Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts - Fundur nr. 6

Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts

Ár 2020, þriðjudaginn 9. júní, var haldinn 6. fundur íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts. Fundurinn var haldinn í Árseli og hófst kl. 16.35. Fundinn sat Þorkell Heiðarsson, Ásta Katrín Hannesdóttir, Björn Gíslason, Elvar Örn Þórisson, Hrönn Vilhjálmsdóttir og Eve Alice Lucienne Leplat. Fundinn sátu þrír gestir. Elísabet Pétursdóttir ritaði fundargerð

Þetta gerðist:

  1. Lagt fram bréf til nefnda og ráða Reykjavíkurborgar frá skrifstofu borgarstjórnar dags. 3. júní 2020, um samþykkt borgarstjórnar á tillögu um framlengingar heimildar til frávika frá skilyrðum sveitastjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagum – notkun fjarfundarbúnaðar.

    Fylgigögn

  2. Umræða um samstarf ungmennaráðs í hverfinu og íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts.
    Frestað.

  3. Lögð fram umsögn fulltrúa Samfylkingar, íbúasamtaka og slembivalinna ódags. um tillögu að deiliskipulagi fyrir borgargarðinn í Elliðaárdal. 

    Fulltrúi Sjálfstæðisflokks leggur fram svohljóðandi bókun:

    Það svæði sem nú er skilgreint sem þróunarsvæði undir atvinnustarfsemi við Stekkjarbakka er undanskilið fyrirliggjandi deiliskipulagi Elliðaárdals. Það er miður. Eðlilegast hefði verið að skilgreina borgargarðinn víðar og ná þannig sátt um mörkun dalsins eins og lagt var upp með í skýrslunni „Sjálfbær Elliðaárdalur – Stefna Reykjavíkur“ sem starfshópur undir forystu formanns borgarráðs S. Björns Blöndal lauk við og skilaði 31. ágúst 2016 og lagt var fram í borgarráði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ítrekað gert athugasemdir við þessi vinnubrögð núverandi meirihluta borgarinnar er varðar Elliðaárdalinn. Sjálfstæðisflokkurinn leggur ríka áherslu á verndun grænna svæða í borgarlandinu. Samtök eins og Hollvinasamtök Elliðaárdalsins, Landvernd og Stangaveiðifélag Reykjavíkur hafa lagst gegn fyrirhuguðum stórframkvæmdum í Elliðaárdal. Þess utan hafa bæði Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun talið að þær framkvæmdir sem ráðgert er að ráðast í geti skaðað lífríki Elliðaárdalsins.

    Fylgigögn

  4. Fram fer umræða um aðkomu íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts að fjárfestingar- og viðhaldsáætlun Reykjavíkurborgar. 

    Lögð fram svohljóðandi málsmeðferðartillaga íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts:

    Lagt er til að ráðið auglýsi eftir ábendingum íbúa um viðhaldsþörf og verkefni sem ráðast þarf í varðandi fjárfestingar- og viðhaldsáætlun Reykjavíkurborgar. Sérstaklega verður leitað til bakhóps í þessu sambandi. 
    Samþykkt. 

    Fylgigögn

  5. Lagt fram til upplýsingar bréf umhverfis- og skipulagssviðs til íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts dags. 3. júní 2020, vegna draga að breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkur. Í tillögunni er skerpt á heimildum er varða sérstök búsetuúrræði innan mismunandi landnotkunarsvæða aðalskipulagsins.

    Fylgigögn

  6. Lagt fram til upplýsingar bréf umhverfis- og skipulagssviðs til íbúaráðs Árbæjar og Norðlingaholts dags 3. júní 2020, vegna draga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 - 2030 varðandi skilgreiningu nýrra reita fyrir íbúðarbyggð.

    Fylgigögn

  7. Fram fer umræða um ófullnægjandi merkingar á gangbraut á Selásbraut til móts við Norðurás.

    Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts leggur fram svohljóðandi bókun:

    Íbúaráð Árbæjar og Norðlingaholts hefur fengið ábendingu frá íbúum um ófullnægjandi merkingar (sebramerking og lýsing á skilti) á gangbraut á Selásbraut til móts við Norðurás. Íbúar hafa þegar komið ábendingum þar að lútandi á framfæri við borgaryfirvöld en erindi þeirra ekki verið svarað. Þessi gangbraut er tenging barna í Seláshverfi við tómstundir og skóla og mikilvægt öryggisatriði að hún sé vel merkt og frágangi við hana verði lokið. Íbúaráð fer þess á leit við umhverfis- og skipulagssvið að gripið verði til viðeigandi ráðstafana án tafar.

  8. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir vegna Sumarborgar 2020 – hverfin. 
    Frestað.

  9. Lagðar fram til afgreiðslu umsóknir í hverfissjóð. Þessi liður fundarins er lokaður. 

    Samþykkt að veita Íbúasamtökum Árbæjar, Ártúnsholts og Seláss styrk að upphæð kr.400.000,- vegna verkefnisins Jólatónleikar 2020. 

    Samþykkt að veita Íbúasamtökum Árbæjar, Ártúnsholts og Seláss styrk að upphæð kr. 202.000,- vegna verkefnisins Jólatrésskemmtun og tendrun Árbæjartrésins 2020 við Árbæjarkirkju. 

    Fulltrúi Íbúasamtaka víkur af fundinum undir þessum lið. 

    Fylgigögn

Fundi slitið klukkan 18:08

PDF útgáfa fundargerðar
ibuarad_arbaejar_og_nordlingaholts_0906.pdf