Íbúaráð Breiðholts - Fundur nr. 49

Íbúaráð Breiðholts

Ár 2024, miðvikudaginn, 12. júní, var haldinn 49. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var haldinn í Suðurmiðstöð og hófst kl. 16.37. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Sara Björg Sigurðardóttir, Helgi Áss Grétarsson, Ásta Birna Björnsdóttir, Júlíus Þór Halldórsson og Þorvaldur Daníelsson. Fundinn sat einnig Jóhannes Guðlaugsson. 
Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð. 

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á verkefninu GreenInCities - Ætigarðar. MSS23070077 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráðið þakkar fyrir spennandi kynningu á verkefninu, vonar að íbúar taki vel á móti verkefninu og hlakkar til að fylgjast með því komast til framkvæmda í hverfinu.

    -    Kl. 16.50 tekur Frank Úlfar Michelsen sæti á fundinum. 

    Mariska Kappert og Bryndís Steina Friðgeirsdóttir taka sæti á fundinum undir þessum lið.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagsviðs dags. 26. apríl, um tillögu íbúaráðs Breiðholts um fýsileika á kaupum og rekstri loftgæðamælis í Breiðholti. MSS24010253 
  3. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 11. júní 2024, um skil á tillögum íbúaráðs Breiðholts að fjárfestingar- og viðhaldsáætlun 2025 ásamt jafnréttisskimun, sbr. samþykkt íbúaráðs Breiðholts frá 2. maí 2024. MSS24040187 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráðið vill vekja athygli á forgangsröðun ráðsins og hefur lagt til að fjárfest verði í Mjódd. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í íbúaráði Breiðholts, vill leggja á það ríka áherslu í fjárfestingar- og viðhaldsáætlun Reykjavíkurborgar, að skiptistöðin Mjódd fá algjöran forgang. Ástandið þar hefur verið ófullnægjandi um langt árabil og löngu tímabært að gerður sé gangskör í að koma starfsemi skiptistöðvarinnar í viðunandi horf. Önnur verkefni, eftir atvikum annars staðar í borginni, svo sem í formi torgagerðar í miðborg Reykjavíkur, eiga að víkja við mótun fjárfestingar- og viðhaldsáætlunar Reykjavíkurborgar. Með öðrum orðum, mun mikilvægara er að Mjóddin verði byggð upp af stórhug og í þessu sambandi er vísað til tillögu íbúaráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram á fundi ráðsins hinn 3. apríl síðastliðinn.

    Fylgigögn

  4. Lögð fram umsagnarbeiðni Skipulagsgáttar dags. 30. maí 2024, um breytingu á deiliskipulagi um Elliðaárdal nr. 0657/2024. Jafnframt eru lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts dags.í dag. USK24050182 
    Samþykkt.
    Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og slembivalins sitja hjá við afgreiðslu málsins. 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráðið vill vekja athygli á mikilvægi þess að kortleggja stofnstíg hjólreiða sem liggur núna úr 111 niður Höfðabakkann frá gatnamótum Vesturhóla þegar umrætt svæði er unnið þar sem um mikilvæga tengingu hjólreiðafólks úr 111 inn á stofnbraut hjólreiða í Elliðaárdalnum, upp á Höfðabakka. Þverun milli hverfa þarf að vera greiðfær, örugg og góð. Vill ráðið að fjölgað verði háum bekkjum í þágu eldra fólks og drykkjarfontum samhliða að hugað verði að sérstakri áningu með tjörn við vatnsinntak pípunnar, Árbæjarmegin, þar sem hægt verður að staldra við, horfa á fuglalífið með aðgengi og fallegu borgarumhverfi. Ráðið vill líka minna á skýrslu og vinnu stýrihóps sem skipaður var um framtíðarsýn Elliðaárdalsins en þar voru mikilvægar tillögur lagðar fram sem koma inn á þá þætti sem deiliskipulagsbreytingin kemur inn á eins og aðgengi allra að dalnum, mótvægisaðgerðir í þágu lífríkis og grænar yfirborðslausnir í þágu árinnar.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í íbúaráði Breiðholts vill leggja á það áherslu að grundvöllur þessarar skipulagslýsingar er reistur á tæmingu Árbæjarlóns, tæming sem framkvæmd var í skjóli nætur haustið 2020. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komst að þeirri niðurstöðu að sú athöfn hafi verið ólögleg. Dómsmál er enn í gangi fyrir Landsrétti vegna þess réttarágreinings. Af þeim ástæðum er skipulagslýsingin ótímabær. Sjá einnig bókun borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins undir dagskrárlið 18. á fundi borgarráðs 2. maí síðastliðinn.

    Fylgigögn

  5. Lögð fram auglýsing Skipulagsgáttar dags. 6. júní 2024, um breytingu á deiliskipulagi um Breiðholt I – Arnarbakka 2-6,8 og 10. Jafnframt eru lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts dags.í dag. USK24030341 
    Samþykkt.
    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins 

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Lóðin við Arnabakka 10 er græna torg hverfisins, sannkallað hverfishjarta. Svæðið mikið notað af börnum í hverfinu, skólum og leiksskólum og öðrum íbúum hverfisins fyrir viðburði og leik. Um er að ræða sólríkan, skjólsælan stað sem stendur hærra en skólalóðin. Vill íbúaráðið að svæðið verði þróað áfram sem grænt torg, mannlífstorg, svæði fyrir fólk í hjarta hverfisins, að gróðurhúsið haldi sér og svæðið þróað áfram í þágu fólks, leiks og samveru en ekki verði byggt á reitnum eins og tillagan gerir ráð fyrir. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í íbúaráði Breiðholts telur að breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagi á Breiðholti 1 – Arnarbakki 2-6,8 og 10, leiða til þess að bílastæðum fækki um of, byggðin verði of þétt og of mikið sé tekið af grænu svæði. Af þeim sökum styður hann ekki umsögn ráðsins.

