Íbúaráð Kjalarness
Ár 2023, fimmtudagurinn, 9. febrúar, var haldinn 35. fundur íbúaráðs Kjalarness. Fundurinn var haldinn í Klébergsskóla og hófst kl. 16.03. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Kristjana Þórarinsdóttir, Guðfinna Ármannsdóttir, Hildur Guðbjörnsdóttir, Olga Ellen Þorsteinsdóttir og Sigrún Jóhannsdóttir. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 8. febrúar 2023, þar sem tilkynnt er að á fundi borgarstjórnar þann 7. febrúar 2023 hafi verið samþykkt að Egill Þór Jónsson taki sæti í íbúaráði Kjalarness í stað Þorkels Sigurlaugssonar. Jafnframt var samþykkt að Þorkell Sigurlaugsson taki sæti sem varamaður í ráðinu í stað Helgu Margrétar Marzellíusardóttur. MSS22060060
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um farþegaferju á Esju. MSS22100077
Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið vill koma á framfæri vegna hugmynda um farþegaferju upp Esju hjá Mógilsá þeirri gríðarlegu mótstöðu sem hugmyndin mætti árið 2017 og skorar á aðila sem að framkvæmdinni myndu standa að skoða aðrar staðsetningar fyrir farþegaferju upp á fjöll sem væru ákjósanlegri fjarri heimilum fólks. Jafnframt óskar íbúaráðið þess að eftir því sem hugmyndavinna og málinu vindur fram að samráð sé haft í íbúa svæðisins.
- Kl. 16:09 tekur Þorkell Sigurlaugsson sæti á fundinum.
- Kl. 16.17 tekur Ragnar Harðarson sæti á fundinum. -
Fram fer umræða um skólaaksturs á Kjalarnesi. MSS22090034
Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið vill koma á framfæri að það vanti áætlun um tímasetningar sem skólaakstur stoppar á hverjum bæ fyrir sig – þó svo að tímaáætlun þurfi ekki að standa uppá mínútu þá þurfa að þau heimili sem nýti sér þjónustuna að vera upplýst um u.þ.b. hvenær megi eiga von á rútunni. Eins þurfa heimili að hafa upplýsingar til þess að hafa samband við viðeigandi skólabílstjóra til að geta látið vita ef barn nýtir sér ekki skólaakstur einhverja daga. Þessar upplýsingar ættu að vera aðgengilegar á vef skólans.
-
Fram fer umræða um söfnun sorps og úrgangs á einkalóðum á Kjalarnesi. MSS22090034
Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið vill koma á framfæri að safnast hefur rusl víða eins og til dæmis við Esjumela sem gríðarleg þörf er á að hreinsað sé í burtu, einnig fýkur mikið rusl frá svæðinu og getur valdið slysahættu. Þá hefur Íbúaráði einnig borist ábendingar um urðun á rusli og úrgangi við hýbýli fólks.
-
Fram fer umræða um umferðarhraða á Vesturlandsvegi. MSS23010070
Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráð vill koma á framfæri þeirri beiðni að hámarkshraði á Vesturlandsvegi (frá Mosfellsbæ og að Hvalfjarðargöngum) sé lækkaður niður í 80km á klst, óháð yfirstandandi vegaframkvæmdum, þ.e. að framkvæmdum loknum þá myndi hámarkshraði hækka úr 70km á klst í 80km á klst í stað 90km á klst. Þetta myndi auka umferðaröryggi á Vesturlandsvegi þar sem veðurskilyrði eru afar ófyrirsjáanleg á þessu svæði, auk þess gæti lækkun á hámarkshraða opnað þann möguleika að skoða mætti fýsileika þess að veita þessu svæði Reykjavíkurborgar þjónustu innanbæjar strætóþjónustu í stað landsbyggðastrætó.
-
Lagt fram bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, dags. 27. janúar 2023, tilkynning um útgáfu starfsleyfis fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi.
Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið lýsir yfir andstöðu og miklum vonbrigðum með ákvörðun HER að gefa út enn og aftur nýtt starfsleyfi fyrir skotvöll í Álfsnesi nú til Skotfélags Reykjavíkur. Þá þykir sérstaklega einkennilegt að tekin hafi verið ákvörðun um að afgreiða umsóknina þar sem ekki liggur fyrir niðurstaða samtarfshóps sem nýlega hefur verið settur saman til þess að finna endanlega lausn á þessu stóra deilumáli (áliti skal skilað 1. apríl næstkomandi samkvæmt bréfi borgarstjóra). Þá skal einnig bent á að úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur nýlega fellt úr gildi starfsleyfið sem í gildi var fyrir annað skotfélag á sama stað, einnig hefur verið fellt úr gildi starfsleyfi fyrir skotvöll Skotfélag Reykjavíkur (úrskurðir UUA 51 og 56/ 2021) vegna þess að útgáfa fyrri leyfa stangast á við Aðalskipulag. Íbúar munu kæra útgáfu þessa leyfis til UUA líkt og hin fyrri.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 6. janúar 2023, um breytingar á fjármagni í Hverfissjóð Reykjavíkurborgar. MSS22040019
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034
-
Lögð fram greinargerð Önnu Filbert, dags. 4. október 2022 vegna verkefnisins Sumarblóm. MSS22040019
Með vísan til 7. gr. samþykktar um íbúaráð fer umræða undir þessum lið fram fyrir luktum dyrum.
-
Íbúaráð Kjalarness leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:
Óskað er eftir afriti af umsögnum byggingarfulltrúa í tengslum við starfsleyfisumsókn fyrir skotvöll Skotfélags Reykjavíkur í Álfsnesi dags. 19. október 2022 og 24. nóvember 2022.
Vísað til umsagnar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur.
Fundi slitið kl. 17:30
Kristjana Þórarinsdóttir Sigrún Jóhannsdóttir
Þorkell Sigurlaugsson Hildur Guðbjörnsdóttir
Olga Ellen Þorsteinsdóttir Guðfinna Ármannsdóttir
PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Kjalarness frá 9. febrúar 2023