No translated content text
Innkauparáð
INNKAUPARÁÐ
Ár 2006, miðvikudaginn 25. janúar, var haldinn 106. fundur innkauparáðs. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.00. Viðstaddir voru Hrólfur Ölvisson, Jóhannes T. Sigursveinsson og Haukur F. Leósson. Jafnframt sátu fundinn Kristbjörg Stephensen, skrifstofustjóri lögfræðiskrifstofu, Ólafur Jónsson, skrifstofustjóri innkaupa- og rekstrarskrifstofu, Helgi Bogason, sérfræðingur á innkaupa- og rekstrarskrifstofu og Eyþóra Kristín Geirsdóttir, lögfræðingur á lögfræðiskrifstofu, sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
1. Lagt er fram að nýju erindi Framkvæmdasviðs frá 12. þ.m. þar sem óskað er eftir að innkauparáð heimili að gengið verði til beinna samningaviðræðna við Íslenska aðalverktaka hf. um að taka að sér hluta undirbúningsframkvæmda vegna lóðar fyrir tónlistar- og ráðstefnuhús, ásamt umsjón með heildarframkvæmdum Reykjavíkurborgar tengdum tónlistar- og ráðstefnuhúsi, án undangengins útboðs.
Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri Framkvæmdasviðs, og Ólafur Bjarnason, aðstoðarsviðsstjóri Framkvæmdasviðs, kynntu málið en viku af fundi kl. 13.15.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi tillögu:
Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur til að borgarráð taki ákvörðun í málinu skv. heimild í samþykktum fyrir innkauparáð, 3. gr.
Tillagan er felld með tveimur atkvæðum gegn einu.
Fulltrúar Reykjavíkurlista leggja fram svohljóðandi tillögu:
Í ljósi aðstæðna samþykkir innkauparáð að Framkvæmdasvið gangi til beinna samningskaupa við Íslenska aðalverktaka um að taka að sér hluta undirbúningsframkvæmda vegna lóðar fyrir tónlistar- og ráðstefnuhús ásamt umsjón með heildarframkvæmdum Reykjavíkurborgar tengdum tónlistar- og ráðstefnuhúsi enda er tæknilega óframkvæmanlegt að annar verktaki vinni umrædd undirbúningsverk og verkið því ekki útboðsskylt sbr. c-lið 1. mgr. 20. gr. laga um opinber innkaup nr. 94/2001. Jafnframt verði í samningnum kveðið á um að útboðin sem fyrirhuguð eru fari í gegnum Innkaupa- og rekstrarskrifstofu Reykjavíkurborgar og tillaga að samningi komi fyrir innkauparáð að nýju.
Tillagan er samþykkt með tveimur atkvæðum, en fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðslu tillögunnar.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks óskar bókað:
Vinnubrögð í máli þessu vekja mikla furðu. Hér er um að ræða flóknar framkvæmdir, sem munu kosta Reykjavíkurborg milljarða króna. Kynning á málinu hefur verið af mjög skornum skammti og hefur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins þurft að kalla eftir grundvallar upplýsingum og gögnum síðustu daga, sem hefðu átt að liggja fyrir við kynningu málsins. Það er augljóst að ekki hefur verið gert ráð fyrir kostnaði sem nemur hundruðum milljónum króna, sbr. nýsamþykkta fjárhagsáætlun Framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar fyrir árið 2006. Málið er vanbúið til afgreiðslu og tekur fulltrúi Sjálfstæðisflokksins ekki þátt í afgreiðslu málsins, en áskilur sér allan rétt til að afla frekari upplýsinga og fylgja málinu eftir. Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins vekur athygli á því að fyrirhugað bílastæðishús er umhverfismatsskylt, skv. lögum um umhverfismat nr. 106/2000, en það hafði gleymst við undirbúning og kynningu málsins.
2. Lögð er fram tilkynning frá Innkaupa- og rekstrarskrifstofu um að útboð á kjöti fari fram á EES-svæðinu.
Fundi slitið kl. 14:00.
Hrólfur Ölvisson
Jóhannes T. Sigursveinsson Haukur F. Leósson