Íbúaráð Breiðholts - Fundur nr. 44

Íbúaráð Breiðholts

Ár 2024, miðvikudaginn, 10. janúar, var haldinn 44. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var haldinn í Suðurmiðstöð og hófst kl. 16.31. Eftirtaldir fulltrúar voru viðstaddir: Sara Björg Sigurðardóttir, Ágústa Ýr Þorbergsdóttir, Frank Úlfar Michelsen og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar í íbúaráði Breiðholts tóku sæti á fundinum með rafrænum hætti með vísan í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Ásta Björg Björgvinsdóttir. Fundinn sátu einnig Jóhannes Guðlaugsson og Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Fram fer kynning á loftgæðum, svifryki og eftirliti í Breiðholti. MSS24010063

    Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráðið vill þakka fyrir faglega og fræðandi kynningu loftgæðum, svifryki og eftirliti með því hjá Reykjavíkurborg. Sláandi eru áhrif og afleiðingar svifryks á heilsu fólks, sérstaklega barna, eldra fólks og fólks með undirliggjandi sjúkdóma. Því er mikilvægt að fylgjast reglulega með loftgæðum þar sem þung umferð liggur nálægt íbúabyggð, íþróttamannvirkjum og útivistasvæðum. Vill íbúaráðið leggja þunga áherslu á að mikilvægt sé að fylgst sé með loftgæðum í og við íþróttamannvirki ÍR í Mjódd, við útivistasvæði Elliðaárdals og við íbúabyggð sem liggur næst þungum umferðaæðum eins og Reykjanesbraut, Breiðholtsbraut, nýjum Arnarnesveg og Stekkjarbakka.

    Svava Svanborg Steinarsdóttir tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði. 

    -    Kl.16.35 tekur Arent Orri Jónsson sæti á fundinum. 

    Fylgigögn

  2. Lögð fram að nýju tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks um umferðaröryggi og vegtengingar við nýtt húsnæði Garðheima, sbr. 3. liður fundargerðar ráðsins 8. nóvember 2023. MSS23110005

    Lögð fram svohljóðandi breytingartillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokks:

    Lagt er til að íbúaráð Breiðholts samþykki að beina því til umhverfis- og skipulagsráð að tryggja að umferð vélknúinna ökutækja að nýopnuðum Garðheimum verði gerð öruggari hið fyrsta, t.d. með tímabundinni setningu hraðahindrana með tilliti til framtíðaráforma svæðisins. Að lágmarki leggur íbúaráðið til að merkingar fyrir alla vegfarendur til og frá Garðheimum verði gerðar eins glöggar og kostur er.

    Breytingatillögunni fylgir greinargerð.

    Breytingatillaga er felld með þremur atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar og íbúasamtaka gegn þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks, foreldrafélaga og slembivalins fulltrúa. 

    Upphafleg  tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokk um umferðaröryggi og vegtengingar við nýtt húsnæði Garðheima er felld með fjórum atkvæðum fulltrúa Samfylkingar, Framsóknar og íbúasamtaka gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og slembivalins fulltrúa. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks og slembivalinn fulltrúi leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins og slembivalinn fulltrúi í íbúaráði Breiðholts telja brýnt að umferðaröryggismál við nýja verslun Garðheima í S-Mjódd verði komið í viðunandi horf, bæði til lengri og skemmri tíma. Full þörf var því á að samþykkja fyrirliggjandi tillögu, í stað þess að hafna henni. Þá vill fulltrúi Sjálfstæðisflokksins benda á að með breytingartillögu var bætt úr þeim „vanköntum“ sem fulltrúum íbúðaráðs fannst liggja á upprunalegri tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Ástæða er til að harma þessa afgreiðslu meirihluta ráðsins.

    Fulltrúi Samfylkingar, Framsóknar og íbúasamtaka leggja fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Breiðholts fékk kynningu á skipulagi og umferðaöryggi við Garðaheimareit á fundi ráðsins 6. desember 2023. Þar kom fram í kynningu sérfræðinga að með því að hleypa frekari umferð inn á Álfabakka með sér frárein eða sértækum vegtengingum myndi það ekki bara stuðla að frekari gegnum streymisumferð heldur líka hækka umferðahraða um Álfabakka og í gegnum Árskóga. Jafnframt kom fram að veghelgunarreglur Vegagerðarinnar leyfa ekki þessa tillögu en þær gera ráð fyrir að þessi tegund vega hafi ekki nægilega vegalengd á milli gatnamóta og leyfa því ekki bæta við tengingu eins og tillagan leggur upp með. Í ljósi þessa telja fulltrúar íbúaráðsins best að vísa frá tillögunni frá. Hvatt er til þess að samgöngusvið fylgist með umferðaöryggi og bílaumferð og eftir atvikum bregðist við ábendingum meðan framkvæmdum stendur.

    -    Kl.17.36 víkur Ásta Björg Björgvinsdóttir af fundinum og aftengist fjarfundarbúnaði. 

    -    Kl.17.36 tekur Þorvaldur Daníelsson sæti á fundinum. 

    -    Kl. 18.12 víkur Ágústa Ýr Þorbergsdóttur af fundi. 

    Fylgigögn

  3. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. nóvember 2023, um auglýsingu á tillögu breytingu á hverfisskipulagi vegna Breiðholt, hverfi 6.3 Efra Breiðholt - Hraunberg 5. USK23040056

    Fylgigögn

  4. Lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 28. desember 2023, við fyrirspurn íbúaráðs Breiðholts um gangstéttarbút við Lambasel, sbr. 6. liður fundargerðar ráðsins frá 4. október 2023. MSS23100041

    Fylgigögn

  5. Lagt fram svar skrifstofu samgangna og borgarhönnunar, dags. 29. desember 2023, við fyrirspurn íbúaráðs Breiðholts um aðkomu sorp- og neyðarbíla við Kötlufell, sbr. 6. liður fundargerðar ráðsins frá 4. október 2023. MSS23100040

    Fylgigögn

  6. Lagt fram fundadagatal íbúaráðs Breiðholts - vor 2024. MSS22090031

    Samþykkt.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um málefni hverfisins. MSS22090034

Fundi slitið kl. 18.38

Sara Björg Sigurðardóttir Þorvaldur Daníelsson

Arent Orri Jónsson Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir

Frank Úlfar Michelsen

PDF útgáfa fundargerðar
Fundargerð íbúaráðs Breiðholts 10. janúar 2024