    Fulltrúi Framsóknar leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Framsóknar í íbúaráði Breiðholts telur að ekki sé horft til þarfar fyrir bílastæði með fullnægjandi hætti þar sem gert er ráð fyrir leikskóla, grunnskóla, verslun og þjónustu auk íbúabyggðar. Reikna má með því að margir þurfi og vilji nýta sér bíla til þess að komast leiðar sinnar, enda fara börn þvers og kruss um borgina á leikskóla, ekki endilega í sínu heimahverfi. Því telur fulltrúinn að ekki sé nóg, þegar tekið er tillit til starfsfólks allra þessara staða auk nýrra íbúa, að gera ráð fyrir rúmlega 70 bílastæðum á svæðinu. Ráð væri að skoða hvort setja mætti bílastæðahús þarna neðanjarðar.

    Fulltrúi slembivalins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Slembivalinn fulltrúi í íbúaráði styður byggingu leikskóla í breyttu deiliskipulagi og af þeim ástæðum kaus hann að styðja umsögn íbúaráðsins. Á hinn bóginn tekur hann undir það sem fram kemur í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, það er, að deiliskipulagsbreytingin leiði til þess að bílastæðum fækki um of, byggðin verði of þétt og of mikið sé tekið af grænu svæði.

    Fylgigögn

  6. Samþykkt að taka á dagskrá auglýsingu Skipulagsgáttar dags. 30. apríl 2024, um tillögu að breytingu á deiliskipulagi vegna Breiðholts III, vegna Völvufells. Jafnframt eru lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts dags. í dag. USK23120184
    Samþykkt.
    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins. 

    Fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, íbúasamtaka, foreldrafélaga og slembivalins leggja fram svohljóðandi bókun:

    Vilja fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, íbúasamtaka, foreldrafélaga og slembivalins brýna skipulagsyfirvöld og skrifstofu lóðaúthlutunar að huga að öllum þáttum borgarþróunar í sinni vinnu, eigindum hverfanna með hliðsjón að niðurstöðu rannsóknar dr. Kolbeins H. Stefánsson áður en þau breyta deiliskipulagstillögum sem geta haft veruleg áhrif á eðli og þróun íbúasamsetningar í hverfinu til framtíðar, eins og að taka út stúdentaíbúðir.

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í íbúaráði Breiðholts telur að breytingar á fyrirliggjandi deiliskipulagi á Breiðholti III, Fell vegna Völvufells, hafi sína kosti og galla. Þótt ákveðnir þættir í umsögn íbúaráðsins séu prýðilega rökstuddir, svo sem að óskynsamlegt sé að fjarlægja allar námsmannaíbúðir, þá eru of margar fullyrðingar settar fram í umsögninni sem fulltrúinn getur ekki skrifað upp á. Af þeim ástæðum situr hann hjá í málinu. 

    Fulltrúi íbúasamtaka Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Íbúasamtaka tekur undir umsögn formanns að mestu leyti, sér í lagi hvað varðar mikilvægi félagslegrar blöndunar og þau tækifæri sem í þróunarreitum innan gróinna hverfa felast í því sambandi. Hann telur hinsvegar ekki sannað að óbreytt deiliskipulag þrátt fyrir þau jákvæðu áhrif sem vænta megi af tilkomu námsmannaíbúða inn í hverfið sé betur til þess fallið að ná ofangreindu markmiði. Fram hafa komið sjónarmið um að skortur á stærri fjölbýliseignum ýti fjölskyldum sem þurfa að stækka við sig út úr hverfinu. Millitekjuhópar á höttunum eftir slíkum eignum í millistærð sem gætu hjálpað til við að jafna út þá skekkju sem fram kemur í umsögn formanns komast því ekki að. Hér er því um að ræða tvær ólíkar leiðir að sama markmiði. Loks verður varla horft fram hjá þeim mikla og viðvarandi húsnæðisskorti sem ríkt hefur síðustu ár og ekki sér fyrir endann á. Allar þær aðgerðir sem stuðla að því að draga úr þeim skorti, hversu smávægileg sem hver og ein íbúð eða blokk kann að virðast í því samhengi, eru því til þess fallnar að bæta kjör þeirra sem sá skortur hefur komið hvað verst niður á, sem eru einmitt þeir hópar sem eru hvað hlutfallslega fjölmennastir í umræddu hverfi.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 28. maí 2024, um Þjónustukönnun íbúa. MSS24050136

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf borgarstjóra og borgarritara dags. 4. júní 2024, um samantekt íbúafundar borgarstjóra í Breiðholti. MSS24020072 

    Fylgigögn

  9. Lögð fram auglýsing Skógræktarfélagsins dags. 3. maí 2024, um Hverfistré Reykjavíkur. MSS24050013 

    Fylgigögn

  10. Fram fer umræða um fundadagatal íbúaráðs Breiðholts haust 2024. MSS22090031-
    Samþykkt að fyrsti fundur íbúaráðs Breiðholts eftir sumarleyfi verði 21. ágúst nk. 
  11. Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034 

Fundi slitið kl. 18.56

Sara Björg Sigurðardóttir Helgi Áss Grétarsson

Þorvaldur Daníelsson Ásta Birna Björnsdóttir

Júlíus Þór Halldórsson Frank Úlfar Michelsen

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Breiðholts frá 12. júní 2024