Íbúaráð Miðborgar og Hlíða - Fundur nr. 19

Íbúaráð Miðborgar og Hlíða

Ár 2021, þriðjudagur 21. júní, var haldinn 19. fundur íbúaráðs Miðborgar og Hlíða. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur - Tjarnarbúð með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 17.01. Fundinn sátu Margrét Norðdahl, Sigfús Ómar Höskuldsson og Jón Magnússon. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1436/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Katrín Sigríður Júlíu- Steingrímsdóttir, Örn Þórðarson og Hanna Björk Valsdóttir. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Sigþrúður Erla Arnardóttir sem sat fundinn með fjarfundarbúnaði.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á fyrirkomulagi kosninga í borgarhlutanum. 

    Bjarni Þóroddsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

  2. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs dags. 12. maí 2021 við fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um umferðaröryggi við Njarðargötu, sbr. 17. liður fundargerðar ráðsins frá 23. mars. 2021.

    Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúar í miðborginni og foreldrar leikskólabarna og grunnskólabarna hafa ítrekað bent á að það þurfi að auka öryggi gangandi og hjólandi við og yfir Njarðargötu. Fjöldi barna á leið yfir götuna á leið í Austurbæjarskóla og Grænuborg og við götuna er leikskólinn Laufásborg. Þarna er oft þung og hröð umferð enda gatan löng og bein eins og hönnuð fyrir hraðakstur. Íbúaráðið tekur undir þessar áhyggjur og óskar eftir því að farið verði í aðgerðir til þess að draga verulega úr  hraðri umferð við Njarðargötu og auka öryggi gangandi vegfarenda og íbúa í hverfinu. Eins leggur Íbúaráðið mikla áherslu að núverandi staðsetning safnstöðvar farþega við Hallgrímskirkju (Safnstöð 8) verði endurskoðuð og færð á stað hentar betur með tilliti til öryggis og lífsgæða íbúa í hverfinu. Læra má  af þeirri reynslu með auknum straumi ferðamanna áranna 2014-19 að umferð þungra ökutækja jókst mikið á þessum árum, þær aðgerðir sem farið var í til að minnka umferð þungra ökutækja í hverfinu teljum við ekki nægja.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs dags. 10, maí 2021 við fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða vegna stöðu mála við Baldurstorg og önnur torg í miðborginni, sbr. 11. liður fundargerðar ráðsins frá 27. apríl 2021. 

    Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð þakkar fyrir svarið og líst vel á þessar áætlanir. Íbúaráð óskar eftir því að haft verði samráð við nærsamfélag torganna þegar ákveða á hvað á að gera á hverjum stað, þetta á sérstaklega við um torg sem eru mitt í íbúðahverfum líkt og Baldurstorg og Káratorg.  Jafnframt óskar íbúaráðið eftir því að algild hönnun verði höfð að leiðarljósi í hönnun torganna. Sömuleiðis verði hugað að hverfisásýnd og hverfismenningu við hönnun torganna.

    Fylgigögn

  4. Lagt fram svar skóla- og frístundasviðs dags. 18. maí 2021 við fyrirspurn íbúaráðs Miðborgar og Hlíða um húsnæðismál  og fjölgun barna í hverfunum, sbr. 12. liður fundargerðar ráðsins frá 27. apríl 2021. 

    Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Íbúaráðið þakkar svörin og óskar eftir því að fá kynningu á skýrslunni þegar hún liggur fyrir.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um aðgengismál í Nauthólsvík. 

    Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð hefur áður óskað eftir því að aðgengi í Nauthólsvík verði bætt fyrir fólk með ólíka hreyfifærni.  Okkur skilst að það standi til að fara í aðgerðir í haust m.a. til að bæta aðgengi. Það er hins vegar mikil þörf á því að bæta strax úr í sumar til þess að börn og aðrir sem t.a.m. nota hjólastól komist greiðlega í sturtu í búningsklefum og um sandinn til þess að komast í sjóinn. Íbúaráðið leggur til að farið verði strax í að kaupa stóla til þess að hafa í búningsklefum og keyptir verði stólar á breiðum dekkjum sem komast um sandinn að sjónum. Einnig vantar ramp þannig að fólk komist inn í gufuna en þar eru há þrep núna bæði frá stétt og sandi. Sjósund er mjög vinsælt hjá fólki á öllum aldri og Nauthólsvíkin paradís í hverfinu okkar sem við eigum öll að fá að njóta.

