Íbúaráð Miðborgar og Hlíða - Fundur nr. 3

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða

Ár 2020, þriðjudaginn 28. janúar, var haldinn 3. fundur íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. Fundurinn var opinn, haldinn á Vitatorgi og hófst kl. 17.01. Fundinn sátu Margrét Norðdahl, Diljá Ámundadóttir Zoega, Örn Þórðarson, Benóný Ægisson, Kristín Vala Erlendsdóttir og Jón H. Magnússon. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Sigþrúður Erla Arnardóttir. Aðrir gestir voru um 45-50.

Þetta gerðist:

 1. Fram fer kynning á smáhýsum sem tímabundnu búsetuúrræði.

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Við þökkum Sigþrúði Erlu Arnardóttur frá þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða fyrir greinagóða kynningu á málefnum heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Rætt var um hugmyndir að staðsetningum um smáhýsi fyrir umræddan hóp. Um 50 íbúar mættu á fundinn og tóku þátt í umræðum undir þessum dagskrárlið.

 2. Lagt fram bréf frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar dags. 7. janúar vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Færslu Hringbrautar vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi að Skógarhlíð.

  Fylgigögn

 3. Tölvubréf frá umhverfis og skipulagssviði Reykjavíkurborgar dags. 7. janúar vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi Færslu Hringbrautar vegna afmörkunar nýrrar lóðar fyrir smáhýsi að Skógarhlíð. Til framlagningar.

  Fylgigögn

 4. Lagt fram svar velferðarsviðs dags. 16. desember 2019 við fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða sbr. 17. lið fundargerðar ráðsins þann 26. nóvember.

  Fylgigögn

 5. Fram fer umræða um götulýsingu í hverfunum.

 6. Fram fer umræða um almenningssalerni í miðborginni.

 7. Fram fer umræða um ónæði vegna næturlífs í miðborginni.

 8. Lögð fram umsögn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða dags. 6. janúar 2020, send umhverfis- og skipulagssviði  um tillögu að breytingu á deiliskipulagi Naustareits. 

  Fylgigögn

 9. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 12. desember 2019 um auglýsingu vegna tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi til norðurs, Bolholti til austurs, Skipholti til suðurs og Laugavegi 174 og Skipholti 31 til vesturs. 

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi umsögn: 

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða óskar eftir því við umhverfis og skipulagssvið að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir. Það vantar að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir reit sem afmarkast af Laugavegi til norðurs, Bolholti til austurs, Skipholti til suðurs og Laugavegi 174 og Skipholti 31 til vesturs og óskar íbúaráðið eftir því að það sé gert.

  Fylgigögn

 10. Lagt fram að nýju bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags 12. desember 2019 um auglýsingu vegna tillagna að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur, Reykjavíkurflugvallar og Ingólfsstræti 1.

  Íbúaráð leggur fram svohljóðandi umsögn:

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða óskar eftir því við umhverfis og skipulagssvið að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir. Það vantar að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögum að breytingu á deiliskipulagi Nauthólsvíkur, Reykjavíkurflugvallar og Ingólfsstræti 1 og óskar íbúaráðið eftir því að það verði gert.

  Fylgigögn

 11. Lögð fram að nýju auglýsing af vef Reykjavíkurborgar frá 18. desember 2019 um tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir reit 1.240.0, Hlemmur. 

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi umsögn:

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða lýsir yfir mikilli ánægju með hönnun og hugmyndir að því að bæta Hlemmsvæðið sem hefur tekið miklum breytingum til hins betra undanfarin ár. Eftir því er tekið að í tillögu að deiliskipulagi er sérstaklega talað um aðgengi fyrir alla sem er vel gert, Íbúaráð leggur til að það sé sérliður í öllum deiliskipulagstillögum þar sem gerð er grein fyrir aðgengi. Íbúaráðið mælist einnig til þess að allt deiliskipulag sé gert eftir hugmyndafræði um algilda hönnun. Íbúaráðið óskar eftir því að á torgi við Hlemm verði afmarkað skapandi og listrænt leiksvæði fyrir yngstu börnin, jafnvel hannað með aðkomu listafólks og barna , til þess að fá aukna fjölbreytni í leiksvæðaflóru borgarinnar. Einnig að í hönnun á svæðinu verði stuðst við tillögu í skýrslu stýrihóps um mótun stefnu um hjólabretti þar sem eftirfarandi er lagt til: Að við hönnun á almannarýmum, svo sem torgum og öðrum sambærilegum svæðum verði gert ráð fyrir iðkendum þessara greina. Með einföldum leiðum má gera svæðin áhugaverð fyrir hjólabretta-, hlaupahjóla-, BMX- og Parkouriðkendur, til dæmis með hönnun á tröppum, köntum, veggjum og svo framvegis. Aðkoma iðkenda og félagasamtök í greinunum að þessari vinnu er nauðsynleg.

  Fylgigögn

 12. Lögð fram að nýju auglýsing af vef Reykjavíkurborgar frá 18. desember 2019 um tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir reit 1.240.0, Snorrabraut - Hlemmur. Götureiturinn afmarkast af Hverfisgötu, Hlemm, Laugavegi og Snorrabraut.

