No translated content text
Íbúaráð Breiðholts
Ár 2021, mánudagur, 6. desember, var haldinn 24. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn fór fram í þjónustumiðstöð Breiðholts og hófst kl. 16.31. Fundinn sátu Sara Björg Sigurðardóttir, Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir og Alda Líf Guðmundardóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í 1. málsl. 1. mgr. 54. gr. sbr. 4. málsl. 1. mgr. 13. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar varðandi fjarfundaheimild: Geir Finnsson, Ágústa Ýr Þorbergsdóttir og Örn Þórðarson. Fundinn sat einnig Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Þráinn Hafsteinsson.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 3. nóvember 2021 þar sem tilkynnt er að borgarstjórn hafi samþykkt að Baldur Borgþórsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Breiðholts í stað Jóns Hjaltalín Magnússonar.
Fylgigögn
-
Fram kynning á Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025.
Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráð Breiðholts fagnar nýrri hjólreiðaáætlun og fimm milljarða fjárfestingu í hjólreiðainnviðum. Ráðið gerir athugasemdir við rök sem koma fram í áætluninni um að tækifæri séu til að fjölga hjólandi í hverfum vestan Elliðaáa, frekar en eystri hverfum borgarinnar m.a. vegna þess að þau umlykja helstu atvinnu- og þjónustuhverfi borgarinnar. Myndir af Hjólanetinu sýna skýrt að hverfin austan Elliðaáa skortir hjólastíga m.v. stöðuna vestan Elliðaáa en þar er netið mun þéttara en austan megin. Íbúaráðið gerir athugasemdir við þá forgangsröðun fjármuna að efla enn frekar hjólanet vestan borgarinnar, sem geymir nú þegar mun þéttara hjólanet, fleiri upphitaða stíga en hverfin austan megin sem standa hærra yfir sjávarmáli og vetrarfærð er þyngri. Lengra er að komast inn á stofnstíga hjólreiða úr Breiðholti og stígakerfið, eins og það birtist í mynd af hjólaneti 2030, býður ekki upp á að þvera Breiðholtið milli hverfishluta að hverfiskjörnum eins og Mjódd. Íbúaráðið vill hvetja stýrihópinn til að endurskoða þá forgangsröðun sem samþykkt hefur verið í hjólreiðastefnunni, með hagsmuni Breiðholts og annara hverfishluta austan Elliðaáa að leiðarljósi. Til að leggja grunn að Mjódd sem samgöngumiðstöð Borgarlínu þarf bæði að auka þéttleika hjólanetsins innan hverfishluta Breiðholtsins sem leiða til Mjóddar og að setja í forgang þverun milli eystri hverfishlutanna.
Kristinn Jón Eysteinsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um samgönguinnviði vegna hjólreiða í Breiðholti.
Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið þakkar góða kynningu á hjólreiðaáætlun borgarinnar 2021-2025. Tekið er undir þau áhugaverðu sjónarmið sem fram komu í umræðu íbúaráðs, um að hlúa þyrfti sérstaklega að hjólreiðum barna og ungs fólks í hverfinu. Hvatt er til að gert verði sérstakt „krakkakort“ sem horfi sérstaklega til þarfa þessa hóps, auki áhuga þeirra á þessum ferðamáta innan hverfis. Sömuleiðis verði sérstaklega horft til öryggis þeirra í ferðum sínum. Skipulagðar hjólaleiðir innan hverfis; til og frá skóla, íþrótta- og tómstundastarfs, í verslanir og til annarra erinda, eru mikilvægur þáttur í að efla hverfið og gera það sjálfbærara. Hjólreiðar innan hverfis eru sömuleiðis lýðheilsumál. Hvatt er til þess að strax verði farið að huga að þessum þáttum varðandi næstu skref í hjólreiðaáætlun borgarinnar, þ.e. að hjólreiðar innan hverfa fái aukna athygli og aukið vægi í áætlunum.
-
Lagt fram bréf mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu dags. 8. nóvember 2021 vegna niðurstaðna kosninga í Hverfið mitt.
Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráð Breiðholts hlakkar til að sjá þau verkefni sem kosin voru til framkvæmda glæða hverfið enn meiri lífsgæðum fyrir breiðan aldur og ólíkar árstíðir. Jafnframt þakkar ráðið íbúum fyrir skapandi og fjölbreyttar hugmyndir og öllum þeim sem kusu áfram hugmyndir til framkvæmdar, sumar eru nú þegar komin í framkvæmd eins og uppsetning jólaljósa við Seljatjörn.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 28. október 2021 vegna umsagna og svara við athugasemdum vegna tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur til 2040.
Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráð Breiðholts áréttar mikilvægi þess að hæð bygginga í Mjódd sé nú miðuð við 4-7 hæðir í stað 8+ eins og var heimilt í fyrra skipulagi. Íbúaráðið er ánægt hversu vel skipulagsyfirvöld reyndu að koma til móts við athugasemdir ráðsins og íbúa er varðar hæðir húsa í Mjódd og skýran vilja þeirra við að einungis stakar byggingar noti hámarksheimildir hæðar. Enn fremur gleðst ráðið að settar voru ríkari kröfur um gæði við hönnun m.t.t. sólríkra dvalarstaða og almenningsrýma. Ráðið tekur samhliða undir mikilvægi þess að við mótun byggðar verði reynt að skala hana niður næst hinni lágreistu íbúðarbyggð og lágmarka þannig skuggavarp.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni hverfisins.
-
Lagðar fram greinargerðir vegna Borgin okkar. Þessi liður fundarins er lokaður.
A) Rathlaupafélagið Hekla/Rathlaup í Breiðholti.
- 17:38 víkur Ágústa Ýr Þorbergsdóttir af fundi og aftengist fjarfundarbúnaði.
-
Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í hverfissjóði. Þessi liður fundarins var lokaður.
Samþykkt að veita Foreldrafélagi Ölduselsskóla styrk að upphæð kr. 250.000,- vegna verkefnisins Jólaþorp Ölduselsskóla.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 17:47
Sara Björg Sigurðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_breidholts_0612.pdf