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 2. júní 2021 vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Lækjargata 12. 

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 12. maí 2021 vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Laugaveg 20B.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 12. maí 2021 vegna tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Lækjargötu 1. 

    Samþykkt að fela fulltrúa íbúasamtaka að gera drög að umsögn, leggja undir ráðið og skila fyrir tilskilinn frest. 

    Fylgigögn

  9. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 4. maí 2021 vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Þverholt 13.

    Fylgigögn

  10. Lagðar fram tillögur íbúaráðs Miðborgar og Hlíða ódags. vegna fjárfestinga- og viðhaldsáætlunar, ásamt fylgiskjali. 

    Samþykkt

    Fylgigögn

  11. Fram fer umræða um notkun barna á battavelli við Austurbæjarskóla. 

  12. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsviðs dags. 16. júní 2021 vegna auglýsingar tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040. 

    Samþykkt að fela formanni í samvinnu við ráðið að kanna málið nánar og eftir atvikum skila umsögn fyrir tilskilinn frest þann 23. ágúst 2021. 

    Fylgigögn

  13. Fram fer umræða um málefni hverfisins.

  14. Lagðar fram umsóknir í hverfissjóð. Þessi liður fundarins er lokaður. 

    Samþykkt að veita Íbúasamtökum Miðborgar styrk að upphæð kr. 450.000 vegna verkefnisins Heil brú auk kr. 100.000,- í rekstrarstyrk. 

  15. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Borið hefur á því að krakkar í hverfi 101 og þá aðallega nemendur í Austurbæjarskóla kvarti yfir því að battavöllurinn á skólalóðinni við Austurbæjarskóla sé tekinn yfir af eldra fólki eftir klukkan 17.00 þegar skóla og frístund lýkur og um helgar. Grunnskólakrakkar sem vilja nota völlinn í fótboltaleik eftir skóla, um helgar og núna í sumarfríinu þurfa frá að hverfa vegna þess að fullorðnir eða aðilar sem hafa lokið grunnskóla hópast á völlinn. Stundum gengur vel að fullorðnir og börn spili saman en það á alls ekki alltaf við og krakkarnir hrökklast þá í burtu og gefast upp á að fara út með bolta. Það finnst okkur miður, enda viljum við hvetja krakkana til að vera úti að leika og þá er vinsælt að fara í fótbolta á þennan völl. Spurningin er hvort hægt sé að finna einhverja leið til þess að börn á grunnskólastigi hafi forgang á þennan völl sem er á skólalóð Austurbæjarskóla. Er hægt að setja upp skilti á íslensku og fleiri tungumálum við völlinn sem segir að börn hafi forgang á skólalóðinni? Við finnum fyrir þörfinni fyrir fleiri battavelli í miðborginni sem eru ætlaðir almenningi. Eru einhverjar hugmyndir að koma upp fleiri völlum á almenningssvæðum í miðborginni?

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs og umhverfis- og skipulagssviðs.

  16. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um hvort sé á teikniborðinu að borgaryfirvöld  setji upp fleiri ruslatunnur þannig að hundaeigendur gætu hent eftir dýrin í þær , í og í kringum almenningsgarða, t.d. Klambratún og Öskjuhlíð og göngusvæði í 3. hverfi.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

  17. Íbúaráð Miðborgar og Hlíða leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Spurt er hvort að borgaryfirvöld ætli að setja upp almenningsleikvöll sem gagnaðist börnum bæði á Hlíðarenda en einnig í nærliggjandi stúdentaíbúðabyggð?  Leikvöllurinn gæti einnig orðið aðdráttarafl fyrir foreldra sem eru með börn sín á göngu í Nauthól/Öskjuhlíð en þarna sárvantar slíkan völl með fjölbreytilegum leiktækjum og sparksvæðum.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs. 

Fundi slitið klukkan 19:18

PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_midborgar_og_hlida_2106.pdf