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi umsögn:

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða óskar eftir því við Umhverfis og skipulagssvið að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið fyrir. Það vantar að gera grein fyrir aðgengismálum í tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir reit 1.240.0, Snorrabraut - Hlemmur. Götureiturinn afmarkast af Hverfisgötu, Hlemm, Laugavegi og Snorrabraut, og óskar íbúaráðið eftir því að það verði gert.

  Fylgigögn

 13. Fram fer umræða um málefni Miðborgar og Hlíða.

 14. Fram fer kosning varaformanns. Þessi liður fundar var lokaður. 
  Samþykkt að Diljá Ámundadóttir Zoega verði varaformaður.

 15. Lagðar fram til umsagnar styrkumsóknir í forvarnarsjóð. Þessi liður fundarins er lokaður

  Ráðið er jákvætt fyrir því að veita verkefninu Ekkisens styrk að upphæð kr. 50.000,-  vegna viðburða sem tengjast lýðheilsu. 
  Ráðið er jákvætt fyrir því að veita samtökunum Andrými styrk allt að upphæð kr. 366.000,- vegna félagsrýmis. Styrkur verði veittur vegna garðyrkjuverkefnis, framköllunarherbergis, verkstæðis, fjölskyldusunnudagana, prentherbergið, miðvikudagseldhúsin og opið hús.

  Fylgigögn

 16. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða þakkar fyrir svarið og óskar eftir upplýsingum frá umhverfis- og skipulagssviði um bætta lýsingu og fyrirhuguðum breytingum á Njálsgöturóló fyrir aftan Austurbæ.

  Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs.

 17. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða óskar eftir að lýsing verði bætt í miðborginni og í Hlíðum og felur starfsmanni íbúaráðsins að senda eftirfarandi erindi til viðkomandi aðila hjá umhverfis- og skipulagssviði. Á málþingi Íbúasamtaka miðborgar um aðstöðu barna og unglinga í miðbænum kom fram að margar gönguleiðir þeirra væru illa lýstar og krakkarnir því smeykir við að nota þær. Mikilvægt er þetta verði skoðað og bætt verði úr til að auka öryggi íbúa og gesta miðborgarinnar. Í 3.hverfi óska íbúar einnig eftir bættri lýsingu. Sjá samantekt í greinargerð. 

  Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs og Orkuveitunnar.

  Fylgigögn

 18. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða óskar eftir upplýsingum um stöðu á almenningssalernum í miðborg. Brýnt er að slíkt sé í boði fyrir gesti miðborgar. Um áramótin féllu samningar úr gildi við aðila sem ráku almenningssalerni. Hvernig er staðan á útboðinu, hvenær er áætlað að semja við nýja rekstraraðila og hvenær eru verklok áætluð?

  Vísað til skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

 19. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

  Á síðustu tveim til þremur áratugum hefur veitingastöðum sem hafa opið fram eftir nóttu fjölgað í miðborginni og dæmi eru um að fólk hafi flutt burt vegna ónæðis frá þeim þar sem þeir eru nærri íbúabyggð. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur á að hafa eftirlit með þessum málum og gott væri að fá svör við eftirfarandi spurningum: Með hvaða hætti eru samskipti lögreglu og heilbrigðiseftirlits? Kemur lögreglan upplýsingum um kvartanir vegna hávaða til heilbrigðiseftirlitsins? Nýlega keypti Reykjavíkurborg mæla til að mæla hávaða. Hvar hafa þeir verið notaðir? Og hvað kom útúr mælingum? Í 4. gr. lögreglusamþykktar er ákvæði sem á að tryggja borgurunum næturró.  Eru dæmi um að staðir hafi verið sviptir veitingaleyfi eða ekki fengið þau framlengd vegna ítrekaðra brota á þessu ákvæði? Hvaða kröfur eru gerðar til hljóðvistar veitingahúsa sem hafa leyfi til skemmtanahalds fram á nótt og leika tónlist? Hver er skilgreind ábyrgð veitingahúsaeigenda af ónæði vegna gesta utandyra við stað sinn?

  Vísað til heilbrigðiseftirlits og umhverfis- og skipulagssviðs.

 20. Lögð fram svohljóðandi tillaga íbúaráðs Miðborgar og Hlíða:

  Íbúaráð Miðborgar og Hlíða óskar eftir því við umhverfis og skipulagssvið og umhverfis og skipulagsráð að í öllu deiliskipulagi sé liður þar sem algild hönnun og aðgengi fyrir alla sé tekið sérstaklega fyrir. Ef umhverfi er aðgengilegt, nothæft, þægilegt og ánægjulegt í notkun þá græða öll. Þetta er ekki sérstök krafa sem gagnast eingöngu minnihlutahópi í samfélaginu - Þetta er grundvallar eiginleiki góðrar hönnunar á ytra og innra umhverfi.
  Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

Fundi slitið klukkan 19:42

PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_midborgar_og_hlida_2801.pdf