Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals - Fundur nr. 32

Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals

Ár 2023, miðvikudagurinn, 15. mars, var haldinn 32. fundur íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals. Fundurinn var haldinn í Menningarmiðstöðinni í Úlfarsárdal og hófst kl. 16.03. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Stefán Pálsson, Björn Ingi Björnsson, Ellen Ellertsdóttir, Heiða Björk Júlíusdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Sara Björg Sigurðardóttir. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram að nýju bréf skóla- og frístundasviðs, dags. 7. febrúar 2023 með beiðni um umsögn ásamt skýrslu starfshóps um framtíð skóla- og frístundastarfs við Ingunnar-, Dals-, og Sæmundarskóla, sbr. 5. liður fundargerðar ráðsins frá 15. mars 2023. Jafnframt lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals dags. 15. mars. 2023. SFS22040092
    Samþykkt.

    Fulltrúi Samfylkingar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Samfylkingar tekur undir mikilvægi þess að koma sjónarmiðum íbúa á framfæri en á sama tíma þarf að horfa til íbúaþróunar innan hverfisins, samnýtingu húsnæðis og mannvirkja í anda Græna plansins, skynsamlegri ráðstöfun fjármuna og faglegum sjónarmiðum kennslu.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Enn og aftur fara meirihlutaflokkarnir í borgarstjórn af stað með hugmyndir um breytingar á skólahaldi í eystri byggðum borgarinnar sem valda uppnámi og óvissu. Íbúar hafa mátt þola töluverða röskun á skólastarfi á uppbyggingarárum hverfisins og því óskiljanlegt þegar loksins er kominn stöðugleiki í skólamálunum að verið sé að koma þeim í uppnám og valda foreldrum og starfsfólki skólanna áhyggjum. Aukin íbúafjölgun til framtíðar gæti kallað á byggingu nýs skóla en þá er mikilvægt að gott samráð verði haft við íbúa hverfisins um þróun skólastarfsins.
     

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu, dags. 22. febrúar 2023, um uppstillingu kjörseðils í Grafarholti og Úlfarsárdal fyrir Hverfið mitt ásamt fylgiskjölum. MSS22020075
    Samþykkt að óska eftir að eftirtalin verkefni fari á kjörseðil fyrir hverfiskosningar í Hverfið mitt næstkomandi haust:
    1. Hoppubelg við Ingunnarskóla
    2. Gosbrunnur
    3. Útisvæði fyrir allan aldur
    4. Gervigras á malbikaða vellinum (Sæmundarskóli)
    5. Aðstaða til að pumpa í dekk á hjólum
    6. Göngustígur Vínlandsleið
    7. Grillstæði
    8. Stígur milli bílastæðis við Reynisvatns og matjurtagarða
    9. Endurnýja leiksvæðið á milli Gvendargeisla og Biskupsgötu
    10. Skrúðgarður milli hverfa

    Með vísan til 7. gr. samþykktar um íbúaráð fer umræða undir þessum lið fram fyrir luktum dyrum.

    Eiríkur Búi Halldórsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  3. Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034

Fundi slitið kl. 17:19

Stefán Pálsson Sara Björg Sigurðardóttir

Marta Guðjónsdóttir Björn Ingi Björnsson

Ellen Ellertsdóttir Heiða Björk Júlíusdóttir

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals frá 15. mars 2023