Íbúaráð Grafarvogs - Fundur nr. 43

Íbúaráð Grafarvogs

Ár 2023, mánudagurinn, 6. nóvember, var haldinn 43. fundur íbúaráðs Grafarvogs. Fundurinn var haldinn í Hlöðunni, Gufunesbæ og hófst kl. 16.02. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Fanný Gunnarsdóttir, Árni Guðmundsson, Helgi Áss Grétarsson, Ingimar Þór Friðriksson og Tómas Örn Guðlaugsson. Fundinn sátu einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Ragnar Harðarson.

Þetta gerðist:

  1. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í Hverfissjóð Reykjavíkurborgar. MSS22040019

    Samþykkt að veita Fjölni styrk  að upphæð kr. 100.000 vegna verkefnisins Hraðskákmót taflfélaga 2024.

    Samþykkt að veita Totelly ehf styrk að upphæð kr. 20.000 vegna verkefnisins Grafarvogur Offers and Requests Exchange Events.

    Samþykkt að veita Guðnýju Helgu Guðmundsdóttur styrk að upphæð kr. 100.000 vegna verkefnisins Tónleikahald kór Korpúlfa.

    Samþykkt að veita Gróska, forvarnarfélag Grafarvogs og Kjalarnes styrk að upphæð kr. 396.000 vegna verkefnisins Þrettándabrenna í Grafarvogi.

    Þessi liður fundarins var lokaður með vísan til 7. gr. samþykktar fyrir íbúaráð Reykjavíkurborgar. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram umsögn íbúaráðs Grafarvogs, dags. 19. október 2023, vegna Sundabraut - aðalskipulagsbreyting og umhverfismat. Verklýsing til kynningar. USK23090007

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi íbúaráðs Grafarvogs í október sl. var formanni ráðsins falið að skila umsögn ráðsins vegna verklýsingar til kynningar á Sundabraut – aðalskipulagsbreyting og umhverfismat. Í dag var sú umsögn, dags. 19. október sl., kynnt á fundi ráðsins. Sá sem þessu línur ritar er varamaður Sjálfstæðisflokksins í íbúaráði Grafarvogs og tók ekki þátt í því ferli sem lyktaði með umsögn ráðsins. Sundabrautarverkefnið er á margan hátt flókið en mikilvægt er að halda eftirfarandi grundvallaratriðum til haga: (1) Fyrir borgarstjórnarkosningarnar vorið 2022 gaf Sjálfstæðisflokkurinn það út að hefja ætti uppbyggingu Sundabrautar á kjörtímabilinu 2022-2026; (2) Hinn 17. október sl. var Sundabraut til umræðu á fundi borgarstjórnar. Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málefnið kemur m.a. fram að félagshagfræðilegur ábati af þessari samgönguframkvæmd sé talinn verulegur. Jafnframt kemur fram í bókuninni að Sundabraut eigi að komast til framkvæmda við fyrsta mögulega tækifæri. (3) Þótt ástæða sé til að reyna draga úr neikvæðum áhrifum Sundabrautar á nálæga íbúðarbyggð verður við mat á verkefninu að horfa til heildarhagsmuna, m.a. þeirra að með Sundabraut myndi akstur minnka, útblástur sömuleiðis sem og mengun ásamt því að ferðatími vegfaranda myndi styttast til og frá höfuðborgarsvæðinu og innan þess.

     

    Fylgigögn

  3. Lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Grafarvogs, dags. 30. október 2023, einnig lögð fram umsagnarbeiðni skóla- og frístundasviðs, dags. 16. október 2023 um skýrslu starfshóps um framtíðarstarf skóla- og frístundastarfs Klettaskóla, Guluhlíðar, Heklu og Öskju ásamt fylgiskjali. SFS22090172

    Samþykkt að fela formanni að skila umsögn hið fyrsta.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram að nýju  tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks, dags. 2. október 2023, um sýningu á verðlaunatillögum vegna Keldnalands, sbr. 5. liður fundargerðar ráðsins 2. október 2023. MSS23100024

    Vísað til meðferðar umhverfis- og skipulagsráðs. 

    Íbúaráð Grafarvogs leggur fram svohljóðandi bókun:

    Á fundi íbúaráðs Grafarvogs þann 2. okt. sl. lagði Kjartan Magnússon fram tillögu þar sem hann lagði til að opnuð yrði sýning í Grafarvogi á tillögunni sem bar sigur úr bítum í hugmyndasamkeppni í tengslum við fyrirhugaða uppbyggingu í landi Keldna. Tillagan var einnig lögð fram í umhverfis- og skipulagsráði og samþykkt og vísað til umhverfis- og skipulagssviðs. Íbúaráð Grafarvogs fagnar því og hvetur umhverfis- og skipulagssvið til að setja sýninguna upp t.d. í sundlaug Grafarvogs í Dalhúsum eða á bókasafninu í Spönginni.

     

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um samstarfs og samvinnu foreldra í Grafarvogi og tengsl við félagsmiðstöðvar. MSS22090034 

    Ólafur Kári Júlíusson, Ingibjörg Eva Þórisdóttir, Þóra Melsteð, Þórunn Bríet Þrastardóttir og Hildur Þóra Sigurðardóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

Fundi slitið kl. 18:16

Fanný Gunnarsdóttir Ingimar Þór Friðriksson

Helgi Áss Grétarsson Árni Guðmundsson

Tómas Örn Guðlaugsson

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Grafarvogs 6. nóvember 2023