Innkauparáð - Fundur nr. 49

Innkauparáð

INNKAUPARÁÐ

Ár 2004, föstudaginn 7. maí, var haldinn 49. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 13.13. Viðstaddir voru Hrólfur Ölvisson, Jóhannes Sigursveinsson og Kjartan Magnússon. Jafnframt sátu fundinn Sjöfn Kristjánsdóttir forstjóri Innkaupastofnunar og Ólafur Kr. Hjörleifsson skrifstofustjóri borgarstjórnar, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs og gatnamálastjóra varðandi niðurstöðu útboðs á gerð bílakjallara að Laugavegi 86-94, sölu byggingarréttar og endurgerð Laugavegar, dags. í dag, ásamt fylgiskjölum, þar sem með vísan til nýrrar niðurstöðu dómnefndar er lagt til að gengið verði til samninga við Ístak hf. á grundvelli lausnar félagsins merktri A, að fjárhæð kr. 415.118.872,- fyrir grunnlausn með 193 stæðum, með möguleika á stækkun um 64 stæði að fjárhæð kr. 1.555.098,- per stæði.

Kjartan Magnússon lagði fram svohljóðandi tillögu:

Með vísan til 12. gr. samþykktar innkauparáðs Reykjavíkurborgar er óskað eftir því að innri endurskoðun Reykjavíkurborgar fari yfir forsendur og hagnaðarútreikninga Bílastæðasjóðs vegna útboðs á bílastæðahúsinu á Stjörnubíósreit. Vegna óskar þessarar er vísað til 1. gr. innkaupareglna Reykjavíkurborgar en þar segir að tilgangur umræddra reglna sé sá að stuðla að vönduðum og hagkvæmum innkaupum Reykjavíkurborgar.

Tillögu Kjartans Magnússonar vísað frá með 2 atkvæðum gegn 1.

Tillaga um frestun málsins felld með 2 atkvæðum gegn 1.

Tillaga framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs og gatnamálastjóra um gerð samnings við Ístak hf. samþykkt með 2 samhljóða atkvæðum, enda verði kynnt fyrir ráðinu ef möguleiki á stækkun verður nýttur.

Kjartan Magnússon óskaði bókað:

Undirritaður mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru í þessu máli. Eðlilegt hefði verið að gefa fulltrúum í innkauparáði ráðrúm til að kynna sér gögn málsins og taka það fyrir á næsta reglulega fundi sem haldinn verður eftir þrjá virka daga. Einhverra hluta vegna var hins vegar ákveðið að afgreiða málið í flýti á þessum aukafundi, sem boðaður var með minna en sólarhrings fyrirvara. Undirritaður átti þess ekki kost að kynna sér gögn málsins upp á 30-40 bls. fyrir fundinn en fékk þau afhent á fundinum. Í ljósi þessa sem og þess að hér er um viðkvæmt mál að ræða sem ljóst er að lent getur í frekari kærumeðferð telur undirritaður ámælisvert að fulltrúa sjálfstæðismanna sé ekki gefinn rýmri frestur til að kynna sér það áður en ákvörðun er tekin.

Sigurður I. Skarphéðinsson gatnamálastjóri, Stefán Haraldsson framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs og Bjarnveig Eiríksdóttir fulltrúi borgarlögmanns sátu fundinn við meðferð málsins.

Fundi slitið kl. 14.30.

Hrólfur Ölvisson
Jóhannes Sigursveinsson Kjartan Magnússon