Íbúaráð Breiðholts
Ár 2020, mánudagur, 7. desember 2020, var haldinn 12. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var með fjarfundarbúnaði og hófst kl. 16.31. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 1076/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Sara Björg Sigurðardóttir, Þórunn Hilda Jónasdóttir, Egill Þór Jónsson, Jóhanna, Dýrunn Jónsdóttir, Ólafur Gylfason og Guðrún Axelsdóttir. Fundinn sátu einnig með fjarfundarbúnaði Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Þráinn Hafsteinsson.
Þetta gerðist:
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 6. nóvember 2020, um framlengingu á heimild til nýtingar fjarfundabúnaðar á fundum ráða og nefnda Reykjavíkurborgar.
Fylgigögn
-
Fram fer kynning á íþrótta- og tómstundamálum í Breiðholti.
Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið þakkar fyrir góða kynningu á íþrótta - og tómstundarmálum í Breiðholti. Mikil uppbygging er á innviðum í hverfinu tengt íþróttastarfsemi ásamt því býr hverfið af blómlegu tómstundastarfi. Með samstilltu tilraunaverkefni næstu þriggja ára er ósk ráðsins að fjölgun verði á þátttöku barna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi þannig að markmið tilraunaverkefnisins verði náð.
Ómar Einarsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.
-
Fram fer kynning á styrktarsjóði til eflingar íþrótta- og frístundaþátttöku barna og ungmenna í Breiðholti
Íbúaráð Breiðholts leggur fram svohljóðandi bókun:
Íbúaráðið þakkar fyrir kynningu á nýjum styrktarsjóði til eflingar íþrótta- og frístundarþátttöku barna og ungmenna í Breiðholti. Það er ósk ráðsins að sjóðurinn nái að styrkja þann hóp sem honum er ætlað að ná til og gefa fleiri börnum og ungmennum tækifæri til að finna sig í skipulögðu frístundastarfi.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um breytingar á rekstri Árbæjarstíflu.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
Farið var í að tæma Árbæjarlón, 29. október án þess að fengnar væru umsagnir frá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun. Þessara umsagna ber að afla þar sem Elliðaárdalur og Elliðavatn eru á náttúruminjaskrá. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 23. nóvember segir meðal annars: „Að mati Náttúrufræðistofnunar er veikleiki þess sem hér hefur verið til umræðu sá að aðeins er verið að skoða hluta af því́ svæði sem raunverulega hefur verið raskað, en ekki heildarmyndina, og ekki fjallað um mögulega kosti og galla endurheimtar á sameiginlegum vettvangi.” - Að framansögðu er rökrétt að fara í heildarskoðun á framtíð Elliðavatns og Elliðaáa. Á meðan því er ólokið er réttast að bíða með varanlega tæmingu Árbæjarlóns. Því liggur beinast við að Orkuveitan láti renna í lónið aftur þangað til heildarniðurstaða liggur fyrir. Einnig er ámælisvert að bæði íbúar í nærliggjandi umhverfi, íbúaráð og íbúasamtök, Hollvinasamtök Elliðaárdalsins og borgarstjórn hafi ekki verið látin vita af ákvörðuninni. Til að bæta gráu ofan á svart var stjórn Orkuveitunnar ekki upplýst um málið né umhverfisráð Reykjavíkurborgar sem fundaði t.a.m. deginum áður en verknaðurinn átti sér stað. Fram kemur, 5. desember í Fréttablaðinu orðrétt: „Skipulagsfulltrúinn í Reykjavík segir þá ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur að tæma Árbæjarlón varanlega ekki samræmast deiliskipulagi.“
Bjarni Bjarnason tekur sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði undir þessum lið.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 15. október 2020 – drög að tillögum að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040.
Fulltrúi Samfylkingar, fulltrúi Viðreisnar, fulltrúi íbúasamtaka og fulltrúi slembivalinna í íbúaráði Breiðholts leggja fram svohljóðandi bókun:
Skipulagsyfirvöld borgarinnar eru hvött til að taka tillit til umsagnar ráðsins og athugasemda við viðmiðunarhæð bygginga í Norður Mjódd sem eru lögð við bréf umhverfis- og skipulagssviðs dags. 15. október 2020 – drög að tillögum að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040.
Fylgigögn
-
Lagt fram erindi Vina Vatnsendahvarfs dags. 7. desember 2020 um drög að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.
Erindinu vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs.Fylgigögn
-
Lögð fram drög að umsögn íbúaráðs Breiðholts um drög að tillögum að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar 2010-2030, Endurskoðun á stefnu um íbúðarbyggð og blandaða byggð og framlenging skipulagstímabils til ársins 2040.
Samþykkt.Íbúaráðsfulltrúi Sjálfstæðisflokks situr hjá við afgreiðslu málsins.
Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:
Athugasemd er gerð við þau vinnubrögð að verið sé að ráðast í mjög stórar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur á tímum þegar kórónuveiran hefur breytt takti samfélagsins verulega. Ekki hefur verið hægt að halda opna íbúafund vegna ástandsins. Réttast væri að fresta þessum breytingum þar til hægt verður að kynna þær og fá þannig fram íbúasamráð eins og stefna borgarinnar gerir ráð fyrir.
Fylgigögn
-
Lögð fram sameiginleg umsögn fulltrúa Sjálfstæðisflokks, fulltrúa foreldrafélaga og fulltrúa slembivalinna, dags. 13. október um tillögu að hámarkshraðaáætlun fyrir borgarhlutann.
Fylgigögn
-
Lögð fram sameiginleg umsögn fulltrúa Samfylkingar og fulltrúa Viðreisnar, dags 13. október 2020 um tillögu að hámarkshraðaáætlun fyrir borgarhlutann.
Fylgigögn
-
Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar, dags. 12. nóvember 2020, vegna samþykktar á tillögu um framlengingu tilraunaverkefnis um ný íbúaráð til 1. júlí 2021.
Fylgigögn
-
Svar þjónustumiðstöðvar Breiðholts dags. 9. september 2020 við fyrirspurn fulltrúa Sjálfstæðisflokks um fyrirkomulag frístundaverkefnis í Breiðholti, sbr. 12 .lið fundargerðar ráðsins 7. september 2020.
Fylgigögn
-
Fram fer umræða um málefni hverfisins.
-
Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í hverfissjóð. Þessi liður fundarins er lokaður.
Samþykkt að veita Leikni styrk að upphæð kr. 400.000,- vegna verkefnisins Ferðalög yngri flokka.
Samþykkt að veita Foreldrafélagi Breiðholtsskóla styrk að upphæð kr. 150.000,- vegna verkefnisins Jólasveinaheimsókn.
Samþykkt að veita Foreldrafélagi Ölduselsskóla styrk að upphæð kr. 400.000,- vegna verkefnisins Jólaþorp Ölduselsskóla.
Samþykkt að veita Foreldrafélagi Breiðholtsskóla styrk að upphæð kr. 70.000,- vegna verkefnisins Rafrænt matreiðslunámskeið.Öðrum umsóknum hafnað.
Fylgigögn
Fundi slitið klukkan 19:07
Sara Björg Sigurðardóttir
PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_breidholts_0712.pdf