Innkauparáð - Fundur nr. 15

Innkauparáð

INNKAUPARÁÐ

Ár 2003, þriðjudaginn 8. júlí, var haldinn 15. fundur s. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 12.30. Viðstaddir voru: Hrólfur Ölvisson, Jóhannes Sigursveinsson og Haukur Leósson. Jafnframt sat Sjöfn Kristjánsdóttir, forstjóri Innkaupastofnunar, fundinn. Fundarritari var Jónína H. Björgvinsdóttir.

Þetta gerðist:

1. Lagt fram bréf forstöðumanns tæknideildar Reykjavíkurhafnar frá 4. þ.m. varðandi tilboð í kaup á stálþili og stagefni vegna Skarfabakka. Samþykkt að taka tilboði Sindrastáls, sem átti hagstæðasta tilboðið, að fjárhæð kr. 153.616.562 CIF verð. Jón Þorvaldsson mætti á fundinn vegna málsins.

2. Lagt fram yfirlit Innkaupastofnunar, dags. 8. þ.m., um viðskipti stofnunarinnar í júní. Frestað.

3. Lagt fram að nýju bréf forstjóra Innkaupastofnunar frá 24. f.m. ásamt bréfi Exton-hljóðs ehf. frá 20. s.m. um tilboð sem tekið var í hljóðkerfi vegna 17. júní. Vísað til umsagnar borgarlögmanns.

4. Lögð fram að nýju skýrsla Borgarendurskoðunar um frávik borgarstofnana og fyrirtækja frá reglum Reykjavíkurborgar um innkaup á árunum 2000 og 2001. Innkauparáð gerði svofellda bókun:

Skýrslan sýnir að hjá velflestum stofnunum og fyrirtækjum borgarinnar hafa samþykktir borgaryfirvalda um innkaupamál verið þverbrotnar eða sniðgengnar. Í ljósi þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir teljum við það skyldu Innkauparáðs að bregðast skjótt við þessu ástandi sem víða ríkir í innkaupamálum hjá borginni og óska eftir skriflegri skýrslu frá þeim stofnunum og fyrirtækjum sem falla undir innkaupareglur Reykjavíkurborgar frá 1. febrúar s.l. Í skýrslunni komi fram innkaup þeirra á vörum, þjónustu og verklegum framkvæmdum frá 1. febrúar til 30. júní 2003. Skýrslu þessari skal skila eigi síðar en 11. ágúst n.k. Í framhaldi yrði kallað til fundar með forstöðumönnum einstakra stofnana og fyrirtækja borgarinnar. Í skýrslu borgarendurskoðunar kemur fram það álit að eftirlitið sé nú á ábyrgð Innkauparáðs Reykjavíkurborgar og í umsjá forstjóra ISR. Einnig kemur þar fram að Innkauparáðið geti leitað til innri endurskoðunardeildar Reykjavíkurborgar um beinar eftirlitsaðgerðir.

5. Lagt fram bréf borgarbókara frá 5. f.m. varðandi fyrirspurn um viðskipti um endurskoðun hjá borgarsjóði og fyrirtækjum borgarinnar á árunum 1994-2002.

6. Innkauparáð óskar eftir við Innkaupastofnun Reykjavíkurborgar að hún geri skriflega grein fyrir eftirtöldum atriðum: 1. Hvernig hefur verið staðið að kynningum á hinum nýju innkaupareglum sem tóku gildi 1. febrúar s.l.? 2. Hvernig ætlar Innkaupastofnun að markaðssetja þjónustu sína? 3. Hefur verið komið á fót aðgengilegu skráningarkerfi hjá Innkaupastofnun, ef svo er, hvernig er því háttað? 4. Hefur verið unnið skipulega í gerð afsláttar og rammasamninga um verð og viðskipti?

Fundi slitið kl. 14.30.
Hrólfur Ölvisson
Jóhannes Sigursveinsson Haukur Leósson