Íbúaráð Kjalarness - Fundur nr. 4

Íbúaráð Kjalarness

Ár 2020, fimmtudaginn 13.febrúar, var haldinn 4. fundur íbúaráðs Kjalarness. Fundurinn var opinn, haldinn í húsnæði Klébergsskóla og hófst kl. 17.02. Fundinn sátu Sigrún Jóhannsdóttir, Eldey Huld Jónsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Lára Kristín Jóhannsdóttir og Björgvin Þór Þorsteinsson. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð. Aðrir gestir voru átta.

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning vegna mengunar í tengslum við skotsvæði á Álfsnesi. 

    Íbúaráð Kjalarnes leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Kjalarness ítrekar ábendingar sínar vegna skotæfingasvæðanna við Kollafjörð og mælist til þess að umhverfis- og heilbrigðisráð og heilbrigðiseftirlitið taki þær alvarlega þannig að fram fari reglulegar hávaða- og jarðvegsmælingar á svæðinu. Mikilvægt er að slík vinna fari fram áður en áframhaldandi starfsleyfi verður gefið út svo meiri sátt skapist um starfsemina á meðan verið er að finna nýtt skotæfingasvæði til framtíðar.

    Vísað til heilbrigðiseftirlits, umhverfis- og heilbrigðisráðs og skipulags- og samgönguráðs. 

    Guðjón Ingi Eggertsson og Helgi Guðjónsson taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 28. janúar 2020 um lýsingu vegna vinnu við nýtt deiliskipulag fyrir Nesvík á Kjalarnesi.

    Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi umsögn:

    Íbúaráð Kjalarness fagnar hugmyndum um uppbyggingu hótels í Nesvík á Kjalarnesi en leggur um leið áherslu á mikilvægi náttúrunnar á svæðinu og samspils fyrirhugaðra mannvirkja og náttúru.

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 20. janúar 2020 vegna tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðina Saltvík á Kjalarnesi og vegna tillögu að breytingu á  deiliskipulagi Esjumela vegnar lóðarinnar nr. 6-8 við Koparsléttu.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um hættu vegna ofanflóða í landi Kjalarness. 

    Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Kjalarness lýsir yfir áhyggjum af öryggi íbúa í Esjuhlíðum og annarra sem þar stunda útivist af mögulegum ofanflóðum. Íbúaráðið fer fram á að vinnu varðandi kortlagningu á hættu á ofanflóðum á Kjalarnesi öllu verði lokið. Enn fremur óskar íbúaráðið eftir upplýsingum um skriðuföll og snjóflóð sem hafa átt sér stað á svæðinu og valdið skaða á mannvirkjum og/eða fólki.

    Vísað til umhverfis- og skipulagssviðs.

  5. Lögð fram svohljóðandi tillaga íbúaráðs Kjalarness:

    Íbúaráð Kjalarness leggur til að Barnalundur á Kjalarnesi komist á blað hjá skipulagsyfirvöldum og fái formlegan sess í skipulagi hverfisins til framtíðar. Þetta er nauðsynlegt svo Barnalundurinn fái að vaxa og dafna í framtíðinni. Barnalundurinn er svæði sem hýsir verkefni leikskólabarna á Kjalarnesi en þar gróðursetja þau árlega tré fyrir þau börn sem fæðast á Kjalarnesi. Í meðfylgjandi skýrslu, Tréið mitt, má sjá upplýsingar um verkefnið og staðsetningu þess. Í byrjun árs kom upp sú umræða að búið væri að úthluta öðru verkefni svæði upp við Barnalundinn og inn á mögulegu stækkunarsvæði hans. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að þeir aðilar sem stóðu að því verkefni vissu ekki af tilurð Barnalundsins. Það undirstrikar mikilvægi þess að Barnalundurinn fái formlegan sess í skipulagi hverfisins.

    Samþykkt. Vísað til borgarráðs.

    Fylgigögn

  6. Fram fara umræður um málefni hverfisins.

  7. Fram fer umræða um framtíð svokallaðs Orkuveituvegs.

    Formanni í samráði við ráðið falið að kanna hug íbúa til framtíðar svokallaðs Orkuveituvegs.

  8. Fram fer umræða um málefni Grænna skóga á Hrafnhólum og skort á viðbrögðum við erindi fyrirtækisins af hálfu Veitna og umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.

    Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Íbúaráð Kjalarness fagnar þeim áhuga Grænna skóga að koma upp gróðrastöð á svæðinu. Starfsemi af þessum toga yrði lyftistöng fyrir Kjalarnesið og styður við hugmyndir um Grænt Kjalarnes. Ráðið telur brýnt að Veitur afgreiði erindi fyrirtækisins sem fyrst svo uppbygging geti haldið áfram. 

    Vísað til Veitna og umhverfis- og skipulagssviðs.

  9. Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Íbúaráð fer fram á upplýsingar um mengunarmælingar í tengslum við skotsvæði á Álfsnesi, bæði vegna hávaðamengunar og blýmengunar. Þá er óskað upplýsinga um hvort endurskoðun starfsleyfis hafi farið fram í ljósi upplýsinga um mengun. Einnig er  upplýsinga óskað um eftirlit með hávaðamengun auk annarra upplýsinga sem sjá má í greinargerð.  

    Vísað til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 19:00

Marta Guðjónsdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_kjalarness_1302.pdf