borgarráðs hefur opinberlega viðurkennt að það hafi verið mistök að bæta byggingu og rekstri menningarmiðstöðvar við texta viljayfirlýsingarinnar. Borgarstjóri hefur ekki tekið undir það sjónarmið en heldur fast við viljayfirlýsinguna. Verði hún látin standa og henni framfylgt án breytinga verður ekki annað séð en að farið verði á svig við meginstefnumál og markmið í innkaupamálum.
3. Lögð fram svör innkaupa- og rekstrarskrifstofu dags. 9. nóvember sl. við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingar sem fram komu á fundi innkauparáðs 9. október sl.
- Kl. 15.00 Kristbjörg Stephensen tók sæti á fundinum.
Innkauparáð óskar eftir því að þjónustu- og rekstrarskrifstofa gangi eftir svörum frá menntasviði, umhverfissviði og skipulags- og byggingarsviði.
- Kl. 15.15 Kristbjörg Stephensen vék af fundi.
4. Rætt um framkvæmd varðandi þær fjárhagskröfur sem gera má til bjóðanda vegna útboða á vegum Reykjavíkurborgar.
5. Lögð fram skýrsla innkaupa- og rekstrarskrifstofu dags. 2. nóvember sl. um viðskipti sviða við skrifstofuna í októberber 2006.
Fundi slitið kl. 16:00.
Ingólfur Sveinsson
Marta Guðjónsdóttir Stefán Jóhann Stefánsson