Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals - Fundur nr. 20

Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals

Ár 2021, mánudaginn 15. nóvember var haldinn 20. fundur íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur - Tjarnarbúð og með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 17.03. Eftirtaldir fulltrúar íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Freyr Gústavsson, Sigríður Arndís Jóhannsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Þórir Jóhannsson, Gísli Valdórsson og Eyjólfur Eyjólfsson. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Sólveig Ingibjörg Reynisdóttir sem sat fundinn með fjarfundarbúnaði.         

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 28. október 2021 – umsagnir og svör við athugasemdum vegna tillögu að Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.

    Fylgigögn

  2. Fram fer umræða um hugmyndir um uppbyggingu á verslunarhúsnæði við Bauhaus. 
    Samþykkt að taka umræðu um málið upp á næsta fundi eftir að Íbúasamtök Grafarholts hafa tekið málið fyrir á fundi sínum.  

  3. Lagt fram að nýju svar skrifstofu borgarstjórnar og borgarritara dags. 29. september 2021 við fyrirspurn íbúaráðs Grafarholts og Úlfarsárdals um óbyggðar en úthlutaðar lóðir, sbr. 10. liður fundargerðar ráðsins frá 20. september 2021. 

    Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals leggur fram svohljóðandi bókun:

    Nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg veiti lóðarhöfum aðhald og tryggi að ekki verði frekari töf á uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Úlfarsárdal í þeim tilfellum þar sem langt er liðið frá úthlutun lóða. Miklar tafir á uppbyggingu einstakra lóða eru líti á hverfinu auk þess sem þær í mörgum tilfellum hamla frágang á aðliggjandi lóðum. Það er jákvætt að sent hafi verið erindi á lóðarhafa í þeim tilfellum sem skilmálar um uppbyggingu hafi verið brotnir en nauðsynlegt er að Reykjavíkurborg fylgist með því að framkvæmdafrestir séu virtir og beiti þeim úrræðum sem hún hefur, s.s. með afturköllun úthlutunar, sé þörf á slíku.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um hverfissjóð og grasrót í Grafarholti og Úlfarsárdal.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um málefni hverfisins.

  6. Fram fer umræða um útivistarsvæði í Úlfarsárdal.

    Fulltrúi Viðreisnar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Útivistarsvæðið í Úlfarsárdal sem markast af útjaðri byggðanna í Grafarholti, Reynisvatnsási og Úlfarsárdal er vinsælt meðal íbúa og nýtist öllum borgarhlutanum. Uppbyggingu skóla, íþróttaaðstöðu og menningarmiðstöðvar neðst í Úlfarsárdal mun draga enn fleiri íbúa hverfisins og borgarinnar að útivistarsvæðinu. Hér með eru borgaryfirvöld hvött til að hlúa vel að þessu svæði til framtíðar. Nauðsynlegt er að klára stígakerfi dalsins en þar hefur mikið verið gert síðustu ár og vantar lítið upp á svo það geti talist fullklárað. Talsvert hefur verið plantað af trjágróðri á svæðinu, s.s. í tengslum við uppbyggingu á íþróttasvæði Fram, í gegn um íbúakosningar en einnig hafa íbúar sjálfir plantað trjám í dalnum og norðurhlíðum Grafarholts. Ánægjulegt væri ef áfram væri unnið að ræktun gróðurs þar næstu árin. Reynisvatnsvegur liggur sem hraðbraut um útivistarsvæðið þar sem ökuhraði er jafnan langt umfram hámarkshraða. Samhliða uppbyggingu íþrótta- og menningarmannvirkja má gera ráð fyrir auknum fjölda sem sækir yfir Reynisvatnsveg frá Grafarholti og mætti í því samhengi skoða möguleikann á gönguþverun, t.d. við stúdentaíbúðir BN sem og hraðalækkandi aðgerðum á veginum.

  7. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í Borgin okkar 2021 - hverfin. Þessi liður fundarins er lokaður.

    Samþykkt að veita Taktur & sköpun ehf. styrk að upphæð kr. 172.500,- vegna verkefnisins Jóla Diskó. 

    Öðrum umsóknum hafnað. 

    Fylgigögn

  8. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í Forvarnarsjóð Reykjavíkurborgar – Grafarholt og Úlfarsárdalur. Þessi liður fundarins er lokaður. 

    Samþykkt að veita Jónu Hildi Bjarnadóttur styrk að upphæð kr. 141.000 vegna verkefnisins Lýðheilsa í Úlfarsárdal og Grafarholti.
    Samþykkt að veita Gleðiskruddan ehf. styrk að upphæð kr. 141.000,- vegna verkefnisins Gleðiskruddan - jákvæð sálfræði og gleðiverkfærin mín. 

    Fylgigögn

  9. Íbúaráð Grafarholts og Úlfarsárdals leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: 

    Íbúðaráðið óskar eftir upplýsingum um stefnu í skólamálum hverfisins. Skólahúsnæði Dalskóla sem tekið var í notkun að fullu árið 2019 gerir ráð fyrir allt að 45 nemendum í hverri skólastofu í grunnskólahluta skólans, en í dag eru 8 árgangar komnir að þolmörkum og tveir af þeim eru með yfir 50 nemendum. Samkvæmt áætlun um nemendafjölda miðað við uppbyggingu hverfis er gert ráð fyrir um 31% fjölgun nemenda til ársins 2027. Samkvæmt skólastjórnendum hafa verið viðraðar margskonar hugmyndir en óljóst hvert lokaniðurstaðan eigi að vera. Íbúasamtökin óska því eftir upplýsingum um hvert skuli stefna og leggja áherslu á að ákvarðanir séu teknar með víðtæku samráði íbúa og skólastjórenda. Þar sem mikil uppbygging á sér stað í hverfinu um þessar mundir og nemendafjöldi jafnvel að fara fram úr nýlegum áætlunum er lögð áhersla á mikilvægi þess að þetta mál sé tekið til skoðunar hið fyrsta.

    Vísað til umsagnar skóla- og frístundasviðs.

Fundi slitið klukkan 18:04

PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_grafarholts_og_ulfarsardals_-1511.pdf