Íbúaráð Vesturbæjar - Fundur nr. 10

Íbúaráð Vesturbæjar

Ár 2020, miðvikudagur, 16. desember, var haldinn 10. fundur íbúaráðs Vesturbæjar. Fundurinn var haldinn með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 15.02. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Birgir Þröstur Jóhannsson, Skúli Helgason, Ásta Olga Magnúsdóttir, Björn Karlsson og Harpa Lind Ólafsdóttir. Fundinn sátu einnig með fjarfundarbúnaði Sigþrúður Erla Arnardóttir og Tómas Ingi Adolfsson, sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á stöðu hugmynda um borgarlínu í Vesturbæ. 

    Hrafnkell Á. Proppe og Ragnheiður Einarsdóttir taka sæti á fundinum undir með þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    -    Kl. 15.05 tekur Hildur Björnsdóttir sæti á fundinum með fjarfundabúnaði.

  2. Fram fer umræða um snjómokstur í Vesturbæ. 
    Íbúaráð Vesturbæjar samþykkir að fela formanni og starfsmanni mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu að vinna málið áfram og hvetja til bætts snjómoksturs gangstétta að skólum í hverfinu.

  3. Lögð fram umsögn íbúaráðs Vesturbæjar um drög að breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.
    Samþykkt.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um uppbyggingu á Bræðraborgarstíg 1. 

    Fulltrúi Pírata, fulltrúi íbúasamtaka og fulltrúi foreldrafélaga leggja fram svohljóðandi bókun:

    Á þessari lóð hefur í mörg ár legið fyrir vilji eiganda til að fá leyfi til að byggja stærra í stað friðaðra húsa. Því hefur ítrekað verið hafnað af yfirvöldum enda hefur friðun það markmið að vernda sögufræg menningarverðmæti sem felast í byggingunum sjálfum, götumynd og byggðamynstri. Nú er þannig farið að efri hluti hússins á Bræðraborgarstíg 1 brann við mikinn harmleik sem er mannskæðasti bruni Reykjavíkur sem sögur fara af. Slæmt viðhald á húsinu með ófullnægjandi flóttaleiðum gerði fórnarlömbunum erfitt fyrir að forða sér úr eldinum. Á svo viðkvæmum stað ættu hagkvæmnissjónarmið og söluágóði ekki að leiða til aukins nýtingarhlutfalls á lóðinni. Nágrannar eiga sinn rétt á að haldið sé í hið friðaða umhverfi sem þeir keyptu eign sína í og hafa ötullega tekið þátt í að viðhalda. Tillögur fyrir reitinn þarf að vinna í samráði við íbúa og vera grundvallað á umsögnum skipulagsfulltrúa frá 2019 og 2020. Mælst er til að við endurbyggingu verði tekið mið af þeim umsögnum. Borgaryfirvöld hafa lýst því yfir að hreinsun rústanna eigi að fara fram án tafar og við leggjum áherslu á að því verði framfylgt.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Bruninn að Bræðraborgarstíg 1 var mikill harmleikur og mikilvægt er að borgarkerfið og aðrir eftirlitsaðilar bregðist við svo viðlíka atburðir geti ekki endurtekið sig. Sjálf mun ég taka afstöðu til framtíðaráforma á svæðinu eftir nánari kynningar í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkurborgar.

  5. Fram fer umræða um battavöll á Landakotstúni.
    Íbúaráð Vesturbæjar samþykkir að fela formanni íbúaráðs Vesturbæjar að semja erindi til skipulags- og samgönguráðs þar sem hvatt væri til þess að taka málið upp.

  6. Fram fer umræða um sjóvarnargarða við Ánanaust.
    Íbúaráðið samþykkir að óskað verði eftir kynningu á málinu frá borgarhönnun og framkvæmdaaðilum.

  7. Fram fer umræða um málefni hverfisins. 

  8. Lagðar fram greinargerðir vegna Sumarborgar 2020 - hverfin. Þessi liður fundarins er lokaður. 
    a) Skátasamband Reykjavíkur – Hoppandi fjör við sundlaugar. 
    b) Magdalenda Tworek – Dance and Draw.

  9. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í hverfissjóð. Þessi liður fundarins er lokaður. 
    Frestað.

    Íbúaráð Vesturbæjar samþykkir að fela formanni ráðsins að senda erindi til borgarráðs með ósk um að óráðstafað fjármagn í hverfissjóði verði flutt yfir á næsta ár.

    -    Kl. 17.08 víkur Skúli Helgason af fundi.
    -    Kl. 17. 15 víkur Harpa Lind Ólafsdóttir af fundi.
    -    Kl. 17.20 víkur Hildur Björnsdóttir af fundi.

Fundi slitið klukkan 17:50