Íbúaráð Breiðholts - Fundur nr. 10

Íbúaráð Breiðholts

Ár 2020, mánudagur, 7. september 2020, var haldinn 10. fundur íbúaráðs Breiðholts. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur, Tjarnarbúð og hófst kl. 17:35. Fundinn sat Sara Björg Sigurðardóttir, Geir Finnsson Ólafur Gylfason og Guðrún Þórdís Axelsdóttir. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitastjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Egill Þór Jónsson og Jóhanna Dýrunn Jónsdóttir. Fundinn sat einnig Elísabet Pétursdóttir sem og Heimir Snær Guðmundsson sem ritaði fundargerð og Þráinn Hafsteinsson sem sátu fundinn með fjarfundarbúnaði.

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf skrifstofu borgarstjórnar dags. 2. september 2020 um að borgarstjórn hafi á fundi sínum 1. september 2020 samþykkt að Þórarinn Snorri Sigurgeirsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Breiðholts í stað Þórarins Alvars Þórarinssonar.

    Fylgigögn

  2. Lagt fram fram bréf til nefnda og ráða Reykjavíkurborgar frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 1. september 2020, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um heimildir til frávika frá skilyrðum sveitastjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélögum – notkun fjarfundarbúnaðar.

    Fylgigögn

  3. Fram fer kynning á starfsemi þjónustumiðstöðvar Breiðholts og umræða um samstarf við íbúaráð Breiðholts. 

    Óskar Dýrmundur Ólafsson tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  4. Lagt fram svar umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 20. ágúst við fyrirspurn íbúaráðs Breiðholts um aðbúnað við göngubrautir og stefnu varðandi öryggismyndavélar, sbr. 9. lið fundargerðar ráðsins frá 2. mars. 2020.

    Fylgigögn

  5. Fram fer umræða um dagskrá funda íbúaráðs Breiðholts. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

    Athugasemdir eru gerðar við að ítrekað eru dagskrárliðir teknir inn á fund með þeim afleiðingum að fundarmenn þurfa að bregðast við stórum og smáum málum án undirbúnings. Þetta er ekki vönduð stjórnsýsla.

  6. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags 3. júní 2020 vegna draga að tillögu á breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, varðandi skilgreiningu nýrra reita fyrir íbúðabyggð. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Mikilvægt er í nafni aukins upplýsingaflæðis og opinnar stjórnsýslu að allir íbúar séu vel upplýstir um hvaða skipulagsbreytingum er verið að vinna að. Það yrði góður bragur á slíkum vinnubrögðum enda geta breytingar í grónum hverfum verið viðkvæmar og breytingarnar haft mikil áhrif á þá byggðaþróun sem fyrir er. Varðandi skipulagsreitinn í Arnarbakka er mikilvægt að standa vörð um Bakkatún. Mögulega þarf að minnka byggingarmagn svo þær fyrirætlanir gangi eftir. Einnig vakna spurningar hvernig borgin ætlar að bregðast við áhyggjum borgarbúa um meintan bílastæðavanda sem á eftir að skapast á svæðinu. Spurningar vakna hvort kvaðir verði settar á nýju íbúðirnar um að eigendur hafi ekki bíl til umráða. Enn fremur er mikilvægt að á Rangárselssvæðinu verði farið í náið samráð við íbúa, fyrirtæki og stofnanir svæðisins um framtíð þess. Mikill órói hefur verið á svæðinu vegna skipulagsmála. Mikilvægt er að ná sáttum um framtíðaráætlanir svæðisins.

    Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun: 

    Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar gleðjast yfir þeirri uppbyggingu sem framundan er í Breiðholti. Mikilvægt er að tryggja fjölbreytt framboð íbúðarhúsnæðis þannig að sjálfbær borgarþróun verði tryggð til framtíðar. Hluti af því er uppbygging þéttrar og blandaðar byggðar innan Breiðholtsins. Fulltrúarnir vilja samhliða árétta mikilvægi grænna svæða og garða í hjarta hverfanna, enda skipta þau íbúana máli. Í tillögunum er t.d. ráðgert að taka sneið af Bakkatúni við Arnarbakka, en túnið tengir miðju hverfisins saman á einn stað. Bakkatúnið og brekkan eru mikið notuð af íbúum hverfisins allt árið um kring og sérstaklega öruggt leiksvæði fyrir börn og langt frá bílaumferð. Stíga þarf varlega til jarðar þegar tekið er af grænum svæðum sem íbúar hverfanna nýta sér.

    Fulltrúi foreldrafélaga leggur fram svohljóðandi bókun: 

    Aukið verslunar- og þjónusturými inn í miðjum íbúðahverfum, s.s. Rangársel, Yrsusel og Arnarbakka er tímaskekkja og mistök sem er búið að prufa í Breiðholtinu áður. Nú þegar er offramboð af þjónustuhúsnæði í Reykjavik og aukning á því í hjarta íbúðahverfa er ekki til fallin að auka kyrrð og ró í hverfinu. Þessi viðbót gengur þvert á vilja megin þorra sem tóku þátt í hverfisgöngunum sem völdu þessi íbúðahverfi til að búa í vegna þess sem þau hafa nú upp á að bjóða.

    Fylgigögn

  7. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 3. júní 2020 vegna draga að tillögu á breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, er varðar m.a. skerpingu á heimildum vegna sértækra búsetuúrræða. 

    Fulltrúi Samfylkingar og fulltrúi Viðreisnar leggja fram svohljóðandi bókun:

    Fulltrúar Samfylkingar og Viðreisnar fagna því að skerpt verður á landnotkunarheimildum varðandi staðsetningu sértækra búsetuúrræða til að hægt sé að bregðast við tímabundinni húsnæðisþörf eftir því sem þörf krefur með eins skjótum hætti og kostur er t.d. með færanlegum mannvirkjum. Eitt af markmiðum húsnæðisstefnu aðalskipulagsins er að tryggja húsnæði fyrir alla og tryggja búsetukosti fyrir alla þjóðfélagshópa.

    Fylgigögn

  8. Lagt fram bréf umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar dags. 4. september 2020 þar sem óskað er eftir umsögn á tillögu að hámarkshraðaáætlun Reykjavíkurborgar fyrir borgarhlutann. 
    Frestað. 

    Fylgigögn

  9. Fram fer umræða um málefni hverfisins.

  10. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í hverfissjóð. Þessi liður fundarins er lokaður. 
    Samþykkt að veita Knattspyrnudeild ÍR styrk að upphæð kr. 411.000,- vegna verkefnisins ÍR rútan.

    Öðrum umsóknum hafnað eða frestað.

    Fylgigögn

  11. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum um það hvort borgin ætli að setja kvaðir á nýjar íbúðir á þéttingareitum í Breiðholti, að nýir eigendur íbúða hafi ekki bíl til umráða, í ljósi þess að bílastæðum verði ekki fjölgað.

    Vísað til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs

  12. Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi fyrirspurn:

    Óskað er eftir upplýsingum hvort fjármunum í nýju tilraunaverkefni – Frístundir í Breiðholti sé skipt sérstaklega milli íþróttafélaga og þeirra sem sjá um frístundastarf. Einnig er óskað eftir upplýsingum um hvort ákveðin lágmarksupphæð sé eyrnamerkt íþróttafélögum sérstaklega. Verða gerðar sérstakar ráðstafanir verði þátttaka í hverfi 111 dræm, þá í samstarfi við íþróttafélagið Leikni sem hefur aðsetur í hverfi 111, í ljósi þess að í því hverfi er notkun frístundakorts áberandi verst samanborið við önnur hverfi borgarinnar?

    Vísað til umsagnar íþrótta- og tómstundasviðs. 

PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_breidholts_0709.